02.05.1978
Neðri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4366 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

248. mál, skipulagning á fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Flm. (Lúðvík Jósepsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 467 flyt ég till. til þál. um skipulagningu á fisklöndun til fiskvinnslustöðva. Í upptalningu, sem fram kemur í till. sjálfri, kemur fram lýsing á því meginverkefni sem lagt er til með þessari till. að unnið verði að. En till. er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjútvrn, að undirbúa löggjöf um skipulag á fisklöndun til fiskvinnslustöðva með það að markmiði, að fiskiskipafloti landsmanna nýtist sem best til þess að tryggja fiskvinnslustöðvum sem jafnast og best hráefni til samfelldrar vinnslu.“

Og síðan segir í till.: „Áhersla skal lögð á eftirfarandi meginatriði í hinu nýja skipulagi:

1. Landinu sé skipt í löndunarsvæði í samræmi við samgönguaðstæður og hagkvæm samskipti á milli fiskvinnslustöðva. Endanlegt ákvörðunarvald um svæðaskiptingu hafi hagsmunaaðilar á svæðunum.

2. Yfirstjórn á hverju löndunarsvæði sé í höndum heimaaðila á svæðinu þ. e. a. s. í höndum fulltrúa fiskvinnslustöðva, útgerðaraðila og sjómanna og fiskvinnslufólks.

3. Stefnt sé að því að miðla hráefni á sem hagkvæmastan hátt á milli fiskvinnslustöðva þannig að vinna geti verið samfelld og hagkvæm í öllum vinnslustöðvum svæðisins.

4. Fiskafli sé fluttur í kældum og lokuðum flutningatækjum á milli vinnslustöðva eftir því sem þörf er á.

5. Að því sé stefnt, að fiskiveiðiflotinn, sem veiðir fyrir svæðið, sé í góðu samræmi við afkastagetu vinnslustöðvanna.

6. Tryggt sé í væntanlegri löggjöf, að ríkissjóður l.eggi fram nokkurt fé til að koma skipulagningunni á og til þess að standa undir hluta af rekstri nauðsynlegra flutningatækja.

Heimilt verði að taka nokkurt gjald af öllum lönduðum fiski á svæðinu til þess að standa undir sameiginlegum kostnaði.“

Mér er ljóst að starfstími þingsins er orðinn skammur og það eru því ekki tök á því að ræða þessa till. í löngu máli. Till. fylgir allítarleg grg. og þar kemur fram hvað fyrir mér vakir með flutningi þessarar tillögu. En til viðbótar við það, sem þar kemur fram, vil ég segja það, að ég er ekki í neinum vafa um að hér er um að ræða eitt af allra þýðingarmestu málum sem við stöndum nú frammi fyrir varðandi skipulagningu á atvinnumálum okkar.

Auðvitað eru fiskveiðar okkar og fiskvinnsla stærsti þáttur atvinnulífs okkar og sá þátturinn sem margir aðrir þættir ráðast af. Að sjálfsögðu er ekki dregið á neinn hátt úr gildi hins almenna iðnaðar, landbúnaðar eða annarra atvinnugreina, þó að á það sé bent, að eins og til háttar í atvinnumálum okkar er það sjávarútvegurinn, fiskveiðarnar og fiskvinnslan, sem stendur undir meginparti gjaldeyrisöflunarinnar, en það er sú gjaldeyrisöflun sem síðan ræður því, hvað er hægt að gera á öðrum sviðum í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins.

