05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4446 í B-deild Alþingistíðinda. (3800)

296. mál, notkun raforku í atvinnufyrirtækjum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil verða við beiðni hv. 2. þm. Austurl. og svara fsp. hans. Hann spurði fyrst hvort ríkisstj. hefði breytt fyrri ákvörðun sinni um húsahitunartaxta Rafmagnsveitna ríkisins.

Því er til að svara, að eins og hv. alþm. er kunnugt var leyfð hækkun á húsahitunartaxta Rafmagnsveitna ríkisins af hálfu ríkisstj, á þeim forsendum, að húsahitun með rafmagni yrði ekki dýrari en með olíu. Í ljós kom að hækkunarbeiðnin hafði ekki tekið tillit til þess, að olíunotkun er niðurgreidd, og ríkisstj. taldi þess vegna rétt að leggja fyrir Rafmagnsveitur ríkisins að hvergi væru húsahitunartaxtar hærri en svo, að útgjöld vegna kyndingarkostnaðar með rafmagni yrðu ekki hærri en með olíu, og veit ég ekki betur en það hafi verið gert.

Þá spyr hv. þm, hvort ríkisstj, hafi gert ráðstafanir til að leysa úr fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins og hvaða ráðstafanir hún hafi gert.

Um það er ekkert meira að segja en hér hefur verið sagt frá á hv. Alþingi. N. starfar að þessum málum, auk þess sem nýskipuð stjórn Rafmagnsveitna ríkisins mun að þeim vinna. Verður fjallað um lausn fjárhagsvandans í samræmi við tillögur þessara aðila.

Þá spyr hv. þm. um það, hvort ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um byggingarframkvæmdir við Bessastaðaárvirkjun.

Ég tek þessa fsp. svo, að hér sé verið að spyrja um hvort tekin hafi verið ákvörðun um tímasetningu framkvæmda, og því er til að svara, að það hefur ekki verið gert. Hins vegar hefur það komið hér fram í umr. á Alþ., að í lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir um 53 millj. kr. útgjöldum til hönnunar þessara mannvirkja, en til þess að ljúka hönnun þessarar framkvæmdar mun þurfa um 110 millj. kr. Ég hef lýst því yfir hér á Alþ., að kapp mun verða á það lagt að útvega þá fjármuni þannig að fullnaðarhönnun sé fyrir hendi hvað þessi mannvirki snertir. Og þá hefur mér skilist að ákvörðun um hvenær hefja skuli byggingarframkvæmdir, ef þær ættu að hefjast t. d. á næsta ári, þyrfti að taka einhvern tíma fyrir haustið eða í haust. Ég held að það muni vera samdóma álit hv. alþm., að það sé einmitt æskilegt, að hönnun sé lokið áður en endanlega er afráðið hvenær í framkvæmdirnar skuli ráðist.