02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4345 í B-deild Alþingistíðinda. (3599)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er aðalefni þessa frv. að gefa verslunarálagningu í landinu frjálsa svo og verðlagningu á ýmiss konar þjónustu. Því skal að vísu ekki haldið fram, að núverandi ástand verðlagsmála sé fullnægjandi og að unnt sé að vera ánægður með það ástand sem ríkjandi er. Framkvæmd verðlagseftirlits er ófullkomin, og tvímælalaust væri full þörf á því að efla það og gera almenningi betur kleift að fylgjast með verðbreytingum. Þrátt fyrir allt eru gildandi lagafyrirmæli til þess falinn að velta þeim aðilum, sem stunda verslun og viðskipti, nokkurt aðhald. En þetta aðhald þyrfti að efla og auka. Það er hins vegar ljóst af því frv., sem hér liggur fyrir, að núv. þingmeirihluti, þingmeirihluti Sjálfstfl. og Framsfl., hefur komið sér saman um að stefna í þveröfuga átt.

Kaupsýslumenn eiga að fá samkv. aðalreglu sjálfdæmi um verslunarálagningu. Afleiðingin getur ekki orðið önnur en sú, að álagning mun hækka verulega og þar með allt vöruverð. Þeir, sem hlýddu á framsöguræðu hv. seinasta ræðumanns, Jóns Helgasonar, sem mælti fyrir nál. meiri hl., hafa vafalaust tekið eftir því, að hann reyndi að halda því fram og færa rök að því, að það væri nú síður en svo að verið væri að gefa verslunarálagninguna frjálsa. Var nánast á honum að skilja að frv. fæli í sjálfu sér ekki í sér neina verulega breytingu frá því sem nú væri í gildi. Ég held að ég þurfi ekki á aðstoð hv. þm. Jóns Helgasonar að halda til þess að komast að raun um hvað fólgið er í þessu frv. Í 8. gr. þess segir, með leyfi forseta:

„Þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag skal verðlagning vera frjáls.“

Þetta er að sjálfsögðu mikilvægasta ákvæði frv. Í þessum orðum felst að frjáls verðlagning er gerð að aðalreglu þess kerfis sem á að taka við. En við vitum að samkv. núgildandi kerfi er hitt aðalreglan, að opinberir aðilar ákveði álagninguna. Það skal að vísu viðurkennt, að hin frjálsa verðlagning er háð ákveðnu skilyrði sem skýrt kemur fram í 8. gr. þótt loðin verði að teljast, þ. e. a. s. þetta margendurtekna skilyrði, að samkeppni sé nægileg. Sé hún nægileg að dómi svonefndra samkeppnisnefnda, þá er verðlagningin gefin frjáls. Ég þykist vita að í æðimörgum tilvikum muni vera hægt að halda því fram t. d. hvað snertir verslunarrekstur hér á Reykjavíkursvæðinu, að samkeppni sé fyrir hendi. Eða hvað telja menn eiginlega að felist í þessu orði annað en það, að fleiri en einn aðili annist sölu á viðkomandi vörutegund?

Vegna þess að svo vill til í langflestum tilvikum, að fleiri en einn aðili er um boðið og þeir hafa ekki samband sín í milli, verður vafalaust sagt sem svo, að um sé að ræða samkeppni. Þar af leiðandi verður álagningin gefin frjáls. Það er beinlínis skylt samkv. þessu lagaákvæði. Í þessu er meginbreytingin fólgin og ekki nokkur þörf á því að vera að vefja hana í eitthvert orðskrúð, nema menn vilji beinlínis hafa uppi blekkingar.

Við Alþb.-menn teljum að frjáls álagning eigi ekki rétt á sér í hvert einasta sinn sem unnt er að segja að samkeppni sé nægjanleg. Við teljum að önnur skilyrði þurfi einnig að vera fyrir hendi og að það vanti gersamlega í frv. að gera grein fyrir þessum skilyrðum.

