05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4447 í B-deild Alþingistíðinda. (3801)

296. mál, notkun raforku í atvinnufyrirtækjum

Tómas Árnason:

Herra forseti. Hér er hreyft við mjög athyglisverðu máli sem vissulega væri ástæða til að ræða, en til þess er ekki tóm eins og sakir standa. En ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju minni með þá yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf hér um Bessastaðaárvirkjun, þar sem hann lýsti því yfir, að það væri lagt á það kapp að ljúka hönnun virkjunarinnar og undirbúa útboð. Og ég vil enn fremur vísa til þess og lýsa ánægju yfir því, að sama skoðun hefur komið fram í fjölmiðlum frá hæstv. iðnrh. Vísir segir um þetta miðvikudaginn 3. maí, þar sem hann segir frá svörum hæstv. iðnrh. við spurningum sem voru lagðar fyrir hann þar sem hann sat fyrir svörum í síma hjá dagblaðinu Vísi, — hann segir svo hljóðandi:

„Það, sem nú er fram undan varðandi Bessastaðaárvirkjun, er að ljúka rannsóknum, gera fullnaðarhönnun og undirbúa allt til útboðs. Að því verður unnið í sumar og ætti þetta allt að vera tilbúið á þessu ári.“

Ég vil aðeins lýsa yfir ánægju minni yfir því, að það er fullur og eðlilegur gangur á þessu máli og væntanlega að því stefnt, að fyrri áfangi þessarar virkjunar geti tekið til starfa í árslok 1982.