08.11.1977
Sameinað þing: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

1. mál, fjárlög 1978

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. hefur kannske ekki gert sér grein fyrir því, þegar hann talaði hér áðan, að þegar fjárlagafrv., sem var borið saman við fjárlagafrv. það sem hér liggur fyrir, var unnið og samþ. á Alþ., þá gegndi hv. 11. landsk. þm. því starfi að vera formaður fjvn. Það skyldi þó aldrei hafa verið hann sem hér á Alþ. átti töluvert mikinn þátt í því að móta það frv. — 29 milljarða frv. sem reyndist 41 milljarður í ríkisreikningi? Ég hef áður vikið að þessu hér á þingi, og ég hef vikið að þessu hér á þingi að viðstöddum forvera mínum, sem þurfti að taka við þessu fjárlagafrv. Það gerðu sér allir grein fyrir því sem sátu á þingi 1973 þegar þetta fjárlagafrv. var barið í gegn, að það var óraunhæft. Þáv. fjmrh. fékk í hendurnar óraunhæf fjárlög. Það er það sem ég var að benda á áðan, þegar ég sagði að ríkisreikningurinn 1977 verði með minna fráviki frá fjárlögum en ríkisreikningurinn hefur verið undanfarin ár, vegna þess að það hafa verið lögð fram og það hafa verið samþ. á þingi nú seinustu tvö árin raunhæfari fjárlög en oft áður. Og það er það sem á að gera til þess að hægt sé í raun og veru að hafa fjármálastjórnina í lagi.

Varðandi það, sem hv. 11. landsk. þm. sagði í sambandi við Fjölbrautaskólann á Suðurnesjum, þá var mér fullkomlega ljóst að á liðnum Fjölbrautaskóli Suðurnesja var þessi tala, 5 millj., til kaupa á tækjum. En samkvæmt till. menntmrn. er á þeim lið, sem ég las upp áðan, það fjármagn sem ætlað er í gjaldfærðan stofnkostnað vegna grunnskóla og vegna fjölbrautaskóla, hvort sem sú upphæð er sú sem menntmrn. lagði til eða vildi gjarnan fá, það er allt annað mál. Ef við, þegar við afgreiðum fjárl., ætlum fjármagn til Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum til byggingar, þá er þetta liðurinn þar sem fjármagnið er, hvort sem það er nægjanlegt eða nægjanlegt ekki. Þegar fjvn. skiptir þessu fjármagni þarf hún að taka tillit til þess, að samkvæmt beiðni menntmrn. er gjaldfærður stofnkostnaður grunnskóla og fjölbrautaskóla óskiptur á þessum lið. Það var því enginn misskilningur hjá mér að í þessum lið væri það fjármagn sem ætti að fara í stofnkostnað fjölbrautaskóla.