02.05.1978
Neðri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4377 í B-deild Alþingistíðinda. (3637)

136. mál, veiting ríkisborgararéttar

Páll Pétursson:

Virðulegi forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar á þskj. 201. N. hefur athugað umsagnir og umsóknir, sem henni bárust síðan frv. var lagt fram. Á brtt. á þskj. 831 leggur n. til að ríkisborgararéttur verði veittur 36 aðilum. Til þess að flýta fyrir afgreiðslu frv. á milli deilda hafa formenn allshn. þd. ásamt skrifstofustjóra Alþingis, athugað frv. vandlega og umsóknir, sem því fylgdu, og þær umsóknir, sem síðar bárust. Þessi málsmeðferð er hin venjulega. Reglur, sem allshn: beggja deilda hafa farið eftir og eru frá 17. maí 1955, voru hafðar til hliðsjónar og þær eru birtar með nál. á þskj. 830, en þær eru:

1. Umsækjandi hafi óflekkað mannorð og sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfhæfur og vel kynntur, þar sem hann hefur dvalist.

2. Útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar,skulu hafa átt hér lögheimili í 10 ár, Norðurlandabúar í 5 ár.

3. Karl eða kona, sem giftist íslenskum ríkisborgara, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu frá giftingu, enda hafi hinn íslenski ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en 5 ár.

4. Erlendir ríkisborgarar, sem eiga íslenskan ríkisborgara að foreldri, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu, ef annað foreldri er Norðurlandabúi, annars eftir 5 ár.

5. Íslendingar, sem gerst hafa erlendir ríkisborgarar, fái ríkisborgararétt eftir eins árs búsetu.

6. Íslensk kona, sem misst hefur ríkisfang sitt við giftingu, en hjónabandinu er slitið og hún hefur öðlast heimili hér, fái ríkisborgararétt á fyrsta dvalarári hér, enda lýsi hún yfir, að hún ætli að dveljast áfram í landinu. Sama gildir um börn hennar, sem hafa ekki náð 16 ára aldri og henni fylgja.

N. mælir með því, að þessum 36 einstaklingum, sem taldir eru upp á þskj. 831. verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Að þessu áliti n. standa allir nm.