02.05.1978
Neðri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4373 í B-deild Alþingistíðinda. (3629)

112. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Hæstv. forseti. Félmn. hefur fjallað um þetta frv., sem lagt var fram á öndverðu þinginu, og sendi það til umsagnar Húsnæðismálastofnunar ríkisins. N. lítur svo á, að hér sé mjög þýðingarmiklu og merku máli hreyft.

Það hefur mjög komið fram í umr. manna á meðal, að marka þurfi aðra stefnu en þá sem nú er varðandi það atriði að tryggja sem best nýtingu eldra húsnæðis, viðhald og endurbyggingu, þannig að það fjármagn, sem fer til húsnæðismálanna, nýtist sem best, jafnhliða því að hamla gegn þeirri þróun, sem víða hefur átt sér stað, að ákveðnir borgarhlutar hafa nánast eyðst að byggð, þ. e. fólk hefur flutt í ný hverfi og sú staða komið upp, að mikið ónotað húsnæði eða illa nýtt húsnæði er fyrir hendi á vissum svæðum, vissum hlutum bæja, með þeim afleiðingum að bæði sveitarstjórnaryfirvöld sem og ríkisvaldið verða að leggja í margháttaðar dýrar framkvæmdir vegna þessarar tilfærslu innan þéttbýlissvæðanna eða bæjanna eða borgarinnar sjálfrar, svo sem dæmi eru um héðan úr Reykjavík.

Hins vegar er þetta mál svo viðamikið, að það þarf að marka stefnu í því í samráði við þá ríkisstj. sem með völd fer hverju sinni, og þar sem vitað er að húsnæðismálalöggjöfin er nú í endurskoðun, þá varð það samdóma álit n. að taka undir þetta mál á jákvæðan hátt, en leggja til að því yrði vísað til ríkisstj. og þess vænst, að þeirra sjónarmiða, sem þar koma fram, verði gætt eða tillit verði til þeirra tekið við endurskoðun laganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins.