08.11.1977
Sameinað þing: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

1. mál, fjárlög 1978

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er nú til umr. fjórða fjárlagafrv. hæstv, núv. fjmrh. og ríkisstj. Mér hefur orðið hugsað til þess í hvert skipti sem hæstv. ráðh. hefur lagt hér fram fjárlagafrv. og í hvert skipti sem hann hefur mælt fyrir þeim frv., hversu geysilega erfitt það breytingatímabil hlýtur að hafa orðið honum frá því að vera stjórnarandstæðingur fyrrv. ríkisstj. og til þess sem aðaltalsmaður Sjálfstfl. í fjármálum og fjárspeki að þurfa að ganga í gegnum þann eld sem hann hefur gert sem fjmrh. núv. hæstv. ríkisstj. Það hlýtur að vera mikil og dýrkeypt reynsla fyrir einstakling sem hæstv. fjmrh. — og raunar nafna hans, hæstv. sjútvrh., líka, sem á öndverðu ári 1974 sem stjórnarandstæðingar og aðaltalsmenn stjórnarandstöðunnar og Sjálfstfl. í fjármálum lögðu fram frv. um niðurskurð ríkisútgjalda um sem næmi 2.5 milljörðum kr. og mundi þýða á núgildandi verðlagi tæplega 17 milljarða. Óneitanlega verður manni hugsað til slíkra atburða þegar litið er yfir þann tíma, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur setið að völdum, og það sem gerst hefur á sviði fjármála og efnahagsmála þann tíma.

Hæstv. núv. fjmrh. gagnrýndi harkalega á sínum tíma fyrrv. ríkisstj. fyrir óstjórn í fjármálum. Það hefur þó gerst síðan, að sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr að völdum, hefur gert fyrrv. ríkisstj. góða að því er varðar stjórn á peningamálum, þegar við litum til fjárl. og fjárlagafrv., sem lögð hafa verið fram í tíð núv. hæstv. ríkisstj., og förum ekki lengra aftur í tímann en aftur til ársins 1976. Það fjárlagafrv., sem þá var lagt fram af hæstv. núv. ríkisstj., var 41% hærra en fjárlög ársins þá voru. Það fjárlagafrv., sem nú er lagt fram fyrir árið 1978, er 50% hærra en það fjárlagafrv. sem lagt var fram fyrir árið 1977.

Nú við þessa umr., 1. umr. fjárl. fyrir árið 1978, er ekki mikið hægt að segja um það frv. sem hér liggur fyrir. Það er ljóst, eins og raunar hefur komið hér fram, að svo margir endar eru lausir og mörgum spurningum ósvarað að það er vart hægt að fara út í samanburð eða geta um eyður sem augsýnilegar eru að því er varðar endanlega fjárlagagerð fyrir árið 1978. Talsmenn ríkisstj. hafa t.d. haldið því fram, að inn í þetta frv. vanti a.m.k. 7 milljarða kr., og þeir hafa sagt að það væri upphæð sem væri vegna nýgerðra samninga opinberra starfsmanna. Hér er augsýnilega ekki um að ræða alla þessa upphæð vegna nýgerðra samninga opinberra starfsmanna. Líklega er um að ræða vegna þeirra samninga einhvers staðar á bilinu frá 2.5 til 3 milljarða, en það sem á milli ber upp í 7.7 milljarða er af öðrum rótum runnið. En hvað sem því líður, hér vantar greinilega stórar upphæðir inn í fjárlagafrv. og ekkert liggur fyrir um það enn af hálfu hæstv. ríkisstj., hvaða leiðir eigi að fara til að afla þeirra tekna sem hér um ræðir og greinilega þarf.

Hæstv. forsrh. sagði orðrétt í stefnuræðu sinni fyrir nokkrum dögum að því er þetta varðar, að afla þurfi „viðbótartekna til ríkissjóðs eða draga úr ríkisútgjöldum vegna launasamninga við opinbera starfsmenn. Á þessu stigi eru ekki gerðar ákveðnar till. í þeim efnum, en það verður verkefni þings og stjórnar við afgreiðslu fjárlaga“. Þetta er það eina sem sagt hefur verið af hálfu hæstv. ríkisstj. um það gat sem greinilega er í fjárlagafrv, að því er varðar þennan lið, launaliðinn. En ótalmörg önnur göt eru í frv. og greinilegi að það kemur til með að hækka allverulega í meðförum þingsins, ef það á að sjá með eðlilegum hætti fyrir þeim skuldbindingum sem þegar er búið að taka á sig.

