08.11.1977
Sameinað þing: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

1. mál, fjárlög 1978

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í umr. þeim, sem hér hafa farið fram í dag um fjárlagafrv., hafa komið fram nokkur atriði sem ég vil gjarnan gera að umræðuefni, enda þótt ég hugsi mér ekki að lengja umr. um of. Ég tel þó ekki mögulegt að ljúka þeim öðruvísi en koma að þeim aths. sem ég hef hripað á blað.

Hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, vék að því í ræðu sinni áðan, að ekkert fjármagn væri ofætlað í þessu fjárlagafrv. til greiðslu og viðhalds á heilsugæslustöðvum, og hann vék að kostnaðarhlutfalli því sem er varðandi byggingu heilsugæslustöðva, en ríkið greiðir 85% af kostnaðinum. Hann sagði m.a. frá því sem gerðist á fundi fjvn. Þar hafði ráðuneytisstjóri heilbr: og trmrn. komið og sagt skoðanir sínar á því, hvernig kostnaði við viðhald ætti að skipta, hver ætti að greiða hann, og taldi að um viðhaldskostnað heilsugæslustöðva ætti að gilda sama regla og um stofnkostnað. Ef lögin frá 1973 eru lesin, 22. gr., með leyfi forseta, þá kemur sk.ýrt fram að rekstrarkostnaður heilsugæslustöðva svo og kostnaður vegna aðstöðu lækna utan stöðva, annar en launakostnaður lækna, hjúkrunarkvenna og ljósmæðra, greiðist af þeim sveitarfélögum sem hlut eiga að máli. Viðhaldskostnaður hefur verið talinn til rekstrarkostnaðar eftir því sem ég best þekki til. þannig að hér er þetta skýrt tekið fram. Og ef litið er í grg. frv. kemur þar fram á bls. 16, með leyfi forseta: „Kostnaður við byggingu og búnað heilsugæslustöðva greiðist úr ríkissjóði að 85%.“ Einnig er gert ráð fyrir að laun héraðslækna og hjúkrunarkvenna, sem starfa í læknishéruðum, greiðist að fullu úr ríkissjóði, en annar rekstrarkostnaður heilsugæslustöðva af viðkomandi sveitarstjórnum. Mér sýnist því skýrt kveðið á um það hér, hvernig skuli fara með þennan kostnað. Hitt getur svo vel verið. að það séu skiptar skoðanir um hvort rétt sé að leggja þennan kostnað á sveitarstjórnirnar.

Þá kemur líka þar á móti, að það geta verið skiptar skoðanir um hvort eðlilegt sé að ríkið greiði 85% af stofnkostnaðinum á móti 15% frá sveitarfélögunum. Ég held að það sé skýrt kveðið á um þetta, hvað sem ráðuneytisstjóri heilbr: og trmrn. segir um málið í hv. fjvn. (Gripið fram í: Sem ekki er lögfróður.) Rétt, hann er læknisfróður.

Hv. þm. vék enn fremur að því, að fjvn. væri lítilsvirt, og vildi vekja athygli á því, að umframgreiðsla hefði verið heimiluð í sambandi við Þjóðleikhúsið. Það vill nú svo til að það er eitt af þeim verkefnum sem fjmrn. er ætlað, að meta umframgreiðslur ef beiðnir koma fram um þær. Það er rétt, það kom fram beiðni í sambandi við Þjóðleikhúsið vegna ákveðinna framkvæmda sem þar var talið óumflýjanlegt að stofna til. Og ég er viss um það, að þegar ríkisreikningurinn fyrir árið 1977 verður lagður á borð þm., þá geti ég hent þessum hv. þm. og öðrum hv. þm. á að hlutfallslega hafi verið minna um umframgreiðslur á þessu ári heldur en kannske oft áður.

Þá kem ég að atriði sem hv. 11. landsk. þm., Geir Gunnarsson, vék að í ræðu sinni. Þar ræddi hann um þá skýrslu, sem gefin var á Alþ. af fjmrh. á s.l. vetri, og vildi meina að hér hefði ekki verið um þá fyrstu skýrslu að ræða, heldur hefði hún verið gefin 1976, eftir áramótin, nm útkomu ríkissjóðs á árinu 1975. Eftir áramótin 1975–1976 var ekki gefin skýrsla um afkomu ríkissjóðs eins og gert var á s.l. vetri um afkomu ríkissjóðs 1976. Þar var um að ræða fréttatilkynningu um bráðabirgðatölur sem þá lágu fyrir, og vissulega var það rétt, þær tölur voru ekki fallegar. Hv. þm. — og reyndar líka hv. 8. landsk. þm. — vildi mjög gjarnan sýna fram á hversu góð fjármálastjórn hefði verið hjá fjmrh, á því ári. Ég skal fúslega viðurkenna að útkoma ársins 1975 er ekki til eftirbreytni, hvorki fyrir þann fjmrh„ sem situr í dag, né neinn annan. En ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að árið 1975 bar keim af því sem gerst hafði á árinu 1974, og það ár kom síður en svo vel út. Ég kom í rn. síðustu daga ágústmánaðar og sat þar 4 mánuði ársins 1974. Varla verður sagt að sá tími hafi verið með þeim hætti að hægt sé að kenna útkomuna setu minni þar. En það kom einmitt í ljós, þegar farið var að athuga þessi tvö ár. að árið 1974 verður ár sem þeir skoða sem vilja gera athugun á ríkisfjármálunum þegar fram líða stundir. Það er verkefni, sem gjarnan er haft þegar stúdentar við Háskólann skrifa um fjármál. að þá eru ríkisfjármálin skoðuð. Þá kemur í ljós að fjárl. á árinu 1974 eru 29.4 milljarðar, en ríkisreikningurinn er 41 milljarður, þannig að frávik frá fjárl. til ríkisreiknings er 11.6 milljarðar eða 39.5%, og það er ekki hægt að finna hærri prósentutölu um mismun á fjári. og ríkisreikningi allan þann tíma sem ríkisreikningurinn hefur verið gerður samkv. þeim lögum sem nú gilda um ríkisbókhaldið. Ef við ætlum að bera saman fjármálastjórn á þessu tímabili. 1974–1977, þá gætum við e.t.v. skoðað tölur ríkisreikningsins 1974 og þá útkomu sem spáð er í dag og gerð er grein fyrir í fjárlagafrv., 97.4 milljarðar. Þá kemur í ljós að ríkisreikningurinn, þ.e.a.s. útkoman hjá ríkissjóði, heldur ekki í við vísitöluna, eins og haft var til samanburðar áður. Framfærsluvísitalan, miðað við 100 meðalvísitölu 1974, er 245 stig 1977, síðla árs. En ef tekin er vísitala ríkisreiknings 100 1974, þá er hún 238 stig 1977, þannig að hér er um lægri tölu að ræða. Ef lítið er á útgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, þá getum við skoðað árin 1974 og 1976 og gert okkur grein fyrir því, að árið 1974 voru ríkisútgjöldin 31.4% af vergri þjóðarframleiðslu, en 27.6% á árinu 1976. Ef miðað er við þjóðarframleiðsluna á árinu 1976, þá er hér um að ræða 10 milljarða kr. sparnað, og ef litið er til þess, sem gert er ráð fyrir, að það sé svipað hlutfall vergrar þjóðarframleiðslu til ríkisútgjalda 1977, þá er hér um að ræða enn stærri tölu og þá komast menn jafnvel upp fyrir þá 16 milljarða sem þeir reiknuðu till. mínar og nafna míns á árinu 1974. Þá er sparnaðurinn í ríkisútgjöldunum kominn upp fyrir þá tölu sem við vorum að leggja til á þeim tíma.

