02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4351 í B-deild Alþingistíðinda. (3602)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Mér hefur verið bent á að í ræðu minni um þetta frv. áðan hafi ég misskilið eitt atriði frv. Þykir mér rétt að leiðrétta það atriði, en það var að samkv. 4. gr. væri ákvörðunarvald um frjálsa verðlagningu í höndum samkeppnisnefndar, en ekki verðlagsráðs. Orðalag 4. gr. bendir eindregið í þá áttina, sérstaklega þegar það er lesið með hliðsjón af 2. mgr. 8. gr., og ekkert í þessum tveimur greinum segir ótvírætt að verðlagsráð taki ákvörðun um það, hvort verðlagning skuli vera frjáls. Það er beinlínis sagt í 4. gr., að ákvörðunarvald í málum samkv. IV. kafla laganna sé í höndum samkeppnisnefndar. IV. kaflinn fjallar einmitt um þær aðstæður þegar samkeppni er ekki talin vera fyrir hendi. Þetta verður raunverulega ekki, ef annað kemur ekki til, skilið á annan veg en þann, að samkeppnisnefndin hafi þetta ákvörðunarvald í sínum höndum. Hæstv. ráðh. hefur hins vegar bent mér á að þannig beri ekki að skilja þessar greinar og hefur bent á ákvæði til bráðabirgða máli sínu til stuðnings, en þar segir:

„Þær samþykktir um hámarksálagningu, hámarksverð og aðra framkvæmd verðlagseftirlits, sem í gildi eru, þegar lög þessi taka gildi, skulu halda gildi sínu áfram, þar til verðlagsráð hefur tekið afstöðu til þeirra.“

Mér sýnist á öllu að það sé alveg rétt, að með hliðsjón af þessu ákvæði til bráðabirgða hljóti það að vera verðlagsráð sem tekur þessar ákvarðanir, enda þótt það segi hvergi skýrum orðum í þeim greinum frv., sem um það atriði fjalla, þ. e. a. s. í 4. gr. og 8. gr., sem auðvitað væri æskilegra, því að ég veit að margir fleiri en ég hafa misskilið frv. hvað þetta atriði snertir. — Ég vildi sem sagt leiðrétta þetta atriði strax, svo að það yrði ekki grundvöllur að orðaskiptum, því að það er ævinlega óeðlilegt að láta orðaskipti snúast um misskilning.

Ég vildi segja það að lokum í framhaldi af orðum hv. þm. Alberts Guðmundssonar, sem sagði hér áðan að samkeppni gæti átt sér stað jafnvel þótt verðlag væri mjög breytilegt, að auðvitað er aðalatriðið af hvaða ástæðum verðlagið er breytilegt. Ef um er að ræða það sem við getum kallað stöðugt verðlag, sem felst í því að verðlagsvísitala hækkar ekki neitt teljandi frá ári til árs, þá er ríkjandi það sem við getum kallað stöðugt verðlag, og þá verður það hlutverk neytandans að fylgjast með því, hvort ein vara hækkar lítillega vegna þess að kaupmaðurinn hefur gert óhagkvæm innkaup eða vegna þess að varan er komin til landsins á þessu ákveðna verði af einhverjum öðrum ástæðum. Hann á þá kannske annarra kosta völ og getur snúið sér að annarri vörutegund. Hann hefur möguleika að velja og hafna. Ég er alls ekki að segja að við þessar aðstæður, þegar verðlag er stöðugt, þá geti það ekki verið breytilegt í smærri atriðum. Það hlýtur verðlag ævinlega að vera. Um þetta getum við verið alveg sammála, að verðlag er breytilegt í smærri atriðum þegar um er að ræða markaðsaðstæður á annað borð. Það var að sjálfsögðu ekki það sem ég átti við.

Það, sem ég átti við hins vegar, var að þegar ekki er nóg með það, að verðlag breytist vegna þess að menn gera mismunandi innkaup, heldur bætist hitt við, að verðbólga er svo geipileg í landinu að verðlag hækkar af þeim sökum. M. a. hækkar verðlag um 30–40% á ári vegna gengisfellinga eða vegna hækkandi álagningar, vegna hækkandi söluskatts eða af ýmsum öðrum ástæðum. Við slíkar aðstæður hættir neytandinn að skynja þær breytingar á verðlagi sem stafa af öðrum orsökum og hann þyrfti að verða var við til þess að geta valdið því hlutverki sínu að fylgjast með verðlaginu. Í verðbólguþjóðfélagi er eðlileg frjáls samkeppni í verðmyndun og verðlagningu óhugsandi. Það er það sem er aðalatriði málsins.

Ég stóð hins vegar fyrst og fremst upp til þess að leiðrétta þetta atriði sem ég hef nú þegar getið um. Það breytir því ekki, að aths., sem ég gerði, á fyllsta rétt á sér, vegna þess að ljóst er að samkeppnisnefndin fær það hlutverk að dæma um fjölmörg mál sem æskilegast væri að verðlagsráð skipað fulltrúum atvinnurekenda og launþega hefði sitt að segja um.