05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4461 í B-deild Alþingistíðinda. (3828)

180. mál, atvinnuleg og félagsleg afstaða byggðarlaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það er nú það langt komið á þetta þinghald, að það gefst ekki tækifæri til eða a. m. k. tel ég ekki eðlilegt að einstakir þm, séu að efna til mjög langra umr. um þau mál sem á eftir að ræða á þeim tveim starfsdögum þingsins sem eftir eru. En það mál, sem hér er verið að fjalla um, gæti gefið tilefni a. m. k. fyrir okkur þm. Reykn. til þess að tala nokkuð langt mál um efni þess. En ég skal ekki verða til þess nú vegna þess að tíminn er frá okkur hlaupinn. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs og vildi segja nokkur orð í sambandi við þessa umr., eru þau ummæli sem komu fram í ræðu hv.flm. og ég tek mjög undir. Hann sagði efnislega eitthvað á þá leið, að þegar ástand kemur upp eins og nú um sinn hefur verið á Suðurnesjum, þar sem fyrst og fremst vegna samdráttar í afla og ýmissa annarra hluta hefur skapast gífurlega erfitt ástand í sambandi við atvinnureksturinn, þá hefur venjulegast af hálfu þjóðfélagsins verið brugðið hraðar og betur við en staðreynd er þarna suður frá.

Ég vil skýra frá því hér, að við þm. Reykn. í öllum flokkum höfum árangurslítið barist við stofnanir í landinu sem eiga samkv. sínum reglum að stuðla að að bæta úr vandræðum, þar sem atvinnureksturinn lendir í slíkum vandræðum að leitt getur til atvinnuleysis og fólksflótta á svæðinu. Ég hygg að allir, sem til þekkja, viðurkenni þá staðreynd, að um sinn hefur ástandið á Suðurnesjum verið slíkt. Stórfelld minnkun á afla á því svæði segir að sjálfsögðu til sín, og þau eru mörg, fyrirtækin í útgerð, í fiskvinnslu og í ýmissi þjónustu, sem nú hafa lifað, et svo mætti segja, dag frá degi í fullkominni óvissu um hvort þau gætu haldið rekstri sínum áfram í næstu viku. Við þessar aðstæður höfum við þm. Reykn. reynt að komast í gegnum hið svokallaða kerfi til þess að knýja fram aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins sem gætu bætt að einhverju leyti úr þessu ástandi, eins og kerfið hefur sem betur fer getað gert mjög víða um land. En án þess að ég ætli að fara að rekja það nokkuð nánar, hversu erfið sú barátta hefur verið, þá vil ég þó segja það, að árangur okkar þm. Reykn. hefur verið til þessa nánast mjög rýr. Við höfum gjarnan spurt í þeim stofnunum, sem um þessi mál fjalla, hvenær mætti vænta afgreiðslu á vissum málum, og fengið ýmis svör sem síðan hafa ekki staðist í reynd og hafa m. a. leitt til þess, að ég hef borið fram fyrir nokkru fsp. um það, hvenær og hvernig úthluta ætti þeim 500 millj. kr. sem gefið var fyrirheit um að úthlutað yrði sem láni í sambandi við frystihúsin og fleiri atvinnugreinar. Og ég hef enn fremur spurt um það, eftir hvaða reglum yrði úthlutað þeim 300 millj. kr. sem ráðgert er að úthluta úr svokölluðum gengismunarsjóði. Því miður hefur þessari fsp. ekki verið svarað enn þá, og vafalaust verður henni ekki svarað á þessu þingi. En ég vil fullyrða það, að það eru mörg fyrirtæki á Suðurnesjum og margir aðilar á Suðurnesjum sem hafa lifað í von um einhverja slíka aðstoð, m.a. vegna þess að við þm. Reykn. höfum margir hverjir gefið yfirlýsingar og sagt það sem við höfum ekki vitað betur en væri rétt og satt, en ekki hafa svo í framkvæmdinni verið eins og sagt var. Ég tel rétt að þetta kom hér fram. Ég er mjög mikill stuðningsmaður þess, að við höfum hér í landinu starfandi eitthvert slíkt kerfi sem er þess umkomið að bregðast við, þegar atvinnulíf á heilum svæðum landsins er í mikilli hættu. Slíkt hefur ástandið verið um marga mánuði á Suðurnesjum. En ef þetta kerfi byggist á slíkum reglum, að það sé nánast óstarfhæft þegar vissir hlutar landsins lenda í úlfakreppu eins og hefur gerst með Suðurnesin, þá finnst mér kerfið meira en lítið gallað og þurfi að takast til heildarendurskoðunar, því að það er staðreynd, að atvinnuleysi og bág alkoma fyrirtækja er jafnsár þeim sem við þurfa að búa hvar svo sem þeir búa í landinu.