Nú hefur nokkuð verið rætt um það í seinni tíð, að e. t. v. væri íslenski fiskiskipaflotinn orðinn of stór, og miklar fullyrðingar hafa komið fram um þau efni, einkum þó og sérstaklega frá þeim sem minnst þekkja til að mínum dómi. Þá er gjarnan í það vitnað, að fiskiskipaflotinn hafi stækkað að rúmlestatölu svo og svo mikið frá fyrri lárum, en hins vegar hafi heildaraflamagnið ekki breyst í réttum hlutföllum við stækkun flotans. Samanburður á þennan hátt er að mínum dómi algerlega út í hött. Í fyrsta lagi er það svo, að verulegur hluti af stækkun fiskveiðiflota okkar að rúmlestatölu — mjög verulegur hluti — hefur hreinlega farið í það að bæta aðbúnað og aðstöðu þeirra sem á sjónum eru og vinna við veiðarnar. Þar hefur sem sagt átt sér stað svipað og gerst hefur í landi, að kröfur eru orðnar allt aðrar um vistarverur og vinnusvæði en áður þekktust. Áður var það t. d. mjög algengt að á aðalfiskibátum okkar sem stunduðu þorskveiðar og þar sem skipshöfnin var 10 eða 12 menn, væru skipshöfninni boðin slík kjör, að allir urðu að búa þar í einni káetu eða einum lúkar á þessum gömlum bátum, og þá þótti það sjálfsagt sem allsherjarskipulag að alltaf væri hvert rúm, svefnrúm fyrir menn, ætlað tveimur mönnum minnst. Nú er þetta auðvitað liðin tíð í flestum tilvikum og sérstaklega varðandi nýju skipin, þar sem algengast er að hver skipverji ráði jafnvel yfir eigin herbergi. Og það er ekki aðeins á þessu sviði að óhjákvæmilegt hefur verið að fiskiskipin hafi stækkað að rúmlestatölu, þótt að sjálfsögðu breyttist ekki veiðihæfnin að sama skapi, eins og sumir virðast álíta að hefði átt að vera.

Það er rétt, að nú um skeið hefur verið óhjákvæmilegt að grípa til ýmiss konar ráðstafana sem dregið hafa nokkuð úr afkastagetu flotans. Ekki hefur þótt mögulegt að láta flotann vinna allt árið, og hefur verið gripið til stöðvana vegna ástands fiskistofna. En þar er að sjálfsögðu um tímabundið vandamál að ræða og væri algert óvit að ætla að miða fiskiskipaflotann við slíkt. Ef það yrði gert stæðum við frammi fyrir því að hafa allt of lítinn fiskiskipaflota þegar aðstæður væru orðnar aðrar á fiskimiðunum.

Það er líka skoðun mín, að raunverulega sé það svo, að það aflamagn, sem fiskiskipafloti okkar dregur að landi, sé það mikið þegar á heildina er litið, að við finnum ekki dæmi um annað eins hjá neinni fiskveiðiþjóð og það sé afar hæpið að reikna með því, að fiskiskipin komi með að landi miklu meira magn en þau gera nú, svo framarlega sem vel er staðið að því að fara með aflann og búa um hann til vinnslu. En að sjálfsögðu nálgumst við það meir og meir, að við þurfum að hyggja vandlega að því, hve stór fiskiskipaflotinn á að vera þannig að hann sé í sem bestu samræmi við nýtingu fiskimiðanna og auðvitað einnig í samræmi við þá vinnslumöguleika sem eru fyrir í landi til þess að vinna aflann.

Að mínum dómi verður mjög erfitt að taka á þessu verkefni, þ. e. a. s. að samræma þarna veiðigetu og stöðu fiskstofna heildarskipulagi á þessi mál yfir allt landið. Og þá komum við auðvitað að því, að nokkuð þarf að breyta frá því sem verið hefur því grundvallarskipulagi sem veiðarnar hafa verið byggðar upp á og eins vinnslan í landi. En við vitum að meginkerfið hefur verið það, að hver einstakur útgerðarstaður hefur reynt að tryggja sér ákveðinn fiskiskipafjölda og sá útgerðarstaður hefur einnig komið upp hjá sér ákveðnum fjölda af fiskvinnslustöðvum. Er ég er á þeirri skoðun, og það kemur fram í þessari till., að það sé þegar komið að því, að við eigum að líta á þessi skipulagsmál á víðara sviði. Við eigum ekki að miða þetta eingöngu við hvern einstakan stað, heldur við stærri veiðisvæði, jafnvel heila landshluta. Því er það, að ég held að kominn sé tími til þess að við setjum löggjöf sem miði að því að koma skipulagi á þessi mál í þá átt sem gerir ráð fyrir.

