02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4317 í B-deild Alþingistíðinda. (3567)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að menn geri greinarmun á þeim vanda sem Orkustofnun stafar annars vegar af því, að hún hefur sjálf farið út fyrir heimildir fjárveitingavaldsins og ráðið til sín fleiri starfsmenn og e. t. v. beitt sér fyrir rannsókn á fleiri verkefnum en fjárveitingavaldið veitti fjármagn til, og hins vegar þeim fjárskorti, sem stofnunin býr við vegna þess að hún fór út fyrir veittar fjárveitingar í sambandi við gufuöflun og gufuveitu við Kröflu. Þetta eru tvær höfuðástæður fyrir fjárhagsvanda stofnunarinnar eins og mér kemur hann fyrir sjónir.

Ég vil aðeins láta það koma hér fram, að umræddar 180 millj. kr. eru flýting á greiðslu til stofnunarinnar og eftir er að taka ákvörðun um hvernig úr þeim fjárhagsvanda verði ráðið síðar á árinu, þegar þessi endurskoðunarnefnd hefur skilað áliti sínu.

Það er líka rétt að hér komi fram, að Orkustofnun fær, eins og ég gat um áðan, ákveðnar fjárveitingar til ákveðinna verkefna. Ég hygg að í lánsfjáráætlun hafi t. d. verið ætlaður um 53 millj. kr. til þess að fullhanna virkjun við Bessastaðaá á Austurlandi og þá hafi verið talið að skort mundi hafa annað eins eða rúmlega þá upphæð, og það er sú viðbótarupphæð, 50–60 millj. kr., sem ég hygg, að bæði ég og iðnrh. höfum látið í ljós að æskilegt væri að útveguð yrði til þess að fullnaðarhönnun þessarar virkjunar væri lokið á árinu, án þess að í því fælist skuldbinding um tímasetningu virkjunarframkvæmdanna sjálfra. Þannig er um fleiri verkefni að ræða, sem Orkustofnun hefur með höndum, og því er ákaflega mismunandi með hvaða hætti þessi fjárskortur Orkustofnunar þarf að hafa áhrif til seinkunar á úrlausnum annarra verkefna sem stofnunin hefur með höndum. En allt þetta er nauðsynlegt að fram komi skýrt og skilmerkilega við endurskoðun fjármála stofnunarinnar. Ég held að allir alþm. hljóti að vera áhugasamir um það, að vandað verði til þessarar endurskoðunar og úrlausn á fjárhagsvandanum byggist á því í senn, að aðhald sé veitt stofnuninni og reynt sé að leysa úr brýnum fjárveitingum til aðkallandi rannsóknarverkefna.