02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4337 í B-deild Alþingistíðinda. (3591)

187. mál, lögréttulög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. allshn. skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Mér þykir því hlýða að gera hér nokkra grein fyrir sjónarmiðum mínum í þessu máli. En ég vil taka það fram, að ég mun mjög stilla máli mínu í hóf og víkja aðeins að meginatriðum sem ég tel rétt að hér komi fram.

Þetta frv. til lögréttulaga er frv. að merkilegum lagabálki og varðar mál sem hefur grundvallarþýðingu fyrir réttarfarið í landinu, og er þess vegna, hvernig sem á frv. er litið, um hið mikilvægasta mál að ræða. Það hefur verið talið, og kemur fram í grg. með frv. þessu, að það markmið, sem leitast er við að ná með frv., ef að lögum verður, sé í fyrsta lagi að hraða meðferð dómsmála og í öðru lagi að stuðla að meiri aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdavalds. Ég hygg að flestir, ef ekki allir, séu sammála um þetta markmið, og auðvitað hef ég ekkert við það að athuga. Það er svo augljóst mál og hefur nú á síðari tímum verið svo umtöluð nauðsyn þess að hraða meðferð dómsmála, að ég sé ekki ástæðu til þess að fara að fjölyrða um það hér.

Um hitt markmiðið, að stuðla að meiri aðskilnaði dómsvalds og framkvæmdavalds, er líkt ástatt og með hitt, að ég hygg að flestir, ef ekki allir, taki undir slíkt. En þó vil ég í því sambandi minna á það að kenningin um aðskilnað hinna þriggja þátta ríkisvaldsins: löggjafarvaldsins, dómsvaldsins og framkvæmdavaldsins, hefur verið útfærð með mismunandi hætti í hinum ýmsu þjóðlöndum. Sannleikurinn er sá, að í hverju landi hefur framkvæmd þessarar kenningar um aðskilnað hinna einstöku greina ríkisvaldsins verið mjög mismunandi og farið eftir staðháttum og venju og sögulegri hefð í hverju landi fyrir sig. Og ég held að í öllum umr. um aðskilnað þessara þátta ríkisvaldsins ættum við líka að hafa þetta í huga og hyggja vel að því, hverjar aðstæður eru og hver þróunin hefur verið í landi okkar, og það beri að taka nokkurt mið af því.

En þó að allir séu sammála um þessi tvö höfuðmarkmið með þessu frv., þá er augljóst mál að leikið getur nokkur vafi á því og menn getur greint á um það, hvernig þessum markmiðum verði best náð, og kemur þar ýmislegt til greina. Ég skal ekki fara að ræða þetta almennt, en ég hafði hugsað mér að víkja sérstaklega að einu viðhorfi varðandi þessi mál sem eru að mínu viti ákaflega þýðingarmikil.

Þegar ákveða á dómskipan landsins þarf m. a. að taka mið af landsháttum. Skiptir þá miklu máli hver staðarmörk eru sett valdsviði dómstóla. Með skiptingu landsins í umdæmi er stuðlað að jafnvægi í byggð landsins. Þegar umdæmi dómstóla eru ákveðin ber að hafa í huga aðra umdæmaskipan opinbers valds í landinu. Íbúar einstakra landshluta líta þeim mun frekar á sig sem eina heild, því fleira sem þeir hafa sameiginlegt. Þannig verða landshlutarnir eða umdæmin sterkari einingar inn á við og út á við.

Í frv. þessu, sem hér er til umr., er gert ráð fyrir dómaskipun sem hefur það í för með sér að sums staðar á landinu verða menn að leita eða hafa ekki tryggingu fyrir því að þeir þurfi ekki að leita í annan landsfjórðung til að reka mál sín á fyrsta dómstigi. Ég hygg að við þurfum að staldra við áður en við setjum lög sem hafa þessa þýðingu. Ég ætla að ef svo yrði farið að, þá væri það í fyrsta sinn síðan að fornu, að vorþingin voru stofnuð, sem menn hefðu ekki tryggingu fyrir því að þeir gætu, ef þeir vildu, rekið mál sín á fyrsta dómstigi í eigin landsfjórðungi. Með tilliti til þessa hefur hugsun mín varðandi þetta frv. mjög snúist um það, hvernig mætti bæta úr þessum annmarka.