Það eru þó nokkrir liðir sem eru ljósir að því er varðar fjárlagafrv. Það er t.d. augljóst af frv. að skattbyrði þyngist á árinu 1978, miðað við það sem er nú í ár. Skattvísitölu á að hækka um 31% á sama tíma og tekjuhækkun milli ára er a. m. k. 41%. Greinilegt er á þessu að allveruleg aukning skattbyrði á sér stað á skattgreiðendum. Þetta er ljóst. Það er einnig ljóst, verði svo á málum haldið, sem frv. gerir ráð fyrir, að þá verða ógiltir allir kjarasamningar í landinu, nái það fram að ganga sem gert er ráð fyrir í frv., þ.e.a.s. að sú hækkun bensíngjalds, sem gert er ráð fyrir að verði, komi ekki inn í vísitölu. Verði af þessu, þá er ljóst að allir kjarasamningar í landinu eru þar með ógiltir og lausir og fyrirsjáanlegt að átök verða þá á vinnumarkaðnum tiltölulega fljótt í byrjun næsta árs.

Það hefur verið einkennandi fyrir stjórn hæstv. núv. ríkisstj. á fjármálum og í þeim frv. og fjári. sem hún hefur staðið að í sinni valdatíð, að framlög til hinna ýmsu þátta verklegra framkvæmda hafa verið skorin stórkostlega niður. Það er engu líkara en eitt af aðalmarkmiðum hæstv. núv. ríkisstj. hafi verið að skera niður að raungildi samfélagslegar framkvæmdir og það sem mest. Hér er um að ræða framkvæmdir sem varða mest allan almenning í landinu. Hér er t.d. um að ræða málaflokka eins og skólamál, hafnamál, flugmál, vegamál og íþróttamál, svo að nokkuð sé nefnt. En með framlagningu þess fjárlagafrv., sem hér er nú til umr., hafa stjórnarliðar, talsmenn ríkisstj., mjög af því gumað að nú eigi að stórauka framlög til vegamála frá því, sem verið hefur, og frá því, sem er í gildandi vegáætlun ársins í ár. Það er sagt að a.m.k. einn milljarður eigi að koma til viðbótar til framkvæmda í vegamálum á árinu 1978, miðað við þá vegáætlun, sem er í gildi fyrir það ár. Miðað við að þetta stæðist væri þrátt fyrir þetta staða framkvæmda vegamála að því er varðar raungildi þeirra ekki nema tæplega 65% miðað við það sem hún var árið 1974. Svo mikið er búið að skera niður raungildi vegaframkvæmda á undanförnum árum í tíð núv. ríkisstj., að þrátt fyrir þessa gífurlegu hækkun, sem stjórnarliðar telja nú á fjárveitingu til vegaframkvæmda, mun það ekki ná 65% af raungildi framkvæmda á árinu 1974. Þetta eru í raun hinar stórauknu fjárveitingar sem talsmenn ríkisstj. guma nú hvað mest af.

Ég get ekki stillt mig um, af því að ég tók eftir því í sjónvarpsþætti í gærkvöldi að hv, þm. Gylfi Þ. Gíslason, formaður þingflokks Alþfl., lýsti yfir að hann teldi það algert ábyrgðarleysi ef ríkisstj. ætlaði sér að hækka fjárveitingar til vegaframkvæmda á næsta ári eða næstu árum, það taldi Gylfi Þ. Gíslason algert ábyrgðarleysi, og mig hefði því langað til þess að spyrja þá þm. Alþfl. aðra en Gylfa Þ. Gíslason, sem ég veit um afstöðu hjá, hvort þetta er í raun og veru stefna Alþfl. að því er varðar framkvæmdir í vegamálum, að það sé algert ábyrgðarleysi að auka fjárveitingar til þess málaflokks á næsta ári. (Gripið fram í: Það fer eftir því hvaða vegir það eru.) Já, en ef það er um það að ræða að það sé til ákveðinna vega, þá væri gott að fá upplýst hvaða vegir það eru. Ég tel að það skipti æðimiklu máli fyrir fólkið í landinu að vilja það í raun og veru, hvort hér er um að ræða opinbera stefnumörkun af hálfu Alþfl. að því er varðar þennan framkvæmdaflokk. (Gripið fram í.) Ég bíð þess að hv. þm. Alþfl. svari þessu héðan úr ræðustól og segi til um hver þeirra meining er að því er þetta varðar, hvort þeir eru sammála foringja sínum í þessum efnum.

