05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4448 í B-deild Alþingistíðinda. (3804)

296. mál, notkun raforku í atvinnufyrirtækjum

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins mótmæla því, að ég hafi snúið út úr orðum hæstv. forsrh. á nokkurn hátt. Ég tók það alveg skýrt fram, að breytingin væri sú ein að binda þetta við að þessi hækkun á rafmagnstöxtunum færi ekki yfir það að vera jafnóhagkvæm og er nú óhagkvæmast þekkt, þ. e. a. s. með olíukyndingu. Þetta tók ég fram, og var þetta sem hann sagði. Ég notaði hins vegar mín orð, og þau skiljast e. t. v. aðeins betur en orð hans. Annað er það ekki. Ég sagði hér ekkert annað en það sem hann hafði sagt.

En ég vil svo um leið einnig mótmæla því, og það er satt að segja mjög alvarlegt ef forsrh. landsins gengur í slíkri villu eins og virðist koma fram í orðum hans nú og reyndar hefur komið fram áður hjá honum, að halda að fjárhagsvandi Rafmagnsveitna ríkisins stafi af húshitunartöxtum eða stafi af því, hvernig hús séu hituð upp nú með raforku. Það er meiri háttar villa að halda að vandi Rafmagnsveitnanna stafi af þessu. Auðvitað hefur ekki verið neinn ágreiningur um það, að hægt er að hita upp hús eftir fleiri leiðum en eftir beinni hitun, ofnahitun, eins og algengast hefur verið. En til þess að þar verði á einhver breyting þurfa auðvitað að koma upp nýir taxtar. Menn verða vitanlega að fá einhverjar upplýsingar um það, á hvaða verði eigi að selja raforkuna, ef taka á upp annan hátt, svo að hér er vitanlega ekki því til að dreifa. En eftir stendur sem sagt hitt, að þessi þáttur raforkusölunnar er miðaður við það af hálfu ríkisstj. að vera jafnóhagkvæmur og það óhagkvæmasta sem fyrir er, þ. e. a. s. olíunotkunin, sem þýðir auðvitað í reynd að menn halda sig áfram við það að nota olíuna, því að hví skyldu þeir vera að breyta til ef þeir eiga að fara yfir í það sem er jafnóhagkvæmt? Til þess eru auðvitað engar líkur.