Í grg. með till. er nokkuð vitnað til þess, að á árinu 1973 hófum við skipulagningu í sambandi við loðnuveiðar og loðnulöndun og vinnsluna á loðnu í landi. Ég hygg að allir séu á einu máli um að það skipulag hafi reynst rétt og gagnlegt fyrir alla aðila. Við vitum líka að það fyrirbæri er algengt enn í dag hjá okkur, að það berist að einni verstöð meiri fiskafli á vissum tíma en verstöðin ræður við með eðlilegum hætti, þó að nálæg verstöð kunni að vera þannig sett að hún hafi ekki nægilegt hráefni til þess að vinna úr. Nokkuð hefur verið farið inn á þá braut að flytja fiskafla á milli stöðva, taka upp samvinnu á milli verkunarstöðva, og það hefur sýnt sig í reyndinni að hafa komið að miklu gagni. Það er mín skoðun, að við eigum að taka upp skipulag, en e. t. v. tekur það okkur nokkurn tíma. Sé t. d. miðað við svæði eins og Reykjanessvæðið, þá eigi að taka upp skipulag sem gengur út frá því, að Reykjanessvæðið allt sé í rauninni eitt löndunarsvæði og eitt fiskvinnslusvæði. Skipti ekki höfuðmáli, hverjir væru eigendur að veiðiflotanum fyrir svæðið eða hvar skipin landa, því að tiltölulega auðvelt væri að dreifa fiskaflanum á milli vinnslustöðvanna í gegnum eina sameiginlega miðstöð. Væri svona skipulagi komið á væri miklu auðveldara að samræma veiðiafköstin og vinnsluafköstin á svæðinu, og þar sem stendur þannig á, eins og t. d. á Reykjanesinu, að þar þarf í rauninni að byggja upp fiskvinnsluna að nýju að mjög verulegu leyti, væri þýðingarmikið að gera það út frá slíku grundvallarsjónarmiði, að þetta svæði væri eitt og sameiginlegt, sem gæti þá að sjálfsögðu tryggt miklu öruggari atvinnu í fiskvinnslunni og væntanlega betri rekstur og betri nýtingu en gerist þegar svæðinu er margskipt í mörg smærri umdæmi með litlu sambandi á milli útgerðarstaða.

En þetta fyrirkomulag gildir ekki að mínum dómi aðeins um Reykjanessvæðið. Alveg sams konar skipulag er hægt að taka upp annars staðar á landinu. Það er tiltölulega auðvelt að skipta landinu þannig í veiði- og vinnslusvæði, skipuleggja þau sem slík og lyfta þannig fiskvinnslu okkar, sem er langsamlega stærsta atvinnugrein í landinu og þýðingarmesta, upp á miklu hærra stig en hún er á nú. Samvinna af þessu tagi hefur tekist á milli einstakra staða og gefist ágætlega, en það er að mínum dómi þýðingarmikið að farið verði að vinna að þessu á skipulegan hátt.

Till. mín er sú, að þetta verkefni verði falið sjútvrn., það taki að sér undirbúning þessa máls og vinni áfram að því í samráði við þá sem hér eiga hlut að máli, þ. e. a. s. bæði útvegsmenn og sjómenn og fiskverkendur í landinu og fiskvinnslufólk, því að þessir aðilar eiga þarna mestra hagsmuna að gæta. Mér dettur ekki í hug að það verði hafður sá háttur á í sambandi við þetta mál, að komið verði með löggjöf og hún drifin í gegnum Alþ. og síðan verði allir skyldaðir til þess að fara eftir þessari löggjöf strax, menn verði þvingaðir til þess að fara þarna eftir mjög föstum reglum. Ég held að þetta verði að vinna upp á nokkrum tíma og í samvinnu við þá sem eiga hlut að máli.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er mér ljóst að ekki er tími til þess að þessu sinni á Alþ. að ræða þetta mál ítarlega, en ég vísa til grg. með till. Ég vænti þess, að hv. Alþ. geri sér grein fyrir því, að hér er um að ræða eitt af þýðingarmestu málum í skipulagningu á atvinnulífi okkar. Að mínum dómi er ekki of mikið sagt, þó að það væri metið svo, að hægt væri með góðri skipulagningu að auka vinnsluverðmæti fiskvinnslunnar í landinu um 10–20% frá því sem nú er á stuttum tíma með svona skipulagningu. Þarna væri hægt að komast af með tiltölulega minni fjárfestingu en ella og miklu betri nýtingu á öllum tækjum umfram það sem nú er. Og hið sama mundi einnig koma í ljós að mínum dómi í sambandi við veiðiflotann. Hann mundi nýtast betur og á eðlilegri hátt, ef að þessu væri unnið.

En aðaltilgangur minn með flutningi þessarar till. að þessu sinni er að vekja athygli á þessu stóra máli, kynna það á Alþ. og ýta á að sjútvrn. fari að undirbúa þetta mál. Ég vona að flutningur þessarar till. hafi nokkuð að segja í þessa átt.

Að lokinni umr. um till. legg ég til, hæstv. forseti, að henni verði vísað til sjútvn. d. til frekari athugunar og fyrirgreiðslu.