02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4349 í B-deild Alþingistíðinda. (3601)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma að hv. 5. þm. Norðurl. v. skuli vera fjarverandi. Ég hefði gjarnan viljað svara honum nokkrum orðum, en reyni að beina máli mínu í aðra átt meðan hann er í burtu.

Eins og kom fram í ræðu hv. 1. landsk. þm. kom verðlagsstjóri á fund fjh.- og viðskn. í morgun. Bar ég þá upp við hann sömu spurningu og ég varpaði hér fram við 1. umr. þessa frv., en hún var á þessa leið: Hvað skortir á að samkeppni sé nægileg til þess að verðlagning geti nú þegar verið frjáls? Það vafðist fyrir honum að svara spurningunni, en þó kom svar hans á þá leið, að enn væri eftir að kanna ýmislegt áður en hann gæti svarað þeirri spurningu. Jafnvel taldi hann að sú breyting, sem var gerð á frv. við meðferð í Nd., að gildistaka yrði bundin við 6 mánuði frá samþykkt þessa frv. hér í þessari hv. d. væri of stuttur aðlögunartími.

Ég er verðlagsstjóra alveg sammála. Ég tel nauðsynlegt að þetta mál, frv. í heild sinni, verði kannað miklu betur en gert hefur verið og fullkannað, áður en Alþ. samþykkir það sem lög. Ég ítreka það sem ég sagði við 1. umr. þessa frv. að ég tel fráleitt að fela nefndum eða ráðum úti í borg eða bæ að ákveða hvenær eða hvort samþykkt Alþ. taki gildi. Ég vil að þeir aðilar, sem hafa unnið að þessu frv., og kannske einhverjir fleiri, verði beðnir um að fullkanna málið og svara þeim spurningum sem fyrir hafa verið lagðar hér: Hvað vantar upp á það, að verðlagning eða verðmyndun geti verið frjáls? Hvað vantar á að við getum hér á Íslandi búið við sömu skilyrði í þessari atvinnugrein og starfsbræður í öðrum löndum? Það hefur ekki fengist neitt svar við þessu.

Ég verð að segja það, að ég vorkenndi hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. þegar hann mælti með samþykkt þessa frv. Mér fannst hann tala án sannfæringar. Maður les á milli orðanna, enda var það augljóst á málflutningi hans, að ekkert eigi að gera í neinni fljótfærni, heldur eigi alltaf að vera möguleiki á að grípa í taumana, — ég skil það þannig, — koma hlutunum aftur í það ástand, skulum við segja, sem nú ríkir, ef einhver skyldi sjá fyrir að þessi lög verkuðu ekki eins og til er ætlast af einhverjum, sem ég veit ekki hverjir verða, í viðkomandi nefndum og ráðum sem upp eru talin í frv. Það segir líka í 8. gr., í 4. tölul. sem þar er, að verðlagsráð geti sett aðrar reglur um verðlagningu og viðskiptakjör sem verðlagsráð telur nauðsynlegar hverju sinni — alveg ótímabundið. Það getur tekið í taumana hvenær sem því dettur í hug, sem sagt, því er þarna gefið alræðisvald.

Ég harma það aftur, að hv. 5. þm. Norðurl. v. er — ja, hann gengur nú í salinn og fagna ég því. Eins og ég hef áður sagt úr þessum hv. ræðustól er mikill skoðanamunur, eins og gefur að skilja, þ. e. lífsskoðanamunur á milli hans og mín. Við erum báðir sammála um að aðalatriðið í þessu frv., eins og hann réttilega gat um, er frjáls álagning. Hann er á móti frjálsri álagningu á þeim forsendum, að hún sé ekki hugsanleg við breytilegt verðlag. Ég vil aftur á móti halda því fram, að frjáls álagning sé hugsanleg ekki bara við breytilegt verðlag, en jafnvel einmitt vegna breytilegs verðlags. Það er alltaf breytilegt verðlag á vörum eins og kaffi, sykri og hveiti. Tökum til dæmis járn, stál eða ýmislegt annað. Þar eru alltaf verðsveiflur. Það er alveg sama hvort verðbólga geisar eða ekki, það hafa alltaf verið verðsveiflur á þessum og mörgum öðrum vörutegundum. Þannig verður verðlag alltaf breytilegt ef um frjálsa samkeppni er að ræða.

