05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4448 í B-deild Alþingistíðinda. (3803)

296. mál, notkun raforku í atvinnufyrirtækjum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég verð nú að lýsa undrun minni á því, að hv. 2. þm. Austurl. snýr út úr svari mínu og segir að það hafi borið vitni, að engin breyting hafi orðið varðandi fyrri ákvarðanir um rafmagnshitunartaxta. Ég lét það skýrt koma í ljós, að fyrsta ákvörðun ríkisstj, eða heimild hennar til handa Rafmagnsveitum ríkisins að hækka rafmagnshitunartaxta hefði verið byggð á því, að þeir yrðu ekki hærri en olíukyndingarkostnaður. Þegar fram kom, að svo mundi verða ef hækkunin hefði náð fram að ganga, sem var, að því er mig minnir, um 25% hækkun taxtanna, þá gekk ríkisstj. í það að hækkunin yrði innan þessara marka sem olíukyndingarkostnaður setti, og án þess að ég hafi gögnin við höndina, þá tel ég að hækkunin verði innan þess ramma, um 12% í stað 25%. Er þá í þessu efni byggt á útreikningi fjögurra sérfræðinga, sem fengnir voru sérstaklega til þess að tryggja það, að þessir taxtar yrðu ekki hærri en olíukyndingarkostnaður gæfi tilefni til, hvort heldur væri um niðurgreidda eða óniðurgreidda olíu að ræða.

Varðandi málið að öðru leyti skal ég ekki lengja umr., heldur aðeins láta í ljós þá skoðun, að það er ekki sama hvernig innlendir orkugjafar eru nýttir. Það er ekki sama hvernig hús eru tengd við rafmagnskerfi landsins til þess að nýta innlenda orkugjafa til hitunar húsa. Og það er einmitt vegna þess að ekki hefur verið valin rétt leið eða rétt stefna tekin að þessu leyti sem fjárhagsvandi Rafmagnsveitna ríkisins er til kominn.