Ég get ekki heldur stillt mig um, af því að sá hv. þm., sem talaði hér á undan mér, vandaði mjög um við hæstv. ríkisstj„ — og var það ekki nema eðlilegt og átti fyllsta rétt á sér, — en hann sagði eitthvað á þá leið, að alþm. virtust því marki brenndir að telja allar framkvæmdir góðar framkvæmdir og eftir því sem framkvæmdirnar væru fleiri, þá væru þær líklega betri. Hann nefndi sem dæmi að ein Borgarfjarðarbrú væri góð, en tvær Borgarfjarðarbrýr væru betri og þá þrjár auðvitað enn þá betri. Nú veit ég ekki af hverju þessi hv. þm. hefur tekið Borgarfjarðarbrúna sem dæmi, vegna þess að ég man ekki betur en þessi hv. þm. hafi einmitt verið stuðningsmaður þess að í framkvæmdir við Borgarfjarðarbrúna var ráðist á sínum tíma.

Þessi hv. þm. deildi réttilega á ráðleysi varðandi framkvæmdir við Kröflu, og ég tek fyllilega undir það. Hann sagði að það væri fyrirsjáanlegt að sú framkvæmd yrði ekki farin að skila arði á næstu árum. Ég spyr áfram þennan hv. þm. og þá Alþfl: menn: Eru líkur á því að t.d. sú framkvæmd, sem þeir studdu hvað dyggilegast hér með núv. hæstv. ríkisstj., járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði, verði farin að skila arði á næsta ári t.d. eða þar næsta? Þar er um að ræða fjárfestingu upp á a.m.k. 20 milljarða kr., fjárfestingu sem var studd dyggilega af þm. Alþfl. þegar hún var ákveðin, — framkvæmd sem líklega verður ef hún er ekki þegar orðin til þess að raska hvað mest búsetu manna í landinu.

Það hefur verið á það bent, að í þessu fjárlagafrv. er enn gert ráð fyrir vörugjaldinu illræmda, 18%, og er gert ráð fyrir að það gefi ríkissjóði tekjur að upphæð 7 milljarða kr. á næsta ári eða næstum því sömu upphæð og greidd er í launaskatt á öllu landinu á árinu 1978. Hér er um að ræða einhvern versta og ranglátasta skatt sem lagður hefur verið á um árabil, a.m.k. á það fólk sem býr fjarri höfuðborgarsvæðinu, því að það er staðreynd og hefur verið sýnt fram á að 18% vörugjald getur þýtt í kostnaði hjá neytendum víðs vegar útí á landsbyggðinni allt að 27–30% álag ofan á það vöruverð sem ella gilti. Hér er því um herfilega ranglátan skatt að ræða að því er varðar dreifbýlisfólk. Það var réttilega getið um það áðan af einum ræðumanna, að þegar þetta gjald var sett á um mitt ár 1975, þá var það gert með brbl. og þá réttlætt sem tímabundið gjald, tímabundinn tekjustofn. Nú er augsýnilega gert ráð fyrir að þessi tekjustofn, þessi skattheimta verði kirfilega fest í ríkiskerfinu, þannig að litlar sem engar líkur eru á því, a.m.k. ekki undir stjórn núverandi valdhafa, að við losnum við þetta illræmda vörugjald eða þennan óréttláta skatt.

Það hefur verið vikið að því hér, að samkv. þessu fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til neinna nýbygginga eða nýframkvæmda að því er varðar skólamál í landinu á fjári. ársins 1978, — ekki gert ráð fyrir neinum nýbyggingum, nýjum framkvæmdum. Ég vil í sambandi við þennan málaflokk vekja athygli á því, að samkv. fjárlagafrv. fyrir 1978 er ekki gert ráð fyrir að hefja eða halda áfram framkvæmdum t.d. við Menntaskólann á Ísafirði sem er þegar orðinn mörgum árum á eftir áætlun miðað við byggingarframkvæmdir. Hér er um að ræða að mínu viti allalverlegt mál, því að það vita a.m.k. þeir sem til þekkja, að Menntaskólinn á Ísafirði á við að búa húsnæðisskort og vandræði að því er varðar kennsluhúsnæði, og það bitnar ekki bara á menntaskólanum sem slíkum, það bitnar einnig á öðrum skólum á Ísafirði, því að kennsla hefur farið fram í gamla barnaskólahúsinu á Ísafirði. Ég vænti þess, að þeir, sem koma til með að fjalla um þessi mál í fjvn., sýni skilning að því er þessa framkvæmd varðar, því að hún er vissulega orðin miklu lengra á eftir áætlun en nokkur sanngirni mælir með að mínu viti.

