02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4331 í B-deild Alþingistíðinda. (3581)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft frv. til l. um breyt. á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum til meðferðar um stuttan tíma, en hefur komist að þeirri niðurstöðu, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt. Jón Árm. Héðinsson mun skila séráliti.

Ég tel ekki þörf á því, að ég fari mjög út í efnisatriði þessa frv. við þessa umr., þar sem hæstv. landbrh. gerði grein fyrir þeim breytingum, sem hér er aðallega um að ræða, í máli sínu þegar hann talaði fyrir frv. við 1. umr. En við 1. umr. óskaði hv. 2. þm. Norðurl. e. eftir upplýsingum um rekstrarkostnað Stofnlánadeildarinnar, sem hann taldi að hefði verið mjög mikill á þeim tíma þegar hann hafði tækifæri til að fylgjast með. Þær upplýsingar lágu fyrir hjá n., og ég ætla að kynna þær hér og lesa bréf sem Stofnlánadeildin hafði skrifað hæstv. landbrh. og hann framsent til n. Í því bréfi segir svo:

„Samkv. beiðni landbrh. sendum við hér með kostnaðarhlutfall Stofnlánadeildar landbúnaðarins í heildarkostnaði bankans árin 1969–1977, en hlutfallið er sem hér segir:

1969 23.30%, 1970 21.17%, 1971 19.46%, 1972 16.16%, 1973 14.54%, 1974 14.54% (óbreytt), 1975 13%, 1976 12.5% og 1977 12%.“

Við lítum svo á, að það megi eftir þessum tölum álykta að hér hafi snúist til betri vegar með rekstrarkostnað deildarinnar og er það vel.

Ekki síður fyrir þá sök getum við vænst þess, að sú aukna aðstoð, sem deildin fær í álagningu jöfnunargjaldsins, sem er 1%, eins og kom hér fram í umr. verði að verulegu liði fyrir deildina. Það er upplýst, að þegar litið er til lengri tíma jafnast þetta 1% gjald á við 4% vaxtamun sem annars yrði að vera á lánum Stofnlánadeildarinnar, og er það að sjálfsögðu allmikið hagræði fyrir þá, sem lánanna þurfa að njóta, og á að koma um leið landsmönnum öllum að liði.

Eins og ég sagði áðan tel ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál efnislega — það var reifað hér það rækilega við 1. umr., — en ég ítreka að meiri hl. landbn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd.