03.05.1978
Efri deild: 97. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4425 í B-deild Alþingistíðinda. (3758)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Oft er það svo, að hv. 5. þm. Norðurl. v. og ég erum sammála um að frv. séu meingölluð, en aldrei erum við þó sammála um ástæðuna fyrir þessum göllum. Eins er það með þetta frv. Síst af öllu er ég honum sammála um að þetta sé eitthvað sérlega gott eða fyrst og fremst kosningafrv. meirihlutaflokka á Alþingi.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á frv. frá því það var lagt fram á síðasta þingi, og sætti ég mig vel við þær flestar, en ýmis meginatriði standa enn þá eftir og gera það að verkum að ég fyrir mitt leyti gat ekki skrifað undir meirihlutaálit fjh.- og viðskn. Í þessu frv. er enn þá beint ýmsum spjótum að lífsskoðunum mínum sem urðu til þess að sjálfstæðismenn óskuðu eftir því, að frv. færi ekki í gegn og yrði að lögum á síðasta þingi.

Ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim aths. sem m. a. gera það að verkum að ég get ekki staðið að samþykkt þessa skattalagafrv. Ég hef áður getið um að í 4. gr. þessa frv. að lögum, eins og það liggur fyrir til umr. er talað um skattfrelsi forseta Íslands og maka hans. Ég er því sammála, að forseti Íslands og maki eiga að vera skattfrjáls af embættistekjum sínum, en ekki af öðrum tekjum. Ég hef fært rök að því, að forseti Íslands gæti t. d. verið kona og átt eiginmann sem væri stórtekjumaður, og ég sé enga ástæðu til þess, að maki í því tilfelli nyti skattfrelsis, eða ef forseti Íslands væri stórtekjumaður fyrir utan embættið, að hann nyti skattfrelsis af þeim tekjum. Ég sé enga ástæðu til þess heldur, að ríkisfyrirtæki njóti algers skattfrelsis eins og stendur í 2. lið 4. gr. og ég sé enga ástæðu til þess, í 4. gr. 4. lið, að erlend ríki og stofnanir njóti skattfrelsis af viðurkenndri starfsemi hér á landi, nema um gagnkvæmnisamninga sé að ræða.

Í II. kafla, 7. gr., er svohljóðandi setning:

„Til tekna skal telja og skiptir eigi máli hver innir greiðslu þeirra af hendi: . . . . . Hvorki skiptir máli hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum.“

Við vitum að unga fólkið verður oft bjargálna og eignast þak yfir höfuðið með ókeypis aðstoð frá vinum og kunningjum og hvort við annað. Ég mótmæli því, að nokkur sá sjálfstæðismaður, sem hér á Alþ. situr, geti með góðri samvisku greitt þessari grein atkv. sitt. Þetta hefur verið eitt af baráttumálum Sjálfstfl., að fólk fái að vinna fyrir hvert annað í friði án þess að vera hundelt af ríkisskattstjórum eða öðrum opinberum aðilum.

Neðar í 7. gr., neðst í 1. lið, stendur að það skuli reikna gjald eins og þar kemur fram: „Á sama hátt skal reikna endurgjald fyrir starf sem innt er af hendi af maka manns eða barni hans sé starfið innt af hendi fyrir framangreinda aðila.“ — Sem sagt, ef annaðhvort foreldri eða maki er með einhvers konar rekstur á sínum vegum. Mér finnst þetta vera hreint siðleysi.

Ég skal fara fljótt yfir sögu. Ég vil gera aths. við þá breytingu sem orðið hefur á 16. gr., þegar talað er um söluhagnað af íbúðarhúsnæði. — Ég er í fjh.- og viðskn. Ed. Ég fylgist ekki, fremur en hv. 5. þm. Norðurl. v., vel með því, sem gerist í fjh.- og viðskn. Nd., og ekki heldur umr. þar. Mér er ekki kunnugt um hvernig þessi viðmiðunartala hefur lækkað úr 750 kúbikmetrum í 600 og úr 1500 í 1200. En þó að hún hefði ekki verið lækkuð, þá vil ég mótmæla því, að svo sé höggvið að einstaklingum eða eignafólki sem hér er gert. Fulltrúi fjmrn., sem kom á fund fjh.- og viðskn., staðfesti líka að hér væri að verulegu leyti þrengt að eignafólki frá því sem nú er, sem sagt, það er gengið á eignarrétt fólks. Ég vil enn þá undirstrika að Sjálfstfl. þykist a. m. k. hafa það á stefnuskrá sinni að verja eignarrétt allra, hvort heldur þeir eiga miklar eða litlar eignir. Og það kom fram, sem undirstrikar það sem ég segi nú, hjá hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., að það fer ekkert á milli mála að eignarskattur mundi hækka verulega — það eru hans orð — hækka verulega frá því sem nú er. Og nóg er fyrir.

