05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4459 í B-deild Alþingistíðinda. (3826)

180. mál, atvinnuleg og félagsleg afstaða byggðarlaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Till. mín á þskj. 347 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að Framkvæmdastofnun ríkisins kanni atvinnustöðu svo og félagslega aðstöðu íbúa byggðarlaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar og geri næsta Alþ. grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar.“

Ástæðan til þess, að ég flyt þessa till, er sú, að svo sem öllum er kunnugt hefur atvinnustaða þessara byggðarlaga í nágrenni Vallarins verið veik á undanförnum árum, einkum vegna samdráttar í afla og breytingu á afla. Um aldaraðir hafa Suðurnesjabúar að mestu lifað á því að fiska hrygningarfiskinn, þegar hann kemur upp að suðvesturströndinni, og aflað mestan hluta af sínu heildaraflamagni ársins á tiltölulega skömmum tíma yfir vetrarvertíðina. Nú hefur orðið á þessu mikil breyting á þann veg, að hrygningarstofninn hefur dregist saman, en aftur á móti hefur veiði jafnast mikið og dreifst á lengri tíma, og þótt aflamagnið haldist nokkurn veginn, þá hefur samsetning aflans orðið þeim erfiðari, verðminni, og þess vegna er nú svo komið að fjöldi þeirra fyrirtækja, sem stunda veiðar og vinnslu á Suðurnesjum, býr nú við bágan hag. Reyndar er þetta ekki einstakt um þennan landshluta, en mér finnst að öðruvísi hafi verið brugðist við þarna heldur en annars staðar á landinu, og telja ýmsir að nágrennið við Keflavíkurflugvöll geri það að verkum, að þeir séu betur settir atvinnulega og þurfi þess vegna ekki á þeirri aðstoð að halda sem öðrum landsbúum er nauðsynleg og hefur verið veitt í ríkum mæli. En hér er ekki nema hálfsögð sagan. Vitað er að sjávarútvegur er enn þá og hefur reyndar ætíð verið höfuðatvinnuvegur þeirra Suðurnesjabúa og flest fyrirtæki þar syðra eru á einn eða annan hátt bundin þessari atvinnugrein. Þegar þess vegna illa gengur þar, þá er það ekki eingöngu að þau fyrirtæki, sem stunda veiðar og vinnslu, líði við þetta ástand, heldur allur iðnaður sem tengdur er þessum atvinnuvegi, og er þar með sagt, að það séu í raun og veru flest iðnfyrirtæki á Suðurnesjum sem búi nú við bágan hag.

Svo sem vitað er verður 20% eða meira af öllu því verðmæti, sem frá sjávarútvegi kemur, til þarna á Suðurnesjunum,og þessi háa prósenttala hefur lengi verið svo. Þess vegna er ástæða til að líta vel til þessara staða, þar sem heildargjaldeyrisöflun er svo há prósentutala sem nú er, og það eru um eða yfir 40% af öllum Suðurnesjavinnukraftinum sem vinna beint eða óbeint við fiskveiðar og fiskvinnslu. Þarna suður frá hefur lengst af verið stöðugleiki í lifnaðarháttum og búmennsku. Þarna hafa búið öld eftir öld um 2000 manns, og það er í raun og veru fyrst um 1940 sem snögg umskipti verða á þann veg, að frá 1940 hefur íbúafjöldi þarna þrefaldast og er nú orðinn rúmlega 13000 manns. Á sama tíma aftur á móti hefur t. d. höfuðborgin rétt rúmlega tvöfaldað íbúafjölda sinn. Þetta byggist á því, að Keflavíkurflugvöllur hefur verið byggður upp og rekinn frá þeim tíma og þar vinna um 2000 manns og af þeim eru 70% búsettir á þessu svæði. Þar að auki má segja að nágrenninu við flugvöllinn fylgja ýmsir félagslegir örðugleikar, og mér finnst að það sé ástæða til að rannsaka það betur en gert þefur verið.

Því er ekki að leyna, að á undanförnum árum hafa vérið gerðar ýmsar athuganir á báðum þessum þáttum sem till. fjallar um, bæði stöðu sjávarútvegs og einnig félagslegri aðstöðu íbúanna þarna. T.d. létu Samtök sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi fyrir nokkrum árum gera nokkuð vandaða úttekt á fiskveiðum og fiskvinnslu á Reykjanesi, og enn fremur hefur félagsvísindastofnun Háskólans unnið nokkuð að því að kanna félagslega aðstöðu þarna. Þá eru og fleiri aðilar sem hafa unnið að könnun þarna. En þetta eru aðeins brot sem þörf er á að raða saman og enn fremur að athuga betur aðstöðuna og gera þá heildarúttekt sem mér finnst nauðsynlegt að verði gerð sem allra fyrst. Þess vegna hef ég hug á því að Framkvæmdastofnuninni með sinni þjálfun í slíkum úttektum verði falið þetta verkefni og verði gert fært að skila áliti sem allra fyrst.

Ég legg því til, herra forseti, að þessari till. verði að umr. lokinni vísað til allshn.