Eitt mikilvægasta skilyrði þess, að frjáls álagning geti átt nokkurn minnsta rétt á sér og þá um leið að þessi svokallaða frjálsa samkeppni geti gengið með eðlilegum hætti, er það, að um sé að ræða stöðugt verðlag. Það atriði er ekki síður mikilvægt heldur en að um samkeppni sé að ræða. Sé þetta skilyrði ekki fyrir hendi og verðlag sé hækkandi ár frá ári, jafnvel mánuð eftir mánuð, ef ekki viku eftir viku, sem er við ríkjandi aðstæður, er allt þetta háværa tal um nægilega samkeppni orðskrúð og innantómt gjálfur og ekkert annað. Það er af þessari ástæðu sem við Alþb.-menn mótmælum harðlega setningu þessara laga, sem við teljum að muni bersýnilega hafa í för með sér hækkandi verðlag. Neytendur, sem eru sá aðilinn sem samkv. þessari hugsun um frjálsa samkeppni og frjálsa álagningu á að annast það aðhald sem stjórnvöld hafa nú, hafa enga möguleika til að gegna þessu hlutverki þegar verðlag er ekki stöðugt, hafa ekki minnstu möguleika til að fylgjast með því, hvort þessi aðilinn býður í raun betra boð en einhver annar. Því má hiklaust segja, að þó að samkeppni sé nægileg að forminu til á þann hátt, að fleiri en einn séu um boðið, þá er hún ekki í reynd fyrir hendi þegar verðlag er mjög breytilegt. Þá er þessi frjálsa samkeppni og frjálsa verðlagning hrein blekking.

Aðalatriði þessa máls eru því þau, að við búum í þjóðfélagi þar sem geisar mikil verðbólga. Verðlagið breytist frá viku til viku, og kaupsýslumenn sækja fast á að fá meira í sinn hlut í formi aukinnar verslunarálagningar. Það er við þessar aðstæður sem núverandi ríkisstj. segir: Það er sjálfsagt að kaupmenn og viðskiptaaðilar ráði því sjálfir, hvaða verð þeir setja á vöru sem þeir selja. Þeir eiga að hafa frelsi til að ákveða tekjuhlut sinn sjálfir. — Og þessi stefna ríkisstj. er alveg sérlega athyglisverð fyrir kjósendur í komandi kosningum og mun ekki verða sparað að benda þeim á það. Þegar haft er í huga að á sama tíma segir ríkisstj.: Við verðum að ákveða laun vinnandi fólks. — Um þau mál mega ekki einu sinni gilda frjálsir samningar, hvað þá að vinnandi fólk megi ákveða sjálft hvaða kaup það fær. Nei, launafólkið má ekki tryggja sig með samningum gegn sívaxandi dýrtíð. Það verður að ákveða launin fyrir það með lagasetningu frá Alþ., og það er það sem gert hefur verið nú fyrir skemmstu. Á hinn bóginn segir ríkisstj.: Það er sjálfsagt að vextirnir hækki í hlutfalli við verðbólgu og tekjur ríkissjóðs hækki í hlutfalli við dýrtíð. — En að kaupið hækki í hlutfalli við verðbólguna er bannað með lögum. Álagningin á ekki aðeins að hækka eftir mati kaupsýslumanna á því, hver er þörf hjá þeim að hækka vöruna miðað við verðbólguþróunina, þeir geta hakkað álagninguna enn frekar.

Ég held að það fari ekkert milli mála, að þetta frv. skýri og sýni svo ljóslega sem verða má hver er stefna Sjálfstfl. og Framsfl. í dýrtíðar- og verðlagsmálum . Það er þetta sem ég hef verið hér að segja: Launamenn, sjómenn og raunar bændur, sem ég hef ekki vikið sérstaklega að hér, allir þessir aðilar verða að vera undir eftirliti, þeir fá ekki frjálsan samningsrétt, en kaupsýslumenn og milliliðir eiga að ákveða launakjör sín sjálfir.