Það er hægt að hugsa sér, að ýmsar leiðir komi til greina. Það er t. d. hægt að hugsa sér, að svo sé kveðið á, að það skuli vera lögrétta með föstu aðsetri í hverjum landsfjórðungi fyrir sig. Ég veit að þegar slíkri hugsun er hreyft, þá spyrja sumir hvort það mundi ekki kosta of mikið, það sé ekki vandi að hafa fullkomna dómaskipan ef ekki þurfi að líta á kostnaðarhliðina, og auðvitað verður ekki litið fram hjá þessu. En ég bendi á, að þegar þetta frv, var borið fram á þessu þingi, þá var orðin á því ein breyting frá því, sem frv. var fram borið á fyrra þingi, á þá leið, að það væri ekki skilyrði að í hvorri lögréttu væri fjöldi dómara þrír, heldur gæti það verið einn. Mér hefur komið til hugar að einmitt þetta, að fækka dómendum eins og heimilt er samkv. frv. nú, gæti frekar stutt að því að framkvæma þá hugmynd að hafa lögréttu í hverjum landsfjórðungi. En ég geri mér grein fyrir hverjir eru annmarkarnir á því. Málafæð í ýmsum landshlutum er það mikil, að það kann að vera hæpið að grípa til þessa ráðs, og ég hef ekki á þessu stigi treyst mér til þess að bera fram brtt. í þessa átt. En innra með mér er ég ekki sannfærður um að það sé útilokað að finna einhverja lausn á þennan veg.

Þá er það önnur hugmynd sem ég hef látið mér koma til hugar, og hún er sú, ef byggt er á ákvæðum þessa frv. um tvær lögréttur, hvort það kæmi til greina að gera þá breytingu, að lögrétturnar yrðu aldrei fyrsta dómstig, en yrðu alltaf annað dómstig og þá í þeim málum sem samkv. frv. er gert ráð fyrir að lögrétturnar dæmi sem annað dómstig, þ. e. a. s. þeim sem greind eru í 15. gr. frv., 1. tölul. málin 1.1–1.7., þ. e. a. s. áskorunarmál, víxla- og tékkamál, barnsfaðernismál, mál til ógildingar skjala, kjörskrármál o. fl. Það er svo, að ég hygg að þessi mál, sem hér um ræðir, séu um 90% af öllum dómsmálum í landinu. Þannig mætti ætla, að þó að hlutverk lögréttu væri einungis bundið við annað dómstig þessara mála, þá mundi verulega muna um slíkt í viðleitninni til þess að hraða meðferð dómsmála og létta á verksviði Hæstaréttar. En ef horfið yrði að þessu, þá yrði óbreytt sú skipan sem nú gildir um fyrsta dómstigið, og það verður að viðurkennast, að það er ákaflega mikil þörf fyrir að styrkja einmitt fyrsta dómstigið, og með tilliti til þess hef ég ekki að svo stöddu treyst mér til þess að bera fram ákveðnar till. um þetta efni. En ég hef velt þessu nokkuð fyrir mér og mér finnst rétt að láta þessa hugmynd koma fram. Og þó að ég hafi ekki borið fram till. í þessa átt, þá þýðir það ekki að ég hafi með sjálfum mér endanlega útilokað að eitthvað í þessa átt gæti komið til greina.

Ég nefni aðeins þriðju leiðina sem mér hefur dottið í hug. Hún er á þá leið, að lögréttan verði einungis ein með aðsetri í Reykjavík, en verði skipt í deildir, eina deild fyrir hvern landsfjórðung, og kannske mundi það minna á þá skipan sem var á fjórðungsdómunum á sinni tíð. En ég hef ekki heldur borið fram brtt. um þetta. Mér innst það nokkuð viðamikið. En mér finnst að þetta sé hugmynd sem sé fyllilega þess virði að hreyfa henni hér og að hún verði athuguð.

