09.11.1977
Efri deild: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

72. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það má segja að þetta frv., sem hér er flutt, sé nokkuð gamall kunningi. Það hefur legið áður fyrir hv. Alþ. í þessari hv. d., en hefur ekki hlotið nægilegan byr til þess að komast alla leið í gegn. Því hefur þó, að ég tel, ekki verið illa tekið í sjálfu sér. Þess er nú freistað að leggja það fram einu sinni enn og sjá til þess, hvort það nær ekki nægilegu fylgi til þess að verða að lögum. Ég býst við því, að hvað sem um það hefur mátt segja áður, þá telji þó flestir nú að þörf sé á að sinna umferðarmálum og umferðarslysavörnum og það megi ekki spara fé eða fyrirhöfn í því efni.

Það er öllum kunnugt og þarf ekki að hafa um það mörg orð hér, að það er eins og það hafi gengið yfir landið að undanförnu slysaalda og þá ekki hvað síst umferðarslysaalda. Sjálfsagt liggja ýmsar ástæður til þess, og má finna hinar og þessar skýringar þar á sem ég skal ekki fara út í hér. En um hitt hljóta allir sanngjarnir og góðir menn að vera sammála, að það verður að reyna að leita þeirra úrræða sem möguleg eru, allra þeirra úrræða til þess að reyna að draga úr þeim ófarnaði.

Þetta frv. gengur í þá átt að auka fjárráð Umferðarráðs og gera það með þeim hætti hæfara en ella til að sinna hlutverki sínu. Það var árið 1970 sem ákvæði um Umferðarráð voru lögfest. Það hafði reyndar verið sett á stofn árið áður, ef ég man rétt, en var þó ekki lögfest beinlínis fyrr en á árinu 1970. En í þessu lagaákvæði, sem um Umferðarráð er og er að finna í umferðarlögum, var ekki gerð grein fyrir því, með hverjum hætti starfsemi þess yrði fjármögnuð.

Eins og öllum er kunnugt, hefur síðan verið aflað fjár til að standa undir starfsemi Umferðarráðs með þeim hætti, að fé hefur verið veitt á fjárlögum hverju sinni til þess að standa straum af kostnaði við Umferðarráð. En þeim fjárveitingum hefur að jafnaði verið það þröngur stakkur skorinn, að Umferðarráð hefur ekki getað sinnt því hlutverki, sem því er ætlað að gegna að lögum, nema að takmörkuðu leyti. En hlutverk Umferðarráðs eru mjög mörg og margvísleg. Þau eru skilgreind í þessu lagaákvæði í umferðarlögunum. Sú upptalning, sem þar er, er þó með þeim hætti að þar er í raun og vera ekki um neina tæmandi upptalningu að ræða, en ég skal aðeins minna á nokkur atriði sem þar er sérstaklega tekið fram að umferðarráð eigi að sinna.

Í fyrsta lagi á Umferðarráð að beita sér fyrir því, að haldið skuli uppi umferðarfræðslu í landinu. Þetta eitt út af fyrir sig er nokkuð mikið verkefni. Jafnvel þó að öðrum aðilum, eins og skólum, sé ætlað það hlutverk að halda uppi umferðarfræðslu, þá getur þó þurft að hafa þar umsjón með og stjórn á.

Í öðru lagi er tekið fram að það skuli vera hlutverk Umferðarráðs að vera fræðsluyfirvöldum, umferðarnefndum sveitarfélaga og samtökum, sem vinna að bættri umferðarmenningu, til hjálpar og ráðuneytis eftir því sem ástæður leyfa. Þetta verkefni er að sjálfsögðu mjög viðtækt og auðvitað eðli málsins samkv. ótæmandi.

Í þriðja lagi er sagt að það eigi að vera verkefni umferðarráðs að standa fyrir útgáfu fræðslurita og bæklingum um umferðarmál og hafa milligöngu um útvegun kennslutækja og annarra gagna til nota við fræðslustarfsemi. Umferðarráð hefur auðvitað reynt að sinna þessu hlutverki. En það er eins um þetta verkefni og það sem ég nefndi áðan, að því verða í raun og veru litlar skorður settar, ef fjárráð eru fyrir hendi til að rækja það.

Í fjórða lagi er svo nefnt að það eigi að hafa milligöngu um umferðarfræðslu í Ríkisútvarpinu og öðrum fjölmiðlum. Hafa menn auðvitað orðið varir við að Umferðarráð hefur staðið að slíkri fræðslu eða fræðsluþáttum.

Í fimmta lagi á það að beita sér fyrir bættum umferðarháttum. Ég býst við að menn geti verið sammála nm að það sé ekki vanþörf á því, að hér séu teknir upp betri umferðarhættir að ýmsu leyti.

Þá er sú skylda lögð á Umferðarráð, að það á að safna upplýsingum um umferðarslys og halda um þau skýrslur. Það á enn fremur að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um umferðarmál og það á að fylgjast með umferðarmálum og þróun reglna um það etni erlendis. Svo á það líka að lokum, eftir því sem segir í lögunum, að leitast við að samstilla til samstæðra og samræmdra átaka í umferðarslysavörnum og bættri umferðarmenningu.

Þetta, sem ég hef hér aðeins lítillega minnst á, sýnir að hlutverk Umferðarráðs er æðimikið. Þó að lengi megi deila um það, hvernig Umferðarráði og hverri annarri stofnun sem um er að tefla tekst að rækja það hlutverk sem þeim er falið, þá held ég að það verði ekki vefengt að Umferðarráð hefur reynt að sinna þessu verkefni sem því er falið í lögunum. En eins og ég sagði áðan, hefur geta þess þar verið takmörkuð af þeim fjárveitingum sem því hafa verið ætlaðar.