Varðandi þá upphæð, sem verður að taka tillit til við fjárlagagerðina fyrir næsta ár, hefur sjálfsagt einhver ruglingur orðið þegar menn hafa verið að meta hvað dæmið væri stórt. Ég gat þess í minni framsöguræðu, að vegna samninganna við opinbera starfsmenn væri sú tala um 3.5–4 milljarðar. Síðan þarf að bæta við vísitölubótum vegna desembervísitölunnar sem er eitthvað á 4. milljarð. Þannig er talan á 8. milljarð komin til. Þegar gagnrýnt er að vísitölubætur í des. skuli ekki reiknaðar inn í fjárlagafrv„ þá er það með nákvæmlega sama hætti nú og á s.l. ári, og þá ber að benda á það, að tekjuáætlun fjárlagafrv. gerir ekki heldur ráð fyrir þeim forsendum, að vísitölubætur séu komnar inn, og verðlagsforsendurnar miðaðar við það, þannig að hér er samræmi bæði í tekjum og gjöldum fjárlagafrv. En í ræðu hv. 11. landsk. var eins og hann vildi álita að það væri ekki verið að taka inn útgjaldatölur, en hins vegar reiknað með því í tekjuliðunum.

Hv. 8. landsk. þm. vék að menntmrn. og því, að varðandi bréf, sem hv. fjvn. ritaði rn. og ætlaðist til framhaldsritunar þar, hefði komið í ljós að slíkt hefði ekki verið gert. Ég er honum alveg sammála um að hér er um að ræða vanrækslu að mínum dómi sem ekki er hægt að þola, og ég er sannfærður um að hæstv. menntmrh. hefur ekki visvítandi staðið að því að slíkt yrði vanrækt. Til þess hef ég óskað eftir mjög nánu samstarfi við fjvn, að hægt sé að koma fram þeim vilja sem Alþ. lýsir með samþykkt fjárlagafrv. Ég mun að sjálfsögðu í viðræðum við hæstv. menntmrh. víkja að þessu, og ég efast ekkert um það, ef honum er þetta ekki þegar ljóst, hann muni gera sínar ráðstafanir. En í framhaldi af því, sem hv. fjvn.-menn vita varðandi starfsmannahald ríkisins, þá mun ég gera mitt til þess að fjvn. geti sinnt því hlutverki, sem ég tel að sé hennar, í fullu samráði og samstarfi við fjmrn.

Hv. þm. vék að skattalögunum og sagði þá sögu ekki fagra hjá núv. fjmrh, né heldur ríkisstj. Hér er um að ræða veigamikla lagasetningu, og ég held að það væri miklu auðveldara fyrir stjórnarandstöðuna að gagnrýna fljótvirkni og fljótfærni heldur en að standa hér upp og gagnrýna það, að menn vilja ekki rasa um ráð fram. Á síðasta Alþ. var lagður fram lagabálkur um þessi mál og skýrt tekið fram í framsöguræðu fyrir því frv., að það væri lagt fram til þess að hægt væri að fá um það almennar umr. hér á þingi og annars staðar. Það frv., sem lagt verður fram á þessu þingi, kemur sjálfsagt til með að bera keim af því, að tekið hefur verið tillit til ýmissa þeirra hugmynda sem fram komu hér á þingi og annars staðar þar sem umr. fóru fram um skattamál.

Hann vék síðan að vörugjaldinu. Ég held að það sé ekki möguleiki að finna neins staðar í ræðum eða umsögn eftir mig, að ég segði að vörugjaldið félli niður. Ég hef alls staðar haft þau orð að lögin giltu til áramóta, enda hafa þau verið framlengd og gilt aðeins eitt ár í senn. Hins vegar liggur ljóst fyrir að þegar ríkissjóður verður af miklum tekjum; eins og nú er í sambandi við tollalögin, verður með einum eða öðrum hætti að bæta honum það upp, nema mikill niðurskurður eigi sér stað. En það var ekki að heyra á ræðum þeirra stjórnarandstæðinga áðan, að þeir væru tilbúnir að skera mikið niður. Mér fannst heldur hitt vera, að þá vantaði mikið fjármagn til þess að koma fram mörgum ágætum áformum sínum sem annarra. En það er nú gjarnan svo, að menn eru ekki tilbúnir að benda á, hvað eigi að skera niður, og ekki heldur, ef fjármagn vantar, að benda á með hvaða hætti það eigi að nást.

