02.05.1978
Neðri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4369 í B-deild Alþingistíðinda. (3617)

248. mál, skipulagning á fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mér er ljóst að ekki er hægt að ræða þessa till. eða þetta mál efnislega í heild, en ég vil aðeins minna á að á nokkrum stöðum á landinu hefur verið tekin upp nokkuð góð samvinna á þessu sviði, að fiski sé miðlað á milli fiskvinnslustöðva þar sem samgönguaðstæður eru með þeim hætti, og samstarf hefur verið vaxandi á undanförnum árum. Þó er það rétt, að á öðrum stöðum er varla hægt að segja að slíkt samstarf sé til og oft og tíðum er ráðandi skefjalaust kapphlaup um það hráefni sem á land berst. Ég tel að eðlilegt sé og sjálfsagt að skipuleggja þessi mál betur og í fullri samvinnu við sjómenn, útgerðarmenn og fiskvinnslustöðvar, en hugsa ekki um að gera heildarskipulag fyrir allt landið í einu, enda bendir flm. þessarar till. á, að landinu sé skipt í löndunarsvæði í samræmi við samgönguaðstæður og hagkvæm samskipti á milli fiskvinnslustöðva. Þetta er auðvitað alveg rétt og eðlileg ábending.

Ég fyrir mitt leyti tel mikils virði að hreyfa þessu máli og er því í öllum grundvallaratriðum sammála og finnst það eðlilegt. Þar sem óvíst er að þessi þáltill. nái fram að ganga vegna þess að þinghaldi er nú að ljúka, þá hef ég fullan hug á því að leita samstarfs við aðila, ekki eingöngu heildarsamtök, sem staðsett eru í Reykjavík, heldur ekki síður og jafnvel enn frekar samtök í sjálfum byggðarlögunum, þar sem þarf fyrst og fremst að koma slíku samstarfi á. Ég tel að með þessari till. sé minnt á mál, sem að vísu oft áður hefur verið hreyft af ýmsum aðilum. Og ég tel fyrir mitt leyti, eins og háttað er með fiskveiðar og fiskgengd á hinum ýmsu svæðum, að rétt sé að fara í verulegum atriðum inn á sömu braut og hér er lagt til.