02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4316 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

Umræður utan dagskrár

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Ég vil taka það fram, að ég er ekki í heild að verja allar aðgerðir Orkustofnunar, — ég er þeim ekki nægilega kunnugur til þess að ég geti skrifað upp á allt sem sú stofnun gerir. Án efa er þar á ýmsan veg með fé farið, eins og hjá ýmsum öðrum ríkisstofnunum, og ég get ekki dæmt um það, þó að ég hafi séð þær skýrslur og starfað í fjvn., hversu skynsamlega þar er á fjármunum haldið hverju sinni. Og ég tek fyllilega undir það, að aðhald sé nauðsynlegt, og eins það, að nefnd fari í þetta mál. — Það er auðvitað gott — og að fengnu áliti þeirrar nefndar verði málið kannað af hálfu ríkisstj. Þetta er allt saman út af fyrir sig gott og blessað og ágætt ef þessu væri beitt sem víðast og menn fylgdust sem allra best með og það í tíma — einnig með því hvernig með skuli farið og hvernig hinar ýmsu stofnanir fara með fjármuni þá sem þeim eru veittir.

Það kom fram í svari hæstv. forsrh., að það, sem segir í bréfinu um þessar 180 millj., er rétt að því leyti til, að þarna hefur verið um samþykkt af hálfu fjmrn. og iðnrn. að ræða með samþykki ríkisstj. að greiða þessa fjármuni fyrr út, eins og hæstv. forsrh. sagði, til þess að létta vanskilaskuldir. En síðan sagði hæstv. forsrh., að það færi svo eftir niðurstöðum síðar, hvort og hvernig um þetta færi. Því miður gat hæstv. forsrh. ekki tekið af nein tvímæli um þetta, hvort hér yrði um það að ræða að farið yrði í þau rannsóknarverkefni sem hefðu verið ákveðin, það kæmi allt í ljós síðar. Þetta hlýt ég að harma, því að hér er um svo mikilvæg verkefni að ræða í orkumálum okkar að ég tel að þrátt fyrir þessi fjárhagsvandræði geti þessi verkefni ekki beðið.

Ég sem Austfirðingur alveg sérstaklega hlýt að minna á að það er ekki langt síðan orkumál á Austurlandi komu sérstaklega til umr. í Sþ. út af fsp. þar. Þar var einmitt verið að spyrja um það, hvort nægilegt fjármagn yrði tryggt til þess að frá fullnaðarhönnun Fljótsdalsvirkjunar yrði gengið á árinu, sem er ein forsendan fyrir því og sú forsenda sem hæstv. ríkisstj. hefur borið fyrir sig að yrði að vera fyrir hendi til þess að hægt væri að taka ákvörðun um þessa virkjun. Þá var upplýst að til þess að þessu mætti ljúka þyrfti um tvöfalda þá upphæð sem áætluð er, og hæstv. iðnrh. gaf um það ótvíræð fyrirheit að mínu viti, að allt yrði gert til þess að við þetta yrði staðið. Ég hygg að sama hafi komið fram þegar sveitarstjórnarmenn eystra gengu á fund hæstv. forsrh., að hann hafi sömuleiðis gefið yfirlýsingar í þá átt, að allt yrði gert til þess að hægt yrði að ljúka þessu verkefni. Ég hygg því að við höfum ekki fengið við þessu þau svör sem ég hefði vænst og hefði vonað. Þó að málið sé í rannsókn, held ég að það hljóti að vera lífsnauðsyn fyrir okkur, að að þessum verkefnum verði staðið svo sem ákveðið var í haust að gert yrði. Þessi verkefni þola yfirleitt ekki bið, það sem ég þekki til þeirra, og við erum að verja til þessara mála meira fé einmitt til þess að hraða framkvæmdum í þessu skyni, auka rannsóknir og flýta þeim. Þar af leiðandi tel ég illa farið ef hæstv. ríkisstj. getur ekki fyrir þinglokin tekið af öll tvímæli um þetta, að það verði farið eftir ákvörðunum fjvn. og Alþ. um það, að hvaða verkefnum eigi að vinna og hvaða fjármagn eigi til þeirra að fara.

Það er vitað að þarna var um mikinn niðurskurð að ræða frá áætlunum Orkustofnunar, gífurlegan niðurskurð á þessum rannsóknarverkefnum, og ef nú enn á að fara skera þau niður, þá er ekki að furða þó að yfir vofi í dag uppsagnir hjá fjöldamörgum sérhæfðum sérfræðingum hjá Orkustofnun, ef nú á enn þá að skera stórlega niður frá því sem þó var búið að gera í haust við afgreiðslu fjárlaga til þeirra nauðsynlegu verkefna sem hæstv. ríkisstj. segir þó, segir vonandi enn, hefur sagt a. m. k., að hefðu algeran forgang.