03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4403 í B-deild Alþingistíðinda. (3718)

299. mál, jöfnunargjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil ekki fallast á að ég hafi gefið loðin svör við fsp. hv. 2. þm. Vestf. Ég vil og vekja athygli á því, að í framsöguræðu minni gat ég þess, til hvers jöfnunargjaldinu skyldi varið í þágu iðnaðarins. Ég nefndi fyrst endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Þar koma til greina árin 1975, 1976, 1978, 1979 og 1980. (AG: Þetta er loðið, það kemur til greina, stendur það til? Það er það sem ég spurði um.) Meðan ríkisstj. hefur ekki tekið ákvörðun um hvernig þessu skuli varið, þá get ég ekki svarað því. Ég get sagt, eins og ég sagði, að ætlunin er að nota þetta gjald m. a. til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Það liggur alveg ljóst fyrir. Ég taldi upp fleiri atriði sem ég sé ekki ástæðu til að endurtaka hér, en það eru allt, eins og ég sagði áðan, hugmyndir sem komið hafa frá samtökum iðnaðarins og fulltrúum þeirra.