Ég er líka ósammála hv. 5. þm. Norðurl. v. um það, að framkvæmd verðeftirlitsins hafi verið slæleg eða ekki nóg. Verðeftirlitið hefur starfað sem verðeftirlit til fyrirmyndar á margan hátt og ég hef ekkert undan því að kvarta og ég veit ekki til þess, að kaupsýslumenn hafi almennt kvartað undan verðeftirlitinu. Ég held að það hafi starfað mjög vel og oft verið gott að leita til þess með alls konar upplýsingar. En við erum bara á móti verðeftirliti og viljum frjálsa verðmyndun. Það er ekki verið að kasta rýrð á þá, sem hafa starfað að verðeftirlitinu. Það hefur verið ágætt í starfi sínu. Ég er ekki heldur sammála hv. þm. um að þingmeirihl. hafi komið sér saman um aukið frjálsræði fyrt en Alþ. hefur ákveðið það sjálft, að verðlag skuli vera frjálst.

Það er talað um hátt verðlag og það muni kannske hækka. Ef við tölum um hátt verðlag og tökum þá lið fyrir lið: Hvað er það sem myndar verðið, og hvaða milliliður er stærstur af öllum, við skulum segja milliliðaaðilinn? Það er ríkið sjálft. Það er því alveg rétt sem hv. þm. sagði, að verðbólgan er að mörgu leyti heimatilbúin. Ég skildi hann þannig. Ég veit ekki hvort hann átti við það, en ég túlka orð hans þannig, að þetta breytilega verðlag væri mikið til heimatilbúið. Ég er honum sammála um það.

Ég er því miður neyddur til að mótmæla því, að kaupmenn ákveði eigin laun og þetta frv. gefi þeim eitthvert tækifæri fram yfir aðrar stéttir til að ákveða sér tekjur. Og ég verð að ítreka það, sem ég sagði við 1. umr., að kaupsýslumenn, sem hann er með í huga, sem eiga að ákveða sín laun, verða að borga allan þann milliliðakostnað sem safnast á vöruna frá því að þeir gera innkaup erlendis þar til þeir skila henni í hendur neytandans, en fyrirtæki fólksins hér þurfa aftur á móti ekki að standa undir þessum uppsafnaða milliliðakostnaði á einn eða annan hátt. Ég taldi upp við 1. umr. alla þá útsölustaði sem Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hefur í Reykjavík í samkeppni við aðra kaupmenn. Sláturfélag Suðurlands er með álíka marga útsölustaði og eigin framleiðendur. Og svo Samband ísl. samvinnufélaga með alla þá milliliðaþætti sem þeir þurfa þá ekki að kaupa sjálfir. Ég gat um þá. Þeir eiga ekki bara sameiginleg innkaup með stórum norrænum innkaupahringum samvinnufélaga, heldur flytja þeir vörurnar með eigin skipum, þeir tryggja þær í eigin vátryggingarfélagi, þeir hafa eigin banka, þeir skipa vörunum upp með eigin vinnuafli og geyma vörurnar í eigin pakkhúsi, þangað til þeir dreifa þeim á útsölustaði og til neytenda. Þarna kemur enginn milliliðakostnaður. En þrátt fyrir allt þetta er verðlagið það sama og annars staðar. Af hverju er þetta? Það eru þannig hinir vondu kaupmenn, sem geta ráðið sjálfir launum sínum. Ég mótmæli því. Og þessi fyrirtæki fólksins, sem margir vilja halda fram að þau séu, eiga þá að koma í veg fyrir með sinni samkeppni að verðlagið hækki eða fari úr böndum!

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég vil taka undir það sem kom fram hjá verðlagsstjóra í morgun. Hann treysti sér ekki að segja til um það, hvað skorti á til þess að verðmyndun geti verið frjáls. Hann sagði að margt þyrfti að athuga og skoða. Hann taldi 6 mánuði of lítinn tíma, en að sjálfsögðu mundi hann gera allt sem hann gæti til þess að vinna það verk sem þarf að vinna í endurskipulagningu og athuga hvað vantar til þess að verðmyndun geti almennt verið frjáls.

Ég tel alveg fráleitt að þeir, sem eru látnir vinna að frumvarpsgerð, skili þeim ekki þannig í hendur Alþ.,Alþ. sjálft geti tekið endanlega ákvörðun um gildistöku laganna. Vegna þess treysti ég mér ekki til þess að standa að samþykkt þessa frv.