05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4447 í B-deild Alþingistíðinda. (3802)

296. mál, notkun raforku í atvinnufyrirtækjum

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans, þau voru að mínum dómi alveg skýr og ótvíræð. Varðandi fyrstu spurninguna um breytingu á húsahitunartöxtum er svarið að mínum dómi alveg skýrt. Ákvörðun ríkisstj. stendur með þessa hækkun á töxtunum að því einu tilskildu, að raforkusala á þennan hátt verði ekki dýrari en húsahitun með olíunotkun er. Sem sagt, það á að lyfta þessu orkuverði upp í það að vera jafnóhagkvæmt og það óhagkvæmasta sem menn búa við nú í dag. Það er alveg ljóst.

Í öðru lagi var svo svar forsrh. um það sem sneri að fjárhagsvandamálum Rafmagnsveitna ríkisins, að í því máli hefði ekkert gerst, nefnd væri í málinu. Það er mjög algengt, þegar menn gera ekkert, að setja málið í n. En sem sagt, þar hefur ekkert gerst.

Varðandi ákvarðanir um það að ráðast í Bessastaðaárvirkjun, þá var svarið þar líka á sömu lund. Þar kom í rauninni ekki neitt nýtt fram annað en staðfesta það, sem áður hafði komið fram, nema þá það eitt, að hv. 4. þm. Austurl., Tómas Arnason, er ánægður með þessa stöðu, hann er ánægður með það, að við fáum ekkert svar. En þetta svar, sem okkur er gefið nú, að halda eigi áfram að fullljúka hönnun og undirbúa undir útboð, lá fyrir fyrir löngu. Því lýsti hæstv. iðnrh, yfir á Alþ. fyrir löngu, að hann mundi sjá til þess, að það yrði lokið við þetta verk. Það var hitt atriðið, sem lá fyrir, að það var búið að vinna að hönnun þessa mannvirkis lengra áleiðis en almennt er gert þegar komið er að því að taka ákvörðun um hvort ráðast skuli í mannvirkið eða ekki. Það lágu því fyrir, eins og skýrlega kom fram hjá bæði forstöðumanni Rafmagnsveitna ríkisins og þeirri stofnun, sem hafði verið sett sérstaklega til þess að athuga málið, að það var komið á það stig, að það var engin ástæða til þess að bíða með það einum degi lengur, hvort ætti að ráðast í þetta mannvirki eða ekki. En svarið er skýrt, engin ákvörðun tekin, hún getur orðið tekin á næsta hausti. Þá á að taka afstöðu til málsins, þá hafa menn þó a. m. k. sloppið fram yfir kosningar.

Ég sem sagt lýsi undrun minni yfir þessu og óánægju og veit að þar tala ég fyrir munn Austfirðinga almennt. Þeir eru ekki ánægðir með að fá þessa afgreiðslu mála, þó að það kunni að finnast einhverjir í þeirra hópi sem geti þakkað ríkisstj. fyrir þetta og lýst yfir ánægju sinni, þá hygg ég að það verði lítið um ánægju á Austurlandi í sambandi við þetta mál.

Um svörin hef ég svo ekkert frekar að segja. Þau eru að mínum dómi ljós. Málið liggur alveg ljóst fyrir varðandi öll þessi atriði og þá það um leið varðandi þá till. sem hér er til umr., að raunverulega er ástandið í þessum málum varðandi raforkusöluna víðast hvar á landinu og varðandi raforkuframleiðslu og verð á raforku þannig, að það er í sjálfu sér tómt mál að tala um einhverja meiri háttar rannsókn í þá átt að ætla að selja þar meiri raforku. Í rauninni er sú stefna ríkisstj. miklu nær hinu sanna, sem kom fram í ákvörðun hennar varðandi það að hækka húsahitunartaxtana upp í það að hafa þá svo háa að menn hlutu að hætta við að nota rafmagnið. Það er miklu meira samræmi við ástandið í raforkumálum að reyna að koma þessum málum þannig, að menn hætti þessari vitleysu: að vera að nota þessa innlendu orku, og haldi sér í lengstu lög við það að nota olíuna, því að þannig eru taxtarnir eins og þeir eru settir upp og þannig líta þessi mál út í þeim orkuskorti, sem víðast er, og því öngþveiti, sem er ríkjandi í þessum málum.