Í 59. gr., — ég stikla enn á stóru, þetta er rétt til að gera grein fyrir þeirri afstöðu sem ég tók í hv. fjh.- og viðskn., er talað um, með leyfi forseta, best ég lesi það upp:

„Ef maður, er starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða hjá aðila honum tengdum, telur sér til tekna af starfi þessu lægri fjárhæð en ætla má að launatekjur hans hefðu orðið ef hann hefði unnið starfið sem launþegi hjá óskyldum aðila, skal ákvarða honum tekjur af starfinu. Ríkisskattstjóri skal árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til slíkrar ákvörðunar.“

Þetta finnst mér vera svo andstætt mínum lífsskoðunum, að ég er farinn að spyrja mig: Hvar er ég eiginlega staddur í flokki?

Í framhaldi af þessu vil ég leyfa mér að lesa bréf sem borist hefur frá Kaupmannasamtökunum og dags. er 3. maí, en það er svo hljóðandi og stílað til hv. alþm. Halldórs Ásgrímssonar, formanns fjh.- og viðskn. Ed. Alþ. Bréfið lá að sjálfsögðu ekki fyrir þegar þetta frv. var rætt á fundi n. í gær, en það hljóðar svo:

„Vegna frv. um tekju- og eignarskatt sem nú liggur fyrir Alþ., harma Kaupmannasamtök Íslands það, að ekki skuli hafa verið leitað álits þeirra á efni frv. Sem umbjóðendur um 700 smásölufyrirtækja um land allt telja Kaupmannasamtök Íslands það skyldu alþm. og eðlileg vinnubrögð þingsins, að haft sé samráð við þau um málefni sem koma til með að hafa mikil áhrif á starfsemi fyrirtækja og einstaklinga í landinu.

Að gefnu þessu tilefni vilja Kaupmannasamtök Íslands mótmæla harðlega þeim ákvæðum 7. gr. áðurnefnds frv., þar sem eru sérstök ákvæði um það, að allir þeir, sem stunda eigin atvinnurekstur, séu skuldbundnir til þess að telja sér til tekna ákveðna fjárhæð, burtséð frá því hvort þeir hafi fengið hana greidda eða hvort fyrirtæki þeirra hafi getað innt af hendi slíka greiðslu. Það verður að telja mjög óeðlilegt og mismunum þjóðfélagsþegna, að ekki nægi að byggja álagningu skatta á framtölum þessara manna jafnt sem annarra. Jafnframt skal bent á, að með slíkum ákvæðum eru einstökum embættismönnum ríkisins fengin í hendur mikil völd sem auðvelt er að misnota.“

Undir þetta skrifar framkvæmdastjóri Kaupmannasamtaka Íslands og afrit sent hæstv. fjmrh.

Ég vil taka undir þessi orð og er hissa á því, að hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. skyldi ekki lesa þetta bréf upp í framsöguræðu sinni.

Þá vil ég einnig gera aths. við þann kafla sem gerir sparifé og vexti af því framtalsskylt. Það hefur ekki verið framtalsskylt hingað til. Og með leyfi forseta ætla ég fyrst að fá að lesa upp úr drögum að aths. og álitsgerð frá Sambandi ísl. viðskiptabanka. Þau eru að vísu dags. 8.3. 1977, en eiga við um þetta atriði. Þar er í II. kafla vitnað í ummæli fjmrh. um þetta efni 1953,en þar segir svo:

„Lausafé er af skornum skammti, sparnaður hin síðari ár vanrækt dyggð, enda hefur sú dyggð um skeið ekki verið virt sem skyldi, eyðslu þar af leiðandi oft ekki stillt í hóf eins og hægt væri. Sparifé hefur verið skattlagt fullu verði, en aðrar eignir ýmiss konar skattlagðar samkv. lágu mati og með því mati framið ranglæti, ekki síst þegar tekið er tillit til þess, að peningar hafa fallið í verði.“ Hann segir svo:

„Ég minnti á, hversu erfitt væri að afla fjár til þeirra framkvæmda, sem þjóðin vildi hafa og teldi nauðsynlegt að væri komið áleiðis .... Það er ekki hægt að nota sama féð til venjulegrar eyðslu og einnig til framkvæmda. Það yrði þess vegna að auka sparnaðinn, ef draumur manna um miklar framkvæmdir á næstu árum ættu að rætast . . . .

