03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4403 í B-deild Alþingistíðinda. (3719)

299. mál, jöfnunargjald

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Við umr. í Nd. var sýnt fram á með ljósum rökum að jöfnunargjaldið, sem hér er um að ræða, kemur alls ekki í stað endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti, svo sem í veðri er látið vaka. Einnig var gerð grein fyrir því, að jöfnunargjaldið mun verka eins og nýr skattur með verðbólguhvetjandi afleiðingum.

Ég hlýt að taka undir með hv. 12. þm. Reykv. gagnrýni hans á meðferð á till. í Sþ. varðandi uppsafnaðan söluskatt, þeirri meðferð sem hún hefur þar hlotið. Það er óskiljanlegt að þessi till. skuli ekki hafa komið úr n. Ég verð að viðurkenna að ég get alls ekki rennt grun í hinar óttalegu hugrenningar hans, sem hann gerði grein fyrir áðan, grunsemdir hans um hvatningar sem að baki þessari tregðu liggja, en leyfi mér sjálfur að bera fram vingjarnlegustu tilgátuna, sem er beinlínis sú, að ríkisstj. fremur en hæstv. fjmrh. sem slíkur hafi bara ákveðið að svíkja gefin fyrirheit í þessu máli.

Auðvitað eru svör hæstv. fjmrh. við fsp. þm. hérna loðin, að ætlunin sé, að fyrirhugað sé að verja þessu gjaldi til greiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Hv. þm. vita ósköp vel og hafa fyrir sér reynslu af því og það er frá næstliðnum dögum og síðan í gær, en þá var hér til umr. hvernig hæstv. fjmrh. hefur notað fé, sem er miklu fastar skilorðsbundið en þetta, til annars konar ráðstöfunar en þeirrar sem ætlað var. Það kom fram við umr. hér í þessari d. í gær, með hvaða hætti hæstv. fjmrh. varði fjárveitingum sem bundið var með lögum frá hv. Alþ. að fara skyldu til rannsóknarstarfa á vegum Orkustofnunar, til þess að greiða með vanskilaskuldir. Og ég get alls ekki, enda þótt ég vilji síður en svo bera hæstv. fjmrh. á brýn neins konar undirhyggju og enn þá síður óheiðarleika, — ég get eigi að síður alls ekki tekið mark á yfirlýsingum af þessu tagi og hef fullkomna ástæðu til þess að ætla að það fé, sem bæst inn með jöfnunargjaldinu, sé beinlínis í voða.