07.11.1977
Neðri deild: 12. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

65. mál, sjónvarpssendingar á fiskimiðin

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 71 hef ég ásamt hv. þm. Lúðvík Jósepssyni og Garðari Sigurðssyni flutt frv. til l. um sjónvarpssendingar á fiskimiðin við landið.

1. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. láti nú þegar gera áætlun um dreifingu sjónvarps fyrir fiskimiðin, og skal miðað við að sæmileg sjónvarpsskilyrði náist á sem flestum fiskimiðum við landið á næstu 4 árum, og jafnframt er gert ráð fyrir að framkvæmdir samkv. slíkri áætlun hefjist á árinu 1978.

Í 2. gr. þessa frv, er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. verði heimilað að taka lán til þessara framkvæmda.

Þó að ég hafi á undanförnum a.m.k. tveimur þingum gert nokkra grein fyrir máli sem þessu, þá vil ég þó fara nokkrum orðum um tilganginn og ástæðurnar fyrir því að þetta er flutt í þessu formi nú.

Það hafa átt sér stað miklar umr. um sjónvarpsmál, bæði á þessu þingi svo og á þinginu í fyrra, og margar þáltill, hafa verið fluttar varðandi sjónvarpsskilyrði og sjónvarpsdreifingu. Þær hafa þó flestar, ef ekki allar, verið bundnar við það að bæta sjónvarpsskilyrði á landi. Vissulega er þess mikil þörf að bæta móttökuskilyrði fyrir sjónvarp víðs vegar um landið, og ekkert skal úr því dregið, jafnaugljóst sem það er, að þar þurfi úrbóta við. En þá er að mati okkar, sem að þessu frv. stöndum, jafnframt ástæða til þess að gefa því aukinn gaum, að það er ekki síður ástæða til að gera ráðstafanir í þá átt, að hinum tiltölulega mikla fjölda sjómanna, sem fiskveiðar stundar á miðunum við landið, sé gert mögulegt að njóta útsendinga sjónvarps.

Á þinginu 1973 flutti ég þáltill, þar sem gert var ráð fyrir að ríkisstj. léti gera áætlun um framkvæmd þess að koma útsendingu sjónvarps út á fiskimiðin úti fyrir Vestfjörðum. Í meðförum n. á þessari þáltill. var henni breytt á þann veg, að í staðinn fyrir að þarna var um afmarkað verkefni að ræða að því er varðaði Vestfjarðamið, var till. breytt í það form að gera ráð fyrir slíkum framkvæmdum á öllum miðum í kringum landið. Gerð þessarar áætlunar átti að vera lokið haustið 1973. En það var ekki fyrr en haustið 1974, ári síðar, að fram kom vegna fyrirspurnar um framkvæmd þessarar áætlunar, að áætlun um þetta efni væri lokið. En síðan hefur ekkert gerst, að því er ég best veit.

Ég flutti því frv. um sjónvarpssendingar á fiskimiðin úti fyrir Vestfjörðum á síðasta Alþ. Það frv. komst til n. og n. skilaði því af sér til d., en n. klofnaði í málinu.

Í skýrslu, sem útbýtt var hér á Alþ. í des. 1976, kemur fram að sú n. gerir ráð fyrir byrjunarframkvæmdum að því er varðar dreifingu útsendinga sjónvarps á fiskimiðin fyrst á árinu 1979. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að kostnaður við að koma upp dreifistöðvum, sem kæmu sjónvarpssendingum út á fiskimiðin, mundi nema um 1430 millj. kr. Nú veit ég að vísu ekki hversu nákvæmt hér er í farið að því er varðar till. eða hugmyndir sérfræðinga, hvort hér er um það að ræða að koma sjónvarpssendingum bókstaflega út á öll fiskimiðum í kringum landið. Í mínum huga hefur verið um að ræða fyrst og fremst að gera ráðstafanir til þess að bæta dreifikerfið þannig að koma sjónvarpssendingum út á aðalfiskimiðin í kringum landið, þ.e.a.s. að teygja betur úr þeim sjónvarpssendingum sem nú sjást á þó nokkrum miðum við landið, þannig að sjómenn gætu séð útsendingar með tiltölulega sæmilegum hætti miðað við það sem nú er. Ég a.m.k. hef þá trú, að ef um slíkt væri að ræða, þá væri það miklu minni kostnaður en fram kemur í skýrslu n., sem gerir ráð fyrir að hér sé um að ræða kostnað upp í 1430 millj.

Um þetta frv., sem flutt var í fyrra, eins og ég sagði áðan, varð ágreiningur í fjh: og viðskn. Fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl., þ.e.a.s. stjórnarflokkanna, svo og fulltrúi Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, lögðu til að frv. væri vísað til ríkisstj. vegna þess að ríkisstj. hefði til athugunar skýrslu n. nm dreifingu sjónvarps m.a. til fiskimiðanna. Minni hl. n., sem hv. þm Lúðvík Jósepsson skipaði, lagði hins vegar til að gerðar yrðu breyt. á frv., og að þeim breyt. samþ. lagði hann til að frv. yrði samþ.

