02.05.1978
Neðri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4370 í B-deild Alþingistíðinda. (3621)

14. mál, byggingarlög

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. liggur nú fyrir Alþ. í þriðja sinn. Í fyrra var frv. afgreitt frá þessari deild, en náði ekki fram að ganga í Ed., enda þá orðið mjög liðið á þingtímann. Í meðförum Nd. í fyrra höfðu verið gerðar allmiklar breytingar á frv. frá því að það var lagt fram í upphafi, og í meðförum Ed. nú voru enn gerðar á því nokkrar breytingar.

Það kom fram þegar frv. var lagt fram í Ed., að það væri þá lagt fram eins og það var afgreitt úr Nd. í fyrra, en einhverra hluta vegna er þar um misskilning að ræða vegna þess að í V. kafla frv., 16. gr., höfðu komið inn viðbótarákvæði að því er byggingarstjóra varðaði.

Ég tel rétt að nefna aðeins til skýringar þær efnisbreytingar fyrst og fremst sem gerðar voru í Ed.

Þar voru gerðar þær breytingar á 6. gr. frv., þ. e. varðandi byggingarnefndir, að tekin var út úr frv. hugmyndin um að það skyldi að lögum kjósa svæðisbyggingarnefndir, þannig að landið allt yrði skylt til þess að lúta ákveðnu kerfi, ákveðinni samvinnu á milli sveitahreppanna, hinna fámennari hreppa, en hins vegar óbreytt ástand í þeim hreppum, þar sem íbúar eru 300 og fleiri. Í þeirri mynd, sem frv. er í nú og kom í frá Ed., er eingöngu gert ráð fyrir skyldu til að kjósa byggingarnefndir í öllum sveitarfélögum, en gert að heimild að skipa eða kjósa svokallaðar svæðisbyggingarnefndir. Þetta er meginbreytingin, sem kemur fram í 6. gr. varðandi byggingarnefndirnar. Félmn. Nd. hefur fyrir sitt leyti fallist á að þessar breytingar standi í frv. áfram.

Í öðru lagi er varðandi efnisatriði gert ráð fyrir nokkurri breytingu í 12. gr., þar sem rætt er um hverjir hafi heimild til þess að gera aðaluppdrætti og séruppdrætti af húsum og öðrum mannvirkjum. Í meðförum Ed. var nokkuð rýmkað um ákvæði, þar sem gert er ráð fyrir, að nánast allir, sem til þess eru hæfir og teknir gildir af byggingarnefndum, geti gert aðaluppdrætti og séruppdrætti. Er þá gert ráð fyrir því, að það séu frekar svæðisbundin leyfi, sem þar eru veitt, en það sé háð allsherjarlöggildingu. Á þessa efnisbreytingu hefur félmn. Nd. einnig fallist.

Þriðja breytingin, sem gerð var, varðar byggingarstjórana. Eins og frv. fór frá Nd. í fyrra var gert ráð fyrir að byggingarstjórar skyldu skipaðir við gerð hvers mannvirkis og vera ábyrgir aðilar fyrir því. Í Ed. var þessi skylda tekin út og ákvæðinu breytt þannig að þetta var gert að heimildarákvæði. En jafnframt var skotið inn í þennan kafla, sem ekki hafði þá lengur yfirskriftina „Byggingarstjórar“, heldur „Umsjón með byggingarframkvæmdum“, fjórum nýjum greinum, sem voru teknar beint upp úr byggingarsamþykkt Reykjavíkurborgar og jafnframt eru greinar sem eru í fyrirmynd að byggingarsamþykktum fyrir þéttbýlisstaði og óhætt er að segja að velflest þéttbýlli sveitarfélög í landinu hafi farið eftir og fengið staðfestingu fyrir.

Það er óhætt að segja að nokkur misskilningur hafi komið upp á milli félagsmálanefndanna og raunar þá deildanna um það, hvað felst í hugtakinu byggingarstjóri. Eins og við gengum frá frv. í fyrra og fram kemur í því nál., sem hér er lagt fram, þá var það okkar skoðun, að byggingarstjóraembættið væri ekki faglegt embætti, þ. e. a. s. að viðurkenning á byggingarstjóra væri ekki viðurkenning á réttindastöðu í byggingarmálefnum, heldur væri þetta embætti fyrst og fremst framkvæmdastjóraembætti, þar sem viðkomandi hefði það hlutverk annars vegar að vera ábyrgur gagnvart bygginganefndum, en hann á líka að sjá um að tengja saman störf hinna ýmsu iðnmeistara sem við viðkomandi mannvirkjagerð starfa. Þannig var það aðalatriði og er í okkar huga, að byggingarstjóri, sem fær viðurkenningu, fær viðurkenningu aðeins fyrir þeirri framkvæmd sem viðurkenningin hljóðar upp á, en ekki almennt fyrir öðrum framkvæmdum. Eftir sameiginlegan fund beggja félmn. hefur það þess vegna orðið endanleg niðurstaða okkar í félmn. Nd. að leggja til, að aftur verði þessum kafla breytt, þ. e. a. s. að 16., 17., 18 og 19. gr. í frv., eins og það er samþykkt frá Ed., falli niður og auk þess falli niður 2. mgr. 20. gr., sem var og verður nú 16. gr. Með þessu móti teljum við að við náum þeim markmiðum sem sett voru og hugsuð varðandi byggingarstjórana sem slíka. Þess vegna eru fluttar brtt. á þskj. 799, fyrst og fremst að því er þetta atriði varðar. Aðrar brtt., sem eru á þessu þskj., eru fyrst og fremst tilfærslur eða leiðréttingaratriði með tilliti til þess að greinaröðin breytist við það að þessar fjórar greinar eru aftur felldar niður.

Ég held að ekki sé ástæða til þess að rekja þetta efnislega frekar. Ég vil minnast aftur á, eins og ég sagði áðan, að það er orðin knýjandi þörf að byggingarlög verði sett. Þetta er þriðja þingið sem fjallar um byggingarlögin. Það hefur átt sér stað mikil undirbúningsvinna. Það var stór nefnd, nefnd 13 manna, sem vann að gerð frv. í upphafi og náði um það samstöðu. Það var sent út mjög víða og bárust 29 umsagnir um frv. sem unnið var úr. Það hefur fengið enn fremur ítarlega athugun í Ed. Ég hygg að við séum nú komnir að því að geta afgreitt þetta frv. sem lög, og ég vænti þess, miðað við þá þörf sem er á að fá fyrstu samræmdu byggingarlögin fyrir landið, að það verði hægt að ljúka því nú á þessu þingi.