03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4401 í B-deild Alþingistíðinda. (3716)

299. mál, jöfnunargjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af orðum hv. 2. þm. Vestf. vil ég segja þetta: Það hefur ekki nú þegar verið ákveðið með hvaða hætti þessum áætluðu 675 millj. kr. verður skipt, þ. e. a. s. hver verður hluti ríkissjóðs og hvað verður til ráðstöfunar eins og sagt er í þessu frv. Ég er því ekki viðbúinn því að gera grein fyrir hverjum upphæðum verður ráðstafað til einstakra þátta. En ég sagði áðan í ræðu minni að m. a. yrði þetta fjármagn notað til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti, og ég tel að endurgreiðsla uppsafnaðs söluskatts 1975 og 1976 eða 1978, 1979 og 1980, því að frv. gerir ráð fyrir að þessi lög standi til ársloka 1980, komi til greina í sambandi við nýtingu eða ráðstöfun á þessu gjaldi. Ég vona að það, sem ég nú hef sagt, skýri fullkomlega að endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti er hugsuð og þá kemur hvort tveggja til greina, það sem ekki hefur verið greitt 1975 og 1976

Fjárlög 1978 gera ráð fyrir endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti 1977 — og þá aftur 1978, 1979 og 1980

Síðan vék ég að því, að það væri hugmynd m. a. að nota eitthvað af þessu til eflingar Útflutningsmiðstöð iðnaðarins og markaðsöflun fyrir íslenskar iðnaðarvörur, til undirbúnings og skipulagningar tæknistofnunar fyrir iðnaðinn og til eflingar tækniaðstoð við iðnfyrirtæki, til starfsþjálfunar og eftirmenntunar faglærðs og ófaglærðs fólks, er við iðnað starfar, til að auka stuðning við nýiðnaðarverkefni og til eflingar vöruþróun. Ég held að þessi atriði séu þau sem iðnrekendur hafa bent á og gert till. um. En í fyrsta lagi voru hugmyndir þeirra um hærra gjald en þetta frv. gerir ráð fyrir og síðan að ekki hafði verið komin niðurstaða eða útreikningar á hver væri t. d. kostnaður ríkissjóðs af álagningu þessa gjalds. Ekki hefur því fengist endanleg niðurstaða um hvernig gjaldið skiptist á milli annars vegar ríkissjóðs og hins vegar til þeirra þátta í sambandi við þróun iðnaðarins sem ég gat um.