Í þessu frv. er fólgin nokkur sjónblekking gagnvart þeim sem ekki kynna sér efni þess gjörla. Í núv. verðlagslögum er gert ráð fyrir verðlagsnefnd sem skipuð er fulltrúum atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar, auk þess fulltrúa sem tilnefndur er af viðskrh. Í þessum lögum er hliðstætt ákvæði, þar sem er ákvæðið um verðlagsráð sem upphaflega var gert ráð fyrir að í ættu sæti sjö menn, þar af tveir samkv. tilnefningu samtaka launþega, en eiga nú að verða níu menn, þar af þrír samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Og þá liggur beint við að segja sem svo, að hér sé um einhverjar hliðstæður að ræða og verkalýðshreyfingin hafi hönd í bagga með hver framkvæmd laganna verði. En þetta er sjónblekking, eins og ég nefndi áðan, vegna þess að völd þessara tveggja stofnana eru alls ekki hliðstæð. Það er nefnilega önnur stofnun, sem heitir samkeppnisnefnd, sem ákveður hvenær og á hvaða sviðum verðlagning skuli vera frjáls og hvenær hún skuli ekki vera það. Og þessi samkeppnisnefnd er þannig skipuð, að í henni eiga sæti þeir tveir verðlagsráðsmenn, sem Hæstiréttur skipar, auk formanns verðlagsráðsins sem er skipaður án tilnefningar. Aðilar vinnumarkaðarins og þar með verkalýðshreyfingin hafa þannig ekkert um það að segja, í hvaða tilvikum álagning er gefin frjáls og í hvaða tilvikum hún er ekki gefin frjáls. Eins og segir í upphafi 4. gr.: „Verðlagsráð getur fjallað um öll þau mál, sem lög þessi taka til. Ákvörðunarvald í málum samkv. IV. kafla og . . .V. kafla þessara laga er í höndum samkeppnisnefndar, sem í eiga sæti formaður Verðlagsráðs og þeir tveir verðlagsráðsmenn, sem Hæstiréttur skipar. Ákvörðunarvald í öðrum málum er í höndum Verðlagsráðs.“ Mér virðist því ljóst, að ákvörðunarvald um þetta atriði er í höndum samkeppnisnefndar, enda er beinlínis í 8. gr. 2. mgr. vísað til IV. kafla laganna, þar sem segir:

„Reynist samkeppni takmörkuð, eins og nánar er tilgreint í IV. kafla, eða samkeppni er ekki nægileg til að tryggja sanngjarnt verðlag eða horfur á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar, þá getur verðlagsráð ákveðið eftirtaldar aðgerðir til að ná því takmarki, sem getur í 1. gr.:

1. Hámarksverð og hámarksálagningu.

2. Gerð verðútreikninga eftir nánari reglum.

3. Verðstöðvun í allt að 6 mánuði í senn.

4. Aðrar reglur um verðlagningu og viðskiptakjör, sem verðlagsráð telur nauðsynlegar hverju sinni.

Þetta á greinilega aðeins við, ef samkeppnisnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu, að verðlagningin skuli ekki vera frjáls vegna þess að samkeppnin sé takmörkuð, sbr. IV. kafla laganna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um ákvæði þessa frv. Ég hef gert hér grein fyrir því, hvers vegna við Alþb.-menn erum andvígir þessu frv. Það er einfaldlega vegna þess, að allt hjal um nægilega samkeppni í þjóðfélagi, þar sem verðlag er mjög breytilegt, er út í hött. Við munum því greiða atkvæði gegn þessu frv. Okkar stefna er sú, að við núverandi aðstæður þurfi að efla verðlagseftirlit og framfylgja stranglega þeim heimildum sem eru í gildandi lögum til þess að koma í veg fyrir óeðlilegt verðlag á vörum og þjónustu.