En það eru fleiri málaflokkar sem koma til með að standa mjög höllum fæti, ef svo heldur fram sem horfir og ákveðið verður eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Ég vil t.d. nefna íþróttamálin. Samkv. nýjustu upplýsingum mun íþróttasjóð vanta a.m.k. um 273 millj. kr. til þess að geta staðið við þær skuldbindingar sem lög gera ráð fyrir að hann standi við. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir 261 millj. kr. til Íþróttasjóðs, en þær skuldbindingar, sem hann á að standa skil á nú þegar, eru upp á 534 millj. kr. Og það á sama við, að því er ég best veit, um þennan málaflokk eins og skólamálin, að hér er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum framkvæmdum að íþróttamannvirkjum umfram það sem þegar er búið að ganga frá.

Það er rétt að minna á það hér í leiðinni, að þegar fyrrv. ríkisstj. tók við hafði myndast langur skuldahali hjá Íþróttasjóði. Frá þeim málum var gengið þá, það átti að greiðast upp á örfáum árum, þannig að hallinn var þá úr sögunni. Síðan hefur það gerst í tíð núv. ríkisstj., að hér hefur enn myndast stórkostlegur hali sem alveg er greinilegt að kemur til með að skapa stórkostleg vandræði og er þegar raunar farinn að skapa slíkt vandræðaástand.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það, hvernig ástandið er í þeim málaflokki sem heyrir undir flugmálin. Þing eftir þing og ár eftir ár hefur verið á það bent af hálfu flugmálastjóra að ástand í flugmálum á svo til öllum flugvöllum landsins væri svo slæmt að í raun og veru ætti að loka öllum flugvöllum vegna skorts á öryggi og aðbúnaði þessara flugvalla. Það virðist ekki vera gert ráð fyrir því í þessu fjárlagafrv. að neinn verulegur gaumur sé gefinn að þessu hættuástandi, sem vakin hefur verið sérstök athygli á varðandi öryggi og aðbúnað á flugvöllum. Að vísu er gert ráð fyrir nokkurri hækkun í krónutölu varðandi framkvæmdir á flugvöllum, en hún er rétt liðlega yfir það sem framkvæmdakostnaður hefur aukist á milli ára. Hér er vissulega um að ræða mjög veigamikil mál sem full ástæða er til fyrir hv. Alþ. að gera sér grein fyrir og taka alveg sérstaklega að mínu áliti fastari tökum en gert hefur verið.

Ég vil einnig vekja sérstaklega athygli á því, að fjárveitingu til hinnar svokölluðu byggðalínu á Vestfjörðum er hvergi að finna í því fjárlagafrv. sem hér er til umr. En í frv. er þó, að ég held, gert ráð fyrir fjárveitingum eða minnst á allar aðrar línur sem eru sambærilegar við byggðalínu til Vestfjarða. Hún virðist því enn vera tekin út úr, og frv, gerir ekki ráð fyrir að þar verði um neinar framkvæmdir að ræða á næsta ári. Nú er það svo, að hér er um að ræða eina af aðalforsendum þess, að Orkubú Vestfjarða var sett á stofn, og öllum ætti að vera um það kunnugt, að Vestfirðir eru sá landshluti sem hvað verst er settur að því er varðar raforku. Það verður því ábyggilega litið, svo að maður noti orð hæstv. forsrh., alvarlegum augum af Vestfirðingum ef ekki á að standa við gefin fyrirheit sem hæstv. iðnrh. hefur gefið, og það verður eftir því tekið, hvort Vestfirðir verða í þessu sem og mörgu öðru skildir eftir að því er varðar framkvæmdir í sambandi við orkumál.