Ég gæti talið upp fleiri hugmyndir sem stuðla að því að taka á þessu máli með það sjónarmið í huga að tryggja sem best rétt og stöðu manna, hvar á landinu sem þeir búa, og að reyna að ná því grundvallarmarkmiði í mínum huga, að skipulagið sé þannig að það sé ekki útilokað að hver og einn, sem leitar til dómstólanna, geti gert það á fyrsta dómstigi í sínum landshluta.

Ég hef komið hér með brtt. á þskj. 805. Þær brtt miða í þá átt sem ég vildi stefna í þessu efni. En ég verð að viðurkenna að þær ganga verulega skemur í þessa átt en ég gjarnan hefði viljað. Hv. frsm. n. vék að því ákvæði, 12. gr. frv., sem er á þá leið, að dómsmrh. getur mælt fyrir um regluleg dómþing utan Reykjavíkur og Akureyrar. Hér er um ákvæði að ræða sem ekki er hægt að hafa á móti, nema síður sé. En hér er einungis um heimildarákvæði að ræða. Ráðh. þarf ekki að mæla fyrir um regluleg dómþing utan Reykjavíkur og Akureyrar nema honum þóknist svo. Till. mín gengur út á það — það er till. 1 á þskj. 805 — að orða þetta efni á þann veg, að regluleg dómþing skuli haldin utan Reykjavíkur. Og lagt er til að þetta ákvæði sé tekið upp í 1. gr. frv. og undirstrikuð þannig sú stefnumörkun — viss stefnumörkun — sem fram kemur í þessari brtt. Hér segir í þessari brtt., að hin reglulegu dómþing skuli haldin utan Reykjavíkur og Akureyrar þar sem þörf krefur. Það er sjálfsagt engin ástæða til þess að vera að hafa regluleg dómþing þar sem ekki er þörf. Það kann kannske að vera að sumum finnist þegar tekið er fram:„þar sem þörf krefur“, að það sé lítill munur á þessu ákvæði og heimildarákvæðinu í 2. gr. sem ég áður hef vikið að. En í mínum huga er þetta verulegur munur, vegna þess að ef brtt. mín verður samþykkt lít ég svo á, að ef ósk kemur um að regluleg dómþing skuli haldin utan Reykjavíkur og Akureyrar, þá verði ráðh. að taka það mál fyrir og taka ákvörðun um hvað skuli gert og þá verði að sjálfsögðu að færa rök fyrir því, ef ekkí verður orðið við þeim óskum sem fram eru bornar í þessu efni.

Önnur brtt. á þskj. 508 er um að 12. gr. frv. orðist svo sem þar segir. Hér er í raun og veru ekki um að ræða aðra breytingu heldur en leiðir af fyrri brtt., og hin síðari breyting er nauðsynleg afleiðing af hinni fyrri, ef brtt. verður samþykkt.

