02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4314 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki fengið umrætt bréf í hendur þegar hv. 7. landsk. þm. tjáði mér að hann óskaði eftir að spyrja mig út úr efni þess hér á Alþ., og fékk það ekki fyrr en fyrir skömmu fyrir milligöngu hans.

Ég held að það komi ekki neinum þm. á óvart, að vandamál er til staðar varðandi fjármál Orkustofnunar. Það vandamál hefur borið á góma hér á hv. Alþ. áður og það er til staðar. Sannleikurinn er sá, að fjármál þessarar stofnunar eru ekki í því lagi sem vera ber, og hygg ég þá hóflega að orði komist.

Í þessu bréfi er í 1. mgr. sagt frá þeim vinnubrögðum, að gerð sé grein fyrir verkefnum Orkustofnunar í rannsóknaráætlun stofnunarinnar sem liggur fyrir fjvn. Alþ. þegar n. tekur ákvörðun sína um fjárveitingu til þeirra verkefna sem hún vill að framkvæmd séu á viðkomandi ári. Þetta eru út af fyrir sig alveg rétt og skynsamleg og eðlileg vinnubrögð. En að því hefur verið m. a. fundið, að stofnunin hafi ekki farið eftir þeim starfsáætlunum, sem hún hefur lagt fyrir fjvn., og hún hafi ráðið til sín fleiri starfsmenn en hún hafði heimild til samkv. fjárl. og samþykkt fjárveitingavaldsins. Það er verið að kanna réttmæti þessarar gagnrýni, m. a. nú af stjórnskipaðri nefnd sem sett var einmitt á laggirnar til þess að fjalla um fjárhagsvanda Orkustofnunar. Í þessari nefnd eiga fulltrúar frá ýmsum greinum ríkisvaldsins sæti og það er þeirra verkefni að endurskoða fjármál Orkustofnunar og gera till. til endurbóta, gera grein fyrir hvernig á þessum efnahagsfjármálavanda standi og fjárskorti.

Í 2. mgr. þessa bréfs er réttilega á það minnst, að Orkustofnun hefur eytt hærri fjárupphæðum til borana við Kröflu og gufuveitu þar en hún hefur fengið fjárveitingar til að standa undir. Í þessu efni er spurningin hvort hún hafi farið fram úr veittum helmildum, ráðist í fleiri og fjárfrekari framkvæmdir en hún var búin að útvega sér fyrir fram heimild til að ráðast í, eða hvort hér sé um eðlilega hækkun kostnaðar að ræða vegna t. d. verðhækkana eða ófyrirsjáanlegra atvika. Ég vil undirstrika það, að nauðsynlegt er fyrir fjárveitingavaldið, bæði Alþ. og ríkisstj. að gengið sé úr skugga um að stofnun eins og Orkustofnun, sem hefur mjög mikla fjármuni með höndum, fari að heimildum og fari ekki út fyrir heimildir. Slík stofnun, eins og allar aðrar ríkisstofnanir, verður að hafa aðhald og þeim verður að vera ljóst að þær verða að fara eftir settum reglum og halda sér innan veittra fjárveitingaheimilda. Ef Alþ. og ríkisstj. eru ekki ákveðin í því að halda slík vinnubrögð, þá verður fjármálum okkar ekki stjórnað. Þessi nefnd, sem ég gat um áðan, mun fjalla um þetta atriði nákvæmlega og gera sínar ályktanir eftir að fram hafa komið skýringar Orkustofnunar og forráðamanna hennar að þessu leyti.

Þegar svo í 4. mgr. er í þriðja lagi sagt, að fjmrn. hafi tekið fyrst 30 millj. kr. af fjárveitingu Orkustofnunar og síðan 140 millj. til viðbótar til að borga skuldir vegna kostnaðar af framkvæmdum við gufuveitu og boranir við Kröflu, þá er gangur mála mjög einfaldaður.

Ég tel þess vegna nauðsynlegt að greina frá hvernig á þessum fjármunum stendur.

Það er blátt áfram samþykkt af hálfu fjmrn. og iðnrn. með samþykki ríkisstj., að fjárveitingum til Orkustofnunar innan ársins skuli breytt þannig, að fjmrn. borgi út ávísanir iðnrn. fyrr en gert var ráð fyrir samkv. greiðsluáætlun til þess að létta þessar vanskilaskuldir. Það fer svo eftir niðurstöðum og endurskoðun á fjármálum Orkustofnunar, hvenær, hvernig og að hve miklu leyti aflað verður fjár til þess síðar á árinu að endurgreiða þessa fjármuni eða hafa þá til reiðu til venjubundinna verkefna Orkustofnunar. Um það verður ekki hægt að fullyrða á þessu stigi málsins endanlega, en ég tel þó ekki ástæðu til þeirra miklu svartsýni sem um getur í bréfi hagsmunasamtaka Orkustofnunar, þar sem mér skilst að vatnsorkurannsóknir, jarðhitarannsóknir og neysluvatnsrannsóknir muni nær allar falla niður.

Nú skal ég taka það fram, að ef ég man rétt — ég hef ekki litið í fjárlög í tilefni þessa bréfs — eru í fjárl. ætlaðar um 800 millj. kr. til Orkustofnunar. Því til viðbótar eru ætlaðar ýmsar fjárveitingar til sérstakra verkefna. Ég hygg því, að það fari aldrei svo illa að þessi orð hagsmunasamtaka starfsmanna Orkustofnunar rætist, sem betur fer. Ég vil láta það koma hér fram, að það verður auðvitað, þegar svona stendur á, að fara aftur yfir allan verkefnalista Orkustofnunar og forráðamenn Orkustofnunar verða að gera grein fyrir verkefnum stofnunarinnar og kostnaði við þau á árinu að nýju þegar svona er komið, að fjárþröng er til staðar. En að svo miklu leyti sem þessi fjárþröng stafar af eðlilegum ástæðum verður leitast við að leysa úr þeim fjárhagsvanda og á það verður auðvitað lagt kapp, að starfsemi Orkustofnunar sem slíkrar megi ganga með eðlilegum hætti og þau verkefni, sem henni voru ætluð samkv. starfsáætlun, er fjvn. hefur gengið frá, verði haldin. Endurskoðunarnefnd fjármála Orkustofnunar mun skila áliti sínu til ríkisstj., og að fengnu því áliti mun ríkisstj. vitaskuld taka afstöðu til málsins og þeirrar fjáröflunar, sem nauðsynlega blasir þá við, og að svo miklu leyti sem um er að ræða breytingar á starfsáætlunum, er þn. eins og fjvn. hefur fjallað um, þá mun hún verða til kvödd eða undirnefnd hennar, ef tilefni gefst til.

Ég vil svo aðeins ítreka það og leggja á það áherslu, að leitast verður við að halda starfsáætlun þá sem þn. og fjárveitingavald hafa fallist á, en um leið verður með þessari endurskoðun á fjármálum Orkustofnunar að sjá svo um, að fjármálastjórn þessarar stofnunar sem annarra ríkisstofnana sé með þeim hætti að við verði unað og slíkur vandi endurtaki sig ekki.