Ég nefndi hér áðan hafnamálin. Það er ekkert vafamál að hafnamálin hafa verið velflestum sveitarsjóðum og hafnarsjóðum úti á landsbyggðinni hvað erfiðastur þröskuldur í sambandi við fjárfestingu og að standa við skuldbindingar í þeim efnum. Fjárveitingar til hafnarframkvæmda hafa á undanförnum þremur árum verið stórkostlega skornar niður. Og eins og hér var hent á áðan, þá er gert ráð fyrir röskum 1100 millj. til framkvæmda í fiskihöfnum á landinu á því fjárlagafrv. sem hér er til um. Í hafnaáætlun, sem hér hefur nýlega verið dreift, er gert ráð fyrir miklu hærri fjárhæð til framkvæmda en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Annað tveggja gerist því, að fjárveitingar til hafnarframkvæmda verða stórlega skertar að raungildi, eða þá, sem ég tel að sé sjálfsagt, að gera verður ráð fyrir verulegri hækkun á þessum lið að því er varðar fjárlög fyrir árið 1978. Þetta á við um hinar almennu fiskihafnir í landinu. En það er annað viðhorf þegar kemur út á önnur svið að því er varðar hafnamál, eins og t.d. Grundartangahöfnina.

Fyrir henni virðist eiga að sjá vel, bæði að því er varðar ríkishlutann og einnig ætlar ríkið að fjármagna hlut sveitarsjóðanna sem hér eiga hlut að máli.

Ég hygg að það hafi a.m.k. ekki verið ætlun þeirra Alþfl.-þm., sem studdu Grundartangaverksmiðjuna og þær hafnarframkvæmdir sem þar er gert ráð fyrir, að þær nytu forgangs umfram allar aðrar hafnir í landinu, að framkvæmdir við Grundartanga yrðu á kostnað fiskihafna víðs vegar í kringum landið. Raunin virðist hins vegar ætla að verða sú. Ég vil aðeins í þessu sambandi varðandi hafnamálin vekja athygli á því að í þeim hafnalögum, sem samþ. voru á Alþ. 1973 og tóku gildi, ef ég man rétt, um áramótin 1973–1974, var sérstakt ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir að gerðar skuli sérstakar ráðstafanir til þess að létta greiðslubyrði af lánum þeirra hafnarsjóða sem eru verst settir. Hér er beinlínis lagaskylda. Á fjári. áranna 1974 og 1975 voru á heimildargrein 50 millj. árið 1974 og 40 millj, á árinu 1975 til þessa. Síðan er mér ekki kunnugt um, að nokkuð hafi gerst að því er þetta varðar. Hefur því ekki verið framfylgt þessu lagaákvæði hafnalaga sem gert var ráð fyrir að yrði til þess að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða í landinu sem verst eru settir, og þeir eru margir. Hér er því um að ræða að mínu viti svik við framkvæmd þeirra laga sem allir voru sammála um að ætti að framkvæma eins og þetta bráðabirgðaákvæði í hafnalögunum gerði ráð fyrir. Það er full ástæða til að minna á þetta hér og spyrjast raunar fyrir um það hjá talsmönnum hæstv. ríkisstj., hver sé meining í þessu máli áfram, hvort enn eigi að forðast að standa við þetta lagaákvæði, kannske þriðja árið í röð, þ.e.a.s. árið 1978.

Þá vil ég aðeins nefna hér eitt atriði sem mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á að því er varðar fjárlagagerð fyrir árið 1978. Nú er það svo, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að ríkissjóður á 85% af öllum heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum. í fjárlagafrv. fyrir árið 1978 er ekki gert ráð fyrir einum einasta eyri til viðhalds þessum eignum ríkisins að 85%. Það allt virðist eiga að setja á sveitarfélögin. Um þetta virðist vera ágreiningur. Fleira að segja er mér kunnugt um að eitt rn., þ.e.a.s. það rn, sem hér á hlut að máli, heilbr.- og trmrn., eða fulltrúar þess telja að skýlaust eigi ríkissjóður að standa skil á og standa undir 85% af viðhaldskostnaði þessara mannvirkja. En hæstv. fjmrh. virðist vera á annarri skoðun og raunar ríkisstj, sem heild, því að hér er um að ræða frv. ríkisstj. sem heildar, en ekki einstaks ráðh. Um þetta er deilt. Það eru uppi um þetta deilur. Meira að segja viðkomandi rn. telur að ríkissjóður eigi að borga þennan hluta af viðhaldi. (Gripið fram í.) Ef hæstv. fjmrh. er í vafa um þetta, þá vil ég benda honum á að þetta kom einmitt fram hjá ráðuneytisstjóra heilbr.- og trmrn. á fundi fjvn. nú fyrir nokkrum dögum. Þetta er því sjónarmið rn. (Gripið fram í.) Það skiptir ekki í mínum huga meginmáli, hvort menn eru lögfróðir eða ekki. Þeir geta verið meingallaðir fyrir það, þó að þeir séu lögfróðir (Gripið fram í.) Já, ég ber ráðuneytisstjóra heilbr: og trmrn. það ekki á brýn að hann sé ekki fróður. Það geta meirihlutamenn í fjvn. gert án minnar aðstoðar. Ég tek ekki undir það. (Gripið fram í: Er þm, í fjvn?). Hér er því að mínu viti stórkostlegt gat í fjárlagafrv. og raunar um stefnumál að ræða, hvort það er í raun og veru stefna hæstv. ríkisstj. að dengja þessum kostnaði öllum yfir á sveitarfélögin en fría ríkissjóð.

