05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4446 í B-deild Alþingistíðinda. (3799)

296. mál, notkun raforku í atvinnufyrirtækjum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þessa þáltill. Ég vil taka fram, að á s. l. vetri og enn þá hafa staðið yfir viðræður og samstarf um að koma málum bæði heykögglaverksmiðja og súgþurrkun hjá bændum betur fyrir um verðlag og annað er varðar sölu á raforku. Í sambandi við heykögglaverksmiðjurnar hefur Jónas Elíasson prófessor tekið að sér athugun á málinu og þá með tilliti til þess að breyta út frá því sem nú er um olíunotkun í sambandi við þurrkun á heyi því sem fer í gegnum verksmiðjurnar. Þetta gæti þýtt það, að auðvelt væri að koma þarna upp spennistöð og hægt væri að eiga bein viðskipti við Landsvirkjun um þessi mál, en ég hef einnig rætt við formann hennar í sambandi við þennan þátt í sölu raforkunnar. — Þetta vildi ég upplýsa í sambandi við till, sem hér er nú til umr.