03.05.1978
Neðri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4440 í B-deild Alþingistíðinda. (3790)

306. mál, heyrnleysingjaskóli

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er komið frá Ed. þar sem það var samþ. óbreytt eins og það var lagt þar fram. Það er um breyt. á lögum um Heyrnleysingjaskóla og er um það, að við Heyrnleysingjaskólann skuli starfa framhaldsdeild sem hafi það hlutverk að veita nemendum undirbúning og aðstoð til að afla sér menntunar og þjálfunar í ýmsum starfsgreinum og réttindi til sérnáms í framhaldsskólum.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Það er mjög einfalt að gerð. Heyrnleysingjaskólinn er grunnskóli og hefur starfað sem slíkur. Að vísu er það svo í grunnskólalögunum, að heimilt er að seilast nokkru lengra fram eftir aldri að kennslu þeirra, sem eru þroskaheftir á einhvern hátt, í þessu tilfelli heyrnskertir. Skólinn hefur veitt aðstoð einnig fyrir skólaskyldualdur, bæði með leiðbeiningarstarfi fyrir foreldra og að einhverju leyti hjálp og meðferð heyrnskertra eða þjálfun heyrnskertra. Einnig hefur skólinn seilst nokkuð fram yfir skólaskyldualdurinn og það hefur verið reynt að veita heyrnskertum hjálp til þess að komast inn í aðra skóla og til þess að komast út á vinnustaðina. En það hefur í raun og veru vantað lagaákvæði til þess að hægt væri að framkvæma þetta með eðlilegum hætti. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að setja slíkt ákvæði inn í lögin.

Ég vil leggja áherslu á að þarna yrði alls ekki eingöngu um að ræða kennslu í skólanum sjálfum á framhaldsskólastiginu, heldur jafnframt og ekki síður aðstoð við hina heyrnskertu til þess að nema við aðra skóla, og þarna yrði um mjög náið samstarf að ræða með Heyrnleysingjaskólanum og ýmsum skólum á framhaldsstigi og svo við vinnustaði.

Ég held að það fari ekki á milli mála, að það er ómetanleg og ákaflega brýn nauðsyn að fylgja fram þeim árangri sem næst við meðferð heyrnskertra á venjulegum skólaskyldualdri og þeim missirum sem gert er nú ráð fyrir í lögum að vinna með þeim þar fram yfir, fylgja þessu eftir þannig að það nýtist sem búið er að kenna og viðbótarhjálp sé veitt þannig að fólkið verði sjálfbjarga. Þarna er bæði um að ræða mannhjálp og fjárhagslegan ávinning fyrir þjóðfélagið.

Ég vil vekja athygli á því sérstaklega, að Heyrnleysingjaskólinn er vel búinn skóli. Hann er nægilega stór og getur þess vegna annað sínu hlutverki þó að sveiflur verði, sem eru einmitt tíðar varðandi þetta svið. Og skólinn hefur verið og er mjög vel rekinn. Hann hefur notið mikilshæfs stjórnanda, þar sem er Brandur Jónsson skólastjóri, sem hefur gegnt þar skólastjórastarfi lengi, og hann hefur haft ágætt starfslið. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt. Ég vek athygli á þessu til þess að árétta það, að þarna væri, ef þetta frv. verður að lögum, byggt á mjög traustum grunni.

Nú er þetta frv. að vísu mjög seint fram komið. Hv. Ed. hefur þó séð sér fært að afgreiða það. Ég vil því beina því til hv. dm. í þessari d. og svo í menntmn. sérstaklega, að þeir íhugi möguleika á því að afgreiða þetta mál einnig hér þannig að frv. megi verða að lögum.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta, virðulegi forseti, en legg til að málinu verði að lokinn umr. vísað til menntmn.