Ég skal, herra forseti, ekki lengja öllu meira mitt mál hér. Ég vil bó, áður en ég lýk því, aðeins vekja athygli á því og taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram, ekki bara hér á Alþ., heldur og víðar, varðandi þau áform hæstv. ríkisstj. að ætla á fjárl. ársins 1978 að gera ráð fyrir 700 millj. kr. til kaupa og endurbóta á hinu margnefnda Víðishúsnæði. Verði það framkvæmt og verði við það staðið af hæstv. ríkisstj., eins og bendir allt til, þá er ekki á nokkurn hátt að mínu viti hægt að tala um að ríkissjóður sé í fjárþörf. Slík ráðstöfun er að mínu viti vægast sagt bruðl á fjármunum ríkisins, ef hér á að standa að máli eins og frv. og hæstv, ríkisstj. og kannske stjórnarliðið í heild ætlar sér að gera. Ég held raunar að meiri hl. fjvn., þ.e.a.s. stjórnarliðar í fjvn., hafi þegar samþykkt þessa ráðstöfun á fjármunum ríkisins að upphæð 700 millj. vegna þessara kaupa og endurbóta.

Ég vil svo að síðustu aðeins fara örfáum orðum um þau vinnubrögð sem mér sýnist hæstv. ríkisstj. viðhafa að því er varðar fjárveitingar og fjárlög.

Það hefur gerst á undanförnum árum, að hæstv. ráðh. leggja fram fjárlagafrv. sem fjárlagafrv. ríkisstj., og þeir gera að sjálfsögðu allt sem hægt er til þess að meiri hl. fjvn. spyrni við fótum að því er varðar mikla hækkun á fjárlagafrv. frá því, sem það er lagt fram og til þess, er Alþ. gengur frá fjárl. Það eru ótalmörg dæmi þess sjálfsagt, að beiðnum hinna ýmsu aðila, sem fjvn. hefur hafnað að taka inn á fjárlög, hefur verið sinnt bakdyramegin frá af hæstv. ráðh. Það eru mörg dæmi þess, að fjárbeiðnum, sem komið hafa til fjvn. og hefur verið hafnað fyrir afgreiðslu fjári., hefur verið sinnt bakdyramegin úr rn, viðkomandi ráðh. Nýjasta dæmið, sem ég veit um slíkt, er að því er varðar Þjóðleikhúsið. Þar er um að ræða a.m.k. 30–35 millj. kr. upphæð sem veitt var bakdyramegin eftir að fjvn. hafði hafnað þeirri heiðni í tvö ár í röð. Og fleiri slík dæmi mætti finna og nefna. Með vinnubrögðum af þessu tagi er að sjálfsögðu verið að lítilsvirða fjvn. og Alþ., og það fer að verða spurning í hugum manna, hver tilgangur sé með starfi fjvn. og Alþ. þegar einstakir ráðh. og kannske einstakir menn í kerfinu — þarf ekki ráðherratitil til — geta ráðstafað fjármunum með þessum hætti. Ég held að það sé full ástæða til fyrir hv. alþm. að gefa þessu gaum og hafa í huga að til þess eru vítin að varast þau.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri að sinni. Það gefst frekara og betra tækifæri síðar til þess að ræða þetta mál við 2. umr. fjárlaga.