05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4454 í B-deild Alþingistíðinda. (3818)

201. mál, framhald Inndjúpsáætlunar

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur fjallað um þessa till. og mælir með samþykkt hennar með nokkrum breytingum sem fram koma í sérstöku nál. á þskj. 848.

Inndjúpsáætlun hófst árið 1974 og lýkur árið 1978. Inndjúpsáætlun hefur notið sérstakrar lánafyrirgreiðslu úr Byggðasjóði og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Með Inndjúpsáætlun hefur orðið mikið ágengt í Inndjúpi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þar eru búskaparhættir allt aðrir en þeir voru áður. Það má segja að þar hafi orðið bylting fyrir áhrif Inndjúpsáætlunar. Mér þykir ástæða til þess að geta þess hér, því að þess misskilnings gætir æði oft, að Inndjúpsáætlun haft farið svo úr skorðum að jafnvel lítið gagn hafi orðið að henni. Það er rétt, að ýmis mistök hafa orðið við framkvæmd Inndjúpsáætlunar. Þau mistök eru stjórnunarlegs eðlis, og ég hygg að það sé fyrst og fremst um mistök að ræða sem megi rekja til byrjunarerfiðleika. Þetta er fyrsta landbúnaðaráætlunin, sem hrundið er í framkvæmd. Af framkvæmd hennar hefur mikið lærst, og hygg ég að það sé þegar komið fram t. d. í framkvæmd landbúnaðaráætlunar í Árneshreppi á Ströndum. En staðreyndin er sú sem ég gat um áðan, að Inndjúpsáætlunin hefur valdið gerbreytingu í búskaparháttum í Inndjúpi og stöðvað þann flótta sem þaðan var. Nýir bændur hafa tekið sér þar búsetu. Er það eitt merki um áhrif Inndjúpsáætlunar.

Sumir þættir Inndjúpsáætlunar eru hins vegar orðnir nokkuð á eftir og verður ekki við þá lokið á því 5 ára tímabili sem ráð var fyrir gert. Með till, er stefnt að því að fá þeim þáttum haldið áfram með sömu lánafyrirgreiðslu og veitt hefur verið til þessa.

Atvmn. gafst ekki tækifæri til að senda till. út til umsagnar, en hún aflaði sér vitneskju um viðhorf þeirra aðila sem að málinu koma og að því athuguðu mælir n. með að lánum í svipuðu formi og verið hefur verði haldið áfram til ræktunar í Inndjúpi, en leggur hins vegar gegn því, að síðari mgr. verði samþ., þ. e. a. s. að haldið verði áfram sams konar lánafyrirgreiðslu til byggingarframkvæmda á áætlunarsvæðinu. Stafar þetta af því, að byggingarframkvæmdum hefur miðað vel og má heita nokkurn veginn lokið í samræmi við áætlunina, en ræktunarframkvæmdir hafa hins vegar tafist allverulega.

Einnig leggur n. til, eins og fram kemur í nál., að við mgr. verði bætt setningunni: „enda verði unnið samkv. endurnýjaðri áætlun.“ Þessi orð vísa til þess, að Byggðasjóður hefur með stjórnarsamþykkt ákveðið að sú fyrirgreiðsla, sem hann veitir við slíkar framkvæmdir í sveitum, skuli vera háð því, að þær séu framkvæmdar samkv. áætlun. Þarna er því lögð áhersla á að áætlunin verði endurskoðuð með tilliti til þeirra þátta, sem ekki hefur verið lokið við, og þá unnið samkv. framlengdri eða endurnýjaðri áætlun.

Með þessum breytingum, sem ég hef nú lýst, leggur n. til að till. verði samþ.