Margir skynsamir menn halda því fram, að það sé mjög stórt atriði til þess að örva sparnaðinn að menn þurfi ekki að telja fram innstæður, og muni notast miklu betur af skattfrelsisákvæðinu til þess að örva sparnaðinn með því að hafa þetta ákvæði í lögunum. Þess vegna hefur verið horfið að þessu ráði og skrefið stigið alveg hiklaust og heilt. Það hefur verið mjög gaumgæfilega athugað, hvort í þessu muni vera fólgin hætta fyrir framkvæmd skattalaganna .... Sú athugun hefur leitt til þess, að menn setja.þetta ekki fyrir sig og telja, að það muni ekki vera nein veruleg hætta á þessu . . . . Hér er spariféð gert skattfrjálst beinlínis til þess að gera aðgengilegra fyrir menn að leggja fyrir peninga . . . Það hefur hallað stórkostlega á sparifjáreigendur undanfarið, og þó að við vonum, að það þurfi ekki að halla á þá eins í framtíðinni þá held ég, að engum þurfi að bera kvíðaboga fyrir því, að það verði of vel að þeim búið. Svo þýðingarmikið er, að menn gerist til þess að leggja fyrir fé, einmitt eins og hér horfir um framkvæmdaáhuga og fjárskort.“

Hér lýkur tilvitnun í ráðh. En því las ég þessa tilvitnun í ræðu fjmrh. frá 1953, að vitnað er í hana í annarri tilvitnun hér, sem er álit Sambands ísl. viðskiptabanka um þetta atriði. En þar segir í formála að álitinu:

„Afleiðingar og áhrif framangreindra breytinga, sem allar miða að því að skerða rétt sparifjáreigenda frá því sem nú er, verða ekki séðar fyrir með fullri vissu. Hins vegar má fullyrða með hliðsjón af erfiðleikum sparifjármyndunar undanfarinna ára og síversnandi kjörum þeirra, sem lána viðskiptabönkunum sparifé sitt, vegna verðbólgu og rangsnúinnar efnahagsþróunar, að fyrirhugaðar breytingar koma til með að auka verulega þann vanda sem fyrir er. Fjármagn viðskiptabankanna til útlána mundi verða minna en orðið er, og má það þó ekki við meiri minnkun að mati bestu manna.“

Þetta er formáli að álitinu. Ég held áfram með álit stjórnarsambands íslenskra viðskiptabanka, en þar segir: „Stjórn sambands ísl. viðskiptabanka vill hér með gera áður tilfærð orð grg. og fjmrh. frá 1953 að sínum, sbr. II. kafla hér að framan, sem æskilegar meginforsendur og markmið ákvæða skattalaga um framtalsskyldu og skattfrelsi sparifjár. Framangreind rök frá árinu 1953 eiga ekki síður við í dag en þá. Þess vegna er engin haldbær ástæða til að skrefið, sem stigið var 1953 alveg hiklaust og heilt, verði stigið til baka. Með breytingum þeim, sem frv. ráðgerir á framangreindum ákvæðum skattalaga, er að mati viðskiptabankanna verið að rykkja ótraustum stoðum undan veikburða viðleitni almennings og fyrirtækja til sparnaðar og þar með grundvellinum undan sparifjármyndun í landinu. Þær stefna því í öfuga átt við æskilegar og nauðsynlegar breytingar á löggjöf, sem tryggt gætu betur en nú er og verið hefur raunhæfan árangur af þeim réttu og þjóðhagslega brýnu forsendum og stefnumiðum gildandi ákvæða skattalaga sem áður greinir. Stjórn Sambands ísl. viðskiptabanka varar mjög eindregið við fyrirsjáanlegum neikvæðum og mjög varhugaverðum áhrifum fyrirhugaðra breytinga á ákvæðum gildandi skattalaga um framtalsskyldu og skattfrelsi sparifjár.“

Með þessum ráðstöfunum, aðför að sparifé almennings með framtalsskyldu, eða hvernig menn vilja orða það, álít ég vera höggvið að rótum þess trúnaðartrausts sem ríkir milli einstaklingsins og bankans. Álít ég þá að sé farið að fenna í flest spor, allt að því að einstaklingurinn sé kominn í spennutreyju.

