02.05.1978
Neðri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4376 í B-deild Alþingistíðinda. (3633)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Til þess að firra öllum misskilningi þegar hæstv. forsrh. ræðir við hæstv. iðnrh. vil ég taka það fram, að hæstv. iðnrh. er ekki saknað, hans er vænst. Honum ber skylda til þess að standa hér og flytja Alþ. skýrslu sem 10 þm. hafa krafist að hann flytti Alþ. samkv. réttindum sem bundin eru í stjskr. og þingsköpum. Hæstv. iðnrh. hefur vísvitandi dregið það að leggja skýrsluna fram, vísvitandi forðað sér undan því að þurfa að standa frammi fyrir þm. og beitt til þess öllum ráðum, m.a. þeim að leyna þm. og forseta Sþ. upplýsingum um fyrirætlanir sínar. Ég sakna ekki hæstv. iðnrh. úr þessum sal. Ég vænti þess aðeins, að hann sýni þann manndóm a. m. k. að ætla sjálfum sér sem ráðh. í ríkisstj. Íslands að gegna sömu skyldum og krafist er af okkur stjórnarandstæðingum að við gegnum hér á Alþingi.