05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4458 í B-deild Alþingistíðinda. (3824)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af skrifum sem orðið hafa vegna umr. hér á Alþ. um störf stjskrn. svokallaðrar.

Það hefur komið fram, eins og hv. 5. þm. Vestf. benti hér á, sérstaklega þó í blöðum, að í þessum umr. hafi falist mjög hörð gagnrýni á formann stjskrn., Hannibal Valdimarsson. Þetta er ákaflega rangt. Ég vil eindregið mótmæla þessu. Ef slíkar fullyrðingar hafa verið hafðar í frammi gagnvart formanni stjskrn. Hannibal Valdimarssyni, þá er það ákaflega ósanngjarnt í hans garð, því að ég held að það sé hægt að kenna Hannibal Valdimarssyni ýmislegt annað en það, að hann hafi ekki verið nægilega röskur.

En staðreyndin er sú, sem hefur komið fram hjá Hannibal og raunar fleirum og alþm. vita, það þýðir ekkert að reyna að hlaupa á bak við þá staðreynd, að breytingar á kjördæmaskipan og kosningalögum og öðrum slíkum atriðum hafa aldrei verið gerðar nema stjórnmálaflokkarnir allir eða einhverjir, a. m. k. þá þeir sem talsverðan meiri hl. hafa haft á Alþ., hafi náð um það samkomulagi. Hannibal Valdimarsson lýsti því yfir bæði í útvarpsviðtali og blaðagrein fyrir talsverðu, að hann liti svo á, að hlutverk stjskrn. hvað þessi atriði varðar væri að safna upplýsingum og hugmyndum. Hins vegar treysti hann sér ekki til þess að stjskrn. afgreiddi frá sér endanlega tillögugerð varðandi kjördæmaskipan og fjölda þm. hvers kjördæmis öðruvísi heldur en flokkarnir hefðu áður komið sér saman þar um. Það er skýringin á því, hvers vegna svo seint hefur gengið með störf stjskrn. Það hefur verið beðið eftir því að flokkarnir kæmu sér saman um þá tilhögun sem eðlilegt væri að taka upp ef breyta ætti ákvæðum stjórnarskrár um kjördæmaskipan og fjölda þm. Hvers vegna það hefur ekki verið gert, svarið við því er einfaldlega það, að flokkarnir hafa ekki verið reiðubúnir til þess að ganga til slíks verks.

Það er ekki vandalaust að gera þær breytingar sem rætt hefur verið um að gera þurfi. Reynslan sýnir okkur að það hefur ávallt tekið talsverðan tíma og þurft talsvert mikið til að þær breytingar yrðu gerðar. Flokkarnir hafa verið að safna að sér gögnum alveg eins og stjskrn. Innan flokkanna eru ýmsar hugmyndir og tillögur sem ræddar hafa verið. Það hefur einfaldlega ekki verið tímabært hjá flokkunum að taka neina flokkslega afstöðu enn þá til þeirra hugmynda sem fram hafa komið, og það er skýringin á því, hvernig á því stendur, að stjórnarskrárnefnd hefur ekki skilað till. Ég tel það ákaflega lítilmannlegt af flokkanna hálfu að ætla að afsaka þennan seinagang með því að skjóta sér á bak við formann stjskrn. sem hefur ekki aðstöðu, a. m. k. ekki hér innan þingsala, til þess að svara fyrir sig og skýra viðhorf sín.

Ég er sammála því, að flokkarnir reyni nú að koma sér saman um ákveðna lausn á þessum málum, eins og till. sú, sem lögð hefur verið hér fram, gerir ráð fyrir. En ég vil eindregið lýsa þeirri skoðun minni og væntanlega fleiri þm., að þó að sú till. verði samþykkt, þá felist alls ekki í þeirri samþykkt nein slík gagnrýni á formann stjskrn., Hannibal Valdimarsson, sem sumir virðast vilja láta í veðri vaka, heldur sé þingið þar að taka undir þá skoðun, sem Hannibal Valdimarsson hefur sjálfur lýst, að þessum málum verði ekki ráðið til lykta, þ. e. a. s. endurskoðun á kosningalögum og kjördæmaskipan, nema í samkomulagi milli flokkanna og flokkarnir hafi að þeirri till. samþykktri, sem hér verður borin upp, komið sér saman um það að ganga til samstarfs um slíka lausn.