Ég vil þá leyfa mér að benda á eitt andstyggilegt atriði í þessu skattafrv., sem er jafnandstyggilegt þó að það sé líka í þeim lögum sem eru í gildi. En á 29. bls. í 94. gr. segir um upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir:

„Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té.“ — Ég bið hv. þdm. að taka vel eftir næstu grein: „Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila, sem beiðninni er beint til, eða aðra aðila sem hann getur veitt upplýsingar um.“ Á bls. 30 er þessu fylgt eftir á enn dramatískari hátt og þetta — verð ég að segja — er mjög mikið á móti mínum lífsskoðunum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara nánar út í hverja grein fyrir sig. Ég hafði hugsað mér að flytja brtt., en hætti við það af þeirri einföldu ástæðu að ég er í nákvæmlega sömu aðstöðu og þeir hv. þm. sem tilheyra minni hl. hér á Alþ. Þeir geta lagt í það vinnu að semja grg. og till., en það er fyrir fram vitað um afdrif þeirra. Ég féll því frá því og lét nægja að gera munnlega grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ég hefði líklega ekki gert það heldur, hefði ekki staðið í nál. meiri hl. að ég mundi leggja fram einhvers konar álit.

Ég sat nokkra fundi um þetta skattalagafrv., bæði með embættismönnum og á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. beggja hv. þd. Það, sem mér fannst helst skorta á í vinnubrögðum, var sú grundvallarstefna, sem unnið var eftir, eða þær forsendur, sem þetta skattalagafrv. er byggt á, en þær eru eflaust ekki aðrar en kannske hefur verið byggt á alla tíð. Ég hef áður látið það koma fram, eins og segir í lögum um álagningu fyrirtækja, að álagning skuli miðast við, að hún dugi vel reknu fyrirtæki. Ég sé enga ástæðu til þess, að þetta sjónarmið ríki ekki líka við gerð fjárl. Ég hefði viljað taka þátt í og er ávallt reiðubúin til að taka þátt í því að gera úttekt á ríkisbúskapnum og leggja síðan á skatta sem yrðu miðaðir við að skilja sem mest afráðstöfunartekjum fólksins eftir hjá fólkinu, en ekki að leggja miskunnarlaust á skatta til þess að standa undir því sem við erum allir sammála um að er orðið of þungt í vöfum og kostnaðarsamt.

Af því, sem ég hef hér sagt, held ég að engum dyljist lengur, að ég tel mig ekki geta staðið að samþykkt þessa skattalagafrv. Það gerir ekki ráð fyrir samdrætti eða endurskoðun á útgerð ríkisbáknsins, heldur gerir það ráð fyrir að ná af fólki því sem þarf til rekstrar að óbreyttum rekstri, að ríkið geti haldið ótrautt áfram á þeirri braut, — við skulum viðurkenna að það er ekki sérstaklega þessari ríkisstj. að kenna, heldur fyrri ríkisstj. líka — á þeirri braut sem hefur leitt til hinnar miklu verðbólguóvissu, sem þjóðin býr við í efnahagsmálum. Ég tel að það þurfi að breyta hugargangi þeirra, sem ráða ferðinni við gerð skattalaga, enda kom það ljóst fram í framsöguræðu hv. talsmanns meiri hl. fjh.- og viðskn. að nota þyrfti tímann vel, frá því að þetta frv. verður samþ. á þessu þingi þangað til lögin taka gildi, til þess að gera á því ýmsar endurbætur. Ég túlka það á þann hátt, að í hans augum hljóta að vera augljósir gallar á frv. Að öðrum kosti væri hann ekki að tala um að endurbætur þurfi að gera á frv. sem ekki er samþ. enn þá.

Þetta er í stórum dráttum það sem ég vil segja, vegna þess að það kom fram hjá meiri hl. fjh.- og viðskn., í áliti hans, að ég mundi gera grein fyrir afstöðu minni.