Ég sagði í upphafi máls míns, að ég ætlaði að stilla máli mínu í hóf, og ég ætlaða standa við það þó að það væri freistandi að víkja að einstökum atriðum. Það væri t. d. freistandi að víkja að lögréttuheitinu sjálfu sem sett er á þá dómstóla sem gert er ráð fyrir samkv. þessu frv. að verði stofnaðir. Það kann að vera aukaatriði hvað þessir dómstólar eru kallaðir, en ég verð að segja það, að þessi nafngift kemur ekki vel við mig og mér fyndist að það gæti farið vel á því þess vegna að breyta hér nafni. Lögrétta vekur ýmsar minningar og tilfinningar. Lögrétta er sérstakt heiti á sögulegri stofnun og það minnir ekki sérstaklega á dómstól. Þegar við hugsum til Lögréttu, þá höfum við í huga þá tíma þegar vegur Lögréttunnar stóð sem hæst og þegar við vorum stoltastir af þeirri stjórnskipan sem hún var veigamikill þáttur í. Okkur kemur ekki til hugar sérstaklega dómstóll. Hlutverk Lögréttu að fornu var það, að þar gátu menn rétt lög sín, eins og það var kallað, þ. e. a. s. það var hægt að skýra lögin, en þær skýringar höfðu ekki dómsígildi. Hlutverk Lögréttu var að gera nýmæli, þ. e. a. s. að setja lög. Og enn má minna á að það var hlutverk Lögréttu að veita leyfi, þ. e. a. s. að veita undanþágur frá lögum. Og þetta minnir á það, að aðskilnaður löggjafarvalds og dómsvalds er eitt merkilegasta atriðið í löggjöf Íslendinga á þjóðveldisöld. Og það liðu aldir þar til það fór að brydda á því, að Lögrétta væri einnig dómstóll, eins og var á árunum frá 1271–1661. En það er ekki fyrr en eftir 1661, að ég hygg, að það sækir verulega í þá átt, að Lögrétta verði dómstóll, og ekki að fullu fyrr en á mesta niðurlægingartíma okkar á 18. öld. Það eru lög í Lagasafninu okkar í dag sem eru frá Lögréttu. Ég minni á alþingissamþykkt frá 1. júlí árið 1700 um almanaksbreytinguna, þegar hér var með lögum ákveðið að hverfa frá júlíanska tímatalinu og taka upp gregoríanska tímatalið. Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta. En þetta vekur þá spurningu, hvernig mönnum litist á það, ef Hæstiréttur hefði hlotið nafnið „Alþingi.“ Ég hygg að mönnum hefði ekki líkað það. Og þó að ég sé ekki að leggja þetta að jöfnu, þá hefur þetta eitthvað hliðstæð áhrif á mína málkennd og mínar tilfinningar. En eins og ég sagði í upphafi, þetta er kannske ekki aðalatriði. Mér fannst þó ekkert á móti því að lýsa þessari skoðun.

Ég sagði að það væri freistandi að minnast hér á einstök atriði. Það er t. d. það, að mér finnst spurning hvort það sé rétt að forseti lögréttu skuli vera skipaður ævilangt í starf, t. d. hvort það sé ekki heppilegri skipan að dómendur kjósi forseta í lögréttunni, menn geti skipst á um að skipa það sæti. Fleira mætti hér telja upp af slíkum atriðum sem þessum, en ég skal ekki tefja tímann með því.

En ég vil taka skýrt fram að það, sem ég hef verið hér að tala um frv., má ekki á neinn hátt skilja að leggja út sem eitthvert sérstakt vantraust af minni hálfu á réttarfarsnefnd sem hefur unnið þetta verk. Hennar vandi er mikill, og það er mitt álit að þeir, sem hér hafa verið að störfum, hafi unnið mikið og gott verk. En auðvitað geta verið skiptar skoðanir um viss stefnumarkandi atriði og ég hefði kosið að þetta frv. hefði verið meira í þá átt sem ég hef hér verið að túlka. Og ég er að vona að það verði ekki svo gengið frá þessu máli, að þessi atriði verði ekki athuguð nokkru nánar. Ég er þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að gera endurbætur á dómaskipuninni — mjög nauðsynlegt, og tek undir hin almennu sjónarmið manna hvað það varðar. En ég tel að þegar um svo veigamikið mál sem þetta er að ræða, gjörbyltingu og mætti segja byltingu á dómaskipuninni, þá þurfi mjög að vanda sitt ráð áður en endanlega er gengið frá málinu. Samkv. þessu tel ég mig vera mjög jákvæðan í þessu máli að því leyti, að ég tel að það þurfi að koma hér breyting á, og með tilliti til þess skrifaði ég undir nál. En ég er með sjálfum mér í vafa — mjög miklum vafa um viss veigamikil atriði í frv., og vegna þess almennt hafði ég fyrirvara fyrir undirskrift minni undir nál.