02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4329 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil taka mjög undir það með hæstv. ráðh., að það er ískyggileg þróun hjá læknum í þá átt að skylda fólk og skikka til þess að koma til sín á þessar heilsugæslustöðvar og yfirleitt að hreyfa sig ekki úr þeim ágætu stöðvum sem þeir hafa þar. Þetta er orðin árátta, sem mér þykir algerlega óþolandi. Þetta er misjafnt að vísu. Við erum með tiltölulega ungan lækni í okkar héraði nú og hann sinnir þessu ágætlega. En ég veit um önnur dæmi svo neikvæð að þau eru ótrúleg, þar sem læknir jafnvel heimtar til sín á heilsugæslustöð sína sjúklinga sem ég hélt að væri ekki skynsamlegt að fara með í frosti og snjó um vetur með 40 stiga hita. En lækninum þótti það sem sagt eina ráðið, því að hann vildi ekki fara sjálfur út úr eigin stofu og stofuhita þar, heilbrigður — vonandi heilbrigður.

En það var aðeins eitt atriði, sem kom mér til þess að standa hér upp, og það er varðandi þetta, sem við höfum báðir komið inn á, við hv. þm. Halldór Ásgrímsson, að í sambandi við H 2 stöðina á Eskifirði vaknar auðvitað upp sú spurning, hvernig ástandið er núna í þessum efnum. Ég býst ekki við að hæstv. ráðh. geti svarað því núna á stundinni, en vildi þó óska eftir því, að það lægi fyrir okkur í heilbr.- og trn., hvernig ástandið er, hve marga lækna vantar á H 1 stöðvar núna og hve marga lækna vantar á H 2 stöðvar, með tveim læknum eða fleiri. Ég býst ekki við því, að hæstv. ráðh. sé með þetta á takteinum, en gott væri ef hann upplýsti okkur um það nú þegar. Að öðrum kosti óska ég eftir því við formann n., að við fáum um það upplýsingar, á hve margar stöðvar vantar lækna og skiptinguna á þeim í H 1 og H 2. Ég er nefnilega alveg viss um að þó að við hv. þm. Halldór Ásgrímsson fengjum þessari till. okkar framgengt um H 2 stöðina á Eskifirði, þá mundi það ekki breyta neinu um möguleikana á því að fá lækna í einbýlisstöðvarnar.Þetta er að vísu „prinsip“-mál, eins og ráðh. talaði um, og þetta er eflaust að vissu leyti rétt hjá honum, en ég er viss um að þessi eini læknir, sem þarna kæmi til viðbótar, ef hann fengist — og ég er viss um að hann fengist, mundi ekki breyta þessu, nema þessari einu tölu sem þar er á ferðinni. Og ég hygg að það sé ekki svo ástatt um mörg héruð, þótt hér kæmi fram spurning áðan, sem er alveg við þetta mark, sem hefur verið sett þarna, eins og Eskifjarðarhérað er einmitt.

Aðeins svo í sambandi við heilbrigðismálaráði. Það er auðvitað gott og blessað að fá valdið heim í héruðin. En fjvn. Alþ. hefur nú reynt það, held ég, yfirleitt taka tillit til og hafa samráð við þm. hvers kjördæmis um röðun og þær framkvæmdir sem hafa verið á ári hverju, og ég hygg að þm., þótt slæmir séu nú taldir yfirleitt, reyni að gera sér grein fyrir því hvað er nauðsynlegast og hverjar óskir heimamanna eru í hverju tilfelli, ekki síður en þeir sem munu eiga sæti í þessu heilbrigðismálaráði.