Þessu frv., ef að lögum verður, er ætlað að bæta úr fjárþörf Umferðarráðs með því að ætla því ákveðinn tekjustofn, þ.e.a.s. gert er ráð fyrir í þessu frv. að 11/2% af iðgjaldatekjum vegna lögboðinnar ábyrgðartryggingar ökutækja skuli renna til Umferðarráðs. Ef þessi breyting væri gerð á lögum og Umferðarráð héldi eitthvað svipuðum fjárveitingum á fjárlögum og það hefur nú og gert er ráð fyrir að það hafi í framlögðu fjárlagafrv., þá mundi mjög verða bættur fjárhagur Umferðarráðs.

Eins og tekið er fram í grg. með þessu frv., námu heildariðgj. ábyrgðartrygginga tilheyrandi árinu 1976, sem er síðasta árið sem tölur liggja fyrir um, 1235 millj. kr. Ef þessi ákvæði hefðu þá verið í gildi, hefðu því gengið til Umferðarráðs og þar með til umferðarslysavarna á þessu ári, auk framlags á fjárlögum, um 18.5 millj. kr. En framlag á fjárlögum mun vera yfir 19 millj.

Ekki verður talið óeðlilegt að vátryggingarfélögin leggi með þessum hætti nokkuð til rekstrar Umferðarráðs, vegna þess að gera má ráð fyrir að starfsemi Umferðarráðs komi tryggingarfélögunum einmitt til góða með þeim hætti að það verði minni tjón, sem þau þurfa að bæta, eftir því sem starfsemi að umferðarslysavörnum og starfsemi Umferðarráðs getur verið öflugri.

Það er að sjálfsögðu svo, að umferðarslysavarnir eru engan veginn takmarkaðar við starfsemi Umferðarráðs. Það eru auk þess starfandi frjáls félagssamtök sem sinna þessum málum. Ég álít starfsemi slíkra frjálsra félagssamtaka mjög mikils verða og álít hýðingarmikið að hún sé örvuð á allan hátt. E.t.v. má segja að það sé með engu betra móti hægt að vinna að umferðarslysavörnum sem og slysavörnum almennt heldur en einmitt með slíku áhugamannastarfi. En ég held þó að stofnun eins og Umferðaráð geti einmitt þjónað slíkum frjálsum félagasamtökum og stutt við bakið á þeim með margvíslegum hætti. Og það er óhætt að segja, að það hefur verið, að ég best veit, hin besta samvinna á milli allra aðila sem við þessi mál fást. Ég held að það sé tímabært nú að hefja öfluga sókn í þessum málefnum. Þó að það verði út af fyrir sig ekki gert eingöngu með því að veita þetta fé, sem hér er um að ræða, til Umferðarráðs, þá er ekki nokkur vafi á því, að það getur orðið lyftistöng og stuðlað að meiri og betri starfsemi þess. Það er skoðun mín, að við megum ekki láta neins ófreistað til þess að reyna að draga úr þeim miklu slysum sem hér hafa átt sér stað og eiga sér sínar orsakir, eins og ég gat um áðan. Mönnum hefur ekki þótt óeðlilegt að umferðarslysum fjölgi þegar bílafjöld inn eykst jafnstórkostlega og raun er á hér á landi.

Því mun eitthvað hafa verið hreyft í sambandi við þetta frv. sem mótbáru, að þó að það stæði í frv. að það væru tryggingarfélögin, sem ættu að greiða þetta gjald af iðgjaldatekjum sínum, þá mundi fara svo að þessu gjaldi yrði í raun og veru veit yfir á þá sem trygginguna taka, á bifreiða eigendur. Hvað sem um það er, þá held ég fyrir mitt leyti að það sé ekki hægt að segja að það sé í raun og veru ósanngjarnt, vegna þess að slysin eru til komin vegna bifreiðanna og hættan er til komin vegna þess að þær eru fyrir hendi. Og það er nú einu sinni svo, að það er eðlilegt að þeir, sem þess njóta og þau farartæki nota, leggi fram sinn skerf einmitt með þessum hætti til þess að koma í veg fyrir umferðarslys. Mér er að vísu ljóst, að þeir geta með réttu sagt að þeir greiði með ýmsum hætti sitt af hendi til hins opinbera. En ég trúi varla öðru en að þeir mundu með glöðu geði yfirleitt Leggja fram þennan skerf, ef til kæmi, í þeim tilgangi sem hér er um að ræða.

Að sjálfsögðu, eins og ég sagði áðan, geta verið eitthvað skiptar skoðanir um það, hvernig á málum er haldið af Umferðarráði. Menn vita sjálfsagt í stórum dráttum hvernig það er skipað, um það eru ákvæði í lögunum. Þar eiga fulltrúa allir helstu aðilar sem koma nærri þessum málum, en að sjálfsögðu getur verið ástæða til að taka þau ákvæði til athugunar sem og umferðarlögin í heild sinni, enn fremur auðvitað ýmislegt sem varðar bifreiðaeftirlit og reglur sem varða það. En ég held að það þurfi yfirleitt, eins og segir í þessum lagaákvæðum, að samstilla og samræma kraftana, sem að þessum málum vinna, til sameiginlegs átaks í þessum efnum.

Þetta frv. er ekki stórt í sniðum og efni þess er augljóst og einfalt, og ég skal ekki fara um það fleiri orðum. Hér er spurning um það einfaldlega, hvort menn vilja gera þetta eða ekki. Menn sjá hvað hér er um að ræða og það þarf ekki nánari útskýringa við.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.