03.05.1978
Neðri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4439 í B-deild Alþingistíðinda. (3784)

209. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. geymir veigamiklar breytingar á meðferð einkamála. Það má segja, að frv. sé fyrst og fremst fylgifiskur með lögréttufrv. og eigi að gilda um málsmeðferð þar, en jafnframt hefur því þó verið, eða var nú s. l. sumar breytt á þann veg af réttarfarsnefndinni, sem hefur samið þessi frv., að það er ekki í svo föstum tengslum við lögréttufrv. að það má, ef menn vilja, samþ. þetta frv. út af fyrir sig, þó að lögréttufrv. væri látið bíða.

Ég fer ekki út í það að rekja einstök ákvæði þessa frv., en þau miða fyrst og fremst að því að flýta málsmeðferð og að mál séu rekin, ef svo má segja, í meiri samfellu en verið hefur, málið sé tekið fyrir og það sé haldið áfram með það þar til því er lokið. Það hefur nú ugglaust verið ætlunin með einkamálalögunum upphaflega, að svo væri á haldið, en framkvæmdin hefur orðið önnur og þess vegna hefur viljað brenna við að einkamál hafa oft dregist óhóflega á langinn.

Ég leyfi mér líka að vísa til þeirra skýringa sem með frv. fylgja. Það var afgreitt shlj. í hv. Ed., aðeins gerð á því ein örlítil breyting.

Ég leyfi mér að óska eftir því, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn., og ef svo færi að frv. þessi kæmu aftur á dagskrá hér í d., þá áskil ég mér rétt til þess að ræða nánar um þau við 2. umr. málsins.