Málið fékk ekki afgreiðslu hér í d. Þar sem a.m.k. mér og ég veit að meðflm. mínum að þessu máli er þetta mikið áhugamál, að framkvæmdir hefjist til þess að koma sjónvarpssendingum út á fiskimiðin, þá flytjum við nú frv. í breyttu formi frá því sem ég flutti það á síðasta Alþ. Það hefur verið talað um meira en bara bætta dreifingu á sjónvarpssendingum um landið. Það var líka á síðasta Alþ. og hefur verið einnig núna á þessu þingi mikið rætt um litsjónvarp. Og það verður ekki betur séð á framkvæmdum í þeim efnum heldur en það hafi notið forgangs fram yfir að bæta dreifikerfið almennt, bæði að því er varðar dreifingu á landi og ég tala nú ekki um að því er varðar byrjunarframkvæmdir til þess að koma sjónvarpssendingum út á fiskimiðin. Í þessari skýrslu, sem ég vitnaði til áðan, gerði n. ráð fyrir eða lagði til að til framkvæmda varðandi útsendingar sjónvarps í lit. yrði varið um 50 millj. á árinu 1977. Mér er tjáð að framkvæmdir varðandi þennan þátt, litvæðingu, eins og menn eru nú farnir að kalla það, sé nú þegar búið að verja um 80 millj. kr., og það er allt útlit fyrir að framkvæmdir á þessu ári fari a.m.k. helming fram yfir það, sem n. og skýrslan gera ráð fyrir að gert verði.

Nú skal ég ekki hafa sérstaklega á móti því að sent sé út í lit. En ég er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að hafa forgang fram yfir það að bæta þjónustu við þá landsmenn sem engra sjónvarpsútsendinga njóta eins og er. Það er ekkert vafamál, það hefur verið upplýst og veit raunar hvert mannsbarn í landinu, að litsjónvarp þjónar fyrst og fremst nágrenninu hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er því fyrst og fremst verið að bæta úr fyrir þá, sem aðstöðuna hafa, á kostnað hinna, sem búnir eru að vera án þessarar aðstöðu allt frá því að sjónvarpið komst á laggirnar. Þessu er ég andvígur. Ég tel að það hefði fyrst átt að fara í framkvæmdir að því er varðaði bættan dreifingarbúnað fyrir þá landsmenn sem einskis hafa notið af þessum þó að mörgu leyti ágæta fjölmiðli. En það er greinilegt að ráðandi menn eru annarrar skoðunar. Nú er þegar búið að framkvæma, eins og áður er vitnað til, fyrir a.m.k. 80 millj. kr., og greinilegt er, að áfram á að halda að því er varðar fjármögnun varðandi litvæðinguna.

Við flm. þessa frv. erum þeirrar skoðunar, að því verði ekki lengur unað að ekki verði í það ráðist að hefja framkvæmdir til þess að koma sjónvarpssendingum út á fiskimiðin, og þá erum við að tala um þau fiskimið sem sjómenn stunda hér að verulegu marki á hverju ári. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að á fiskimiðum bæði úti fyrir Vestfjörðum og Austfjörðum eru svo tugum skiptir skip langtímum saman, og þar er um að ræða sjómenn sem skipta hundruðum og eru að því er tekur til fjölda einstaklinga jafnfjölmennir og sum bæjarfélög hér á landi eru sem notið hafa sjónvarpssendinga um árabil. Það er á engan hátt réttlætanlegt að okkar mati að í engu sé sinnt óskum og þörfum þessara einstaklinga sem kannske ættu frekast rétt til að njóta þessa vegna þeirrar sérstöku aðstöðu sem þeir eru í, að vera langdvölum að heiman frá sér, fjarri heimilum og ættingjum, og því miklu meiri ástæða til þess að þeir njóti þessarar þjónustu heldur en kannske margur annar sem er búinn að njóta hennar í mörg ár.

Þetta frv. er sem sagt flutt með það fyrir augum, að nú þegar verði hafist handa á þann hátt að gera fjögurra ára áætlun um að koma sjónvarpssendingum út á fiskimiðin og að framkvæmdir hefjist þegar á árinu 1978. Ég held að ég þurfi ekki að fara um þetta öllu fleiri orðum. Ég hygg að öllum hv. þm, sé ljós nauðsyn þessa máls og að það sé í raun og veru ekkert, sem stætt er á, í andstöðu við málið. Ef menn skoða þetta grannt og kynna sér það, þá hygg ég að þeir komist að þeirri niðurstöðu, að hér sé ekki um að ræða það fjárfrekt fyrirtæki að það sé ekki réttlætanlegt til þess verkefnis, sem því er ætlað, og til þjónustu við þá aðila, sem hér er um að ræða að veita þjónustu af þessu tagi. Ég vænti þess a. m. k., að hv. alþm. taki á þessu máli af skilningi og velvild og að þessu þingi ljúki ekki án þess að málið nái fram að ganga, því að það er vissulega stórmál í hugum sjómannastéttarinnar í heild og það er vissulega ástæða til fyrir alþm. að gefa því gaum.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til að frv, verði vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.