Hv. þm. vék að viðtali, sem sjónvarpið átti við ríkisskattstjóra, og hefur sennilega ekki tekið nægilega vel eftir. Ég hef þess vegna aflað mér þess texta sem er ritaður af segulbandi því sem ríkisskattstjóri talaði inn á. Spurningin, sem var beint til hans, var á þessa leið, með leyfi forseta:

„Heldurðu að það verði erfiðara að svíkja undan skatti eftir að staðgreiðslukerfið verður tekið upp?“

Ríkisskattstjóri svaraði:

„Ekki held ég það nú, og þó má vera að það verði, vegna þess að í þessu kerfi felst visst eftirlit. Það er miklu erfiðara að fara að ganga frá ákveðnum hlutum eftir á, vegna þess að þessir hlutir verða að gerast jafnóðum. En ef menn eru þess sinnis og hafa vit á geta þeir alltaf skattsvikið.“

Ég vil svo að lokum víkja að tveimur atriðum sem hv. 11. landsk. þm. kom inn á. Annars vegar var það Fjölbrautaskólinn á Suðurnesjum, og hann blandaði því máli saman við hið fræga Víðishús. Ég veit að hann gerir sér miklu betri grein fyrir þessu en fram kom í því sem hann sagði áðan. Honum er ljóst að gjaldfærður stofnkostnaður til þessara skóla er á ákveðnum lið. Sú upphæð er óskipt í fjárlagafrv. og hefur verið það og það er þingsins að skipta því fé. Hitt má svo vel vera, að mönnum finnist að fjmrh. liggi vel við höggi af því að það hefur verið sótt um byggingu skóla í hans kjördæmi og hann hefur ekki viljað taka það upp sem sérstaka fjárveitingu í fjárlagafrv. til þess að sýna það, heldur gert ráð fyrir, að fjvn. við athugun málsins tæki tillit til þeirra þarfa sem um er að ræða, þ.e.a.s. byggingar ofan á iðnskólahús í Keflavík, en þar hefur Fjölbrautaskólinn verið til húsa. Hv. 6. þm. Norðurl. e, vék að því í ræðu sinni, hvað fjárveitingar til þessa skóla hafa hækkað á síðustu tvennum fjári. og þessu fjárlagafrv., og það ber vissulega ekki volt um vonsku fjmrh. við kjördæmi sitt. En við skulum vona að ég og hv. 11. landsk. þm. getum staðið saman að því að líta á þarfir þessa skóla við skiptingu þess fjármagns, sem er í lið 792, framlög til byggingar grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra, gjaldfærður stofnkostnaður. Samkv. því, sem menntmrn. hefur óskað eftir, er gjaldfærður stofnkostnaður vegna fjölbrautaskóla hafður á þessum lið og kemur þess vegna óskiptur til fjvn. Verður fjvn. að meta það og vega, hvaða byggingar það eru sem í skal ráðist. Það hlaut að teljast hlutdrægni, ef þessi skóli hefði verið tekinn þar út úr.

Varðandi Víðishúsið, sem flokksbræður hv. 11. landsk. þm. hafa gert að pólitísku bitbeini á undanförnum mánuðum, var það hugsun mín að hv. þm, fengju að sjálfsögðu þær skýrslur sem fjvn, fékk á s.l. sumri, þannig að það þarf ekki að hafa með einum eða öðrum hætti fyrir því. Þær mun ég láta hv. þm. í té strax á morgun. Ég taldi hins vegar eðlilegt að það yrði gert í sambandi við þetta frv. Athugun á að kaupa Víðishúsið kom til í sambandi við vilja stjórnar Ríkisútgáfu námsbóka sem hafði heimild til að kaupa hús fyrir sig. En þau mál þróuðust þannig, að menntmrn, óskaði eftir því að fá heimild til að kaupa á húsnæði í sama húsi, og þannig kom til að menntmrn. lagði til kaup á Víðishúsinu.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjvn.