17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Verkfall opinberra starfsmanna hefur nú staðið í eina viku og valdið miklum erfiðleikum og óþægindum, og menn hljóta að spyrja sig, hvort ekki hefði verið hugsanlegt að komast hjá því að til þessara tíðinda drægi. Ég held að kjarni þessa máls, kjarni þeirrar umr., sem hér hefur farið fram, sé sá að ríkisvaldið hafi ekki til fulls áttað sig á því að ástæður eru breyttar, að sá tími er liðinn að fjmrh. geti deilt og drottnað í viðskiptum sínum við opinbera starfsmenn og sagt: Þetta er ég reiðubúinn að láta, annað ekki. — Ég held að mörg rök megi færa því til sönnunar, að með skynsamlegri vinnubrögðum af hálfu ríkisvaldsins hefði mátt komast hjá þessu verkfalli.

Í þessari deilu eru að sjálfsögðu fjöldamörg atriði sem um er deilt, og ég ætla ekki að gera þan hér almennt að umtalsefni frekar en aðrir sem hér hafa talað. En vegna orða hæstv. forsrh. áðan sé ég mig nú til knúinn að ræða hér sérstaklega um eitt atriði þessarar deilu, en það er endurskoðunarrétturinn. Ég held að flestir geti verið sammála um það, sem nokkuð þekkja til, að ekkert eitt atriði í þessari deilu hefur tafið samningsgerð eins og einmitt þetta atriði varðandi endurskoðunarrétt.

Í samningum þeim, sem gerðir voru milli atvinnurekenda og almennu verkalýðsfélaganna í sumar, var talið sjálfsagt að hafa það ákvæði með í samningnum, að ef ríkisvaldið rifti vísitöluákvæðum samningsins, þá skyldi samningurinn vera uppsegjanlegur. Því miður hef ég nú ekki þetta orðalag fyrir framan mig, en ég veit að enginn dregur í efa að slík ákvæði ern í samningum hinna almennu verkalýðsfélaga, jafnvel þótt samningurinn sem slíkur sé gerður til ákveðins tíma. Afstaða BSRB hefur verið sú að gera þessa sömu kröfu. Það hefur krafist þess, að ef vísitöluákvæðum samningsins yrði riftað, þá stæði að vísu aðalsamningurinn áfram eftir sem áður, en BSRB hefði rétt til uppsagnar á launalið samningsins þar sem forsendur fyrir þeim launum, sem um væri samið, væru algerlega brostnar.

Í lögunum er ekkert ákvæði um þetta atriði málsins. Það er alveg óumdeilt, að lögum um verkfallsrétt opinberra starfsmanna fylgir ekki þessi réttur, fylgir ekki þessi endurskoðunarréttur af sjálfu sér. Það segir einfaldlega í grg. með frv. þegar það var lagt fram hér á Alþ.: „Lögbundinn endurskoðunarréttur með gerðardómi eða verkfallsrétti fylgir ekki aðalkjarasamningi.“ En þar fyrir er ekkert því til fyrirstöðu að sjálfsögðu, að samningsaðilar komi sér saman um slíkan endurskoðunarrétt, og ég vek á því athygli að það er ekki eitt einasta ákvæði í þessum lögum sem kemur í veg fyrir að slíkt samningsákvæði sé tekið upp í samningum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja við ríkið. Það er alger rangtúlkun á lögunum sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að það væri nánast lögbrot að semja um slíkt ákvæði. Menn verða að hafa það í huga, að ef vísitöluákvæðum þessa samnings, sem BSRB mun væntanlega fyrr eða síðar gera við ríkið, er riftað af ríkisvaldinu, þá er raunverulega verið að rifta samningnum, þá var það ríkisvaldið sem hefur frumkvæði að því að rifta samningnum. Og þá er spurningin sú ein, hvort opinberir starfsmenn hljóti ekki að hafa endurskoðunarrétt til að krefjast endurskoðunar í framhaldi af þeirri riftun sem ríkisvaldið hefði þá sjálfsagt átt frumkvæði að.

Ég sem sagt vek á því athygli, að menn geta lesið í gegn lögin um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og þeir munu ekki finna þar eitt einasta ákvæði sem kemur í veg fyrir að samningsákvæði af þessu tagi sé tekið upp í væntanlega samninga opinberra starfsmanna fyrir ríkið. Öllum ákvæðum laganna yrði fylgt eftir sem áður, m.a. því ákvæði sem kemur fram í 8. gr., að samningurinn skuli gerður til tveggja ára. Aðalkjarasamningurinn mundi áfram standa, enda þótt þessu eina atriði, þ.e.a.s. launalið samninganna, yrði sagt upp.

Ég vil einnig vekja á því athygli, að bersýnilegt er öllum þeim, sem þetta mál skoða, að ein helsta ástæðan til þess, að samningar opinberra starfsmanna við ríkið eru nú komnir í baklás, er sú, að ríkisstj. hefur bitið sig algerlega fast í þessa afstöðu sína. Og því miður hafa verið gefnar ótímabærar yfirlýsingar, bæði af hálfu forsrh. og af hálfu hæstv. fjmrh., um þetta atriði. Ég held hins vegar að öllum hugsandi mönnum hljóti að vera það ljóst, að þessi deila verður ekki leyst ef ríkisstj. ætlar að sýna fullkomna óbilgirni og stífni í afstöðu sinni. Það segir sig sjálft, að ríkisstj. er alls ekki stætt á því að neita opinberum starfsmönnum um þennan rétt sem almennu verkalýðsfélögin sömdu um. Þetta er alveg samsvarandi réttur og engin ástæða til þess að opinberir starfsmenn þurfi að sitja þar við annað og verra borð.

Ég vil sem sagt láta það verða mín lokaorð hér, að afstaða ríkisvaldsins, afstaða ríkisstj. er bersýnilega grundvölluð á einhverjum lögfræðilegum útúrsnúningum sem eiga sér ekki neina stoð í heilbrigðri skynsemi og enn síður í lögum um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Ég efast ekki um að breyting á afstöðu ríkisstj. til endurskoðunarréttarins muni verulega flýta fyrir samningum, og ég vil því leyfa mér að lokum að skora á þá aðila innan ríkisstj., sem því miður hafa fram til þessa bitið sig í harla óskynsamlega afstöðu hvað þetta snertir, að breyta afstöðu sinni.