05.05.1978
Efri deild: 100. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4470 í B-deild Alþingistíðinda. (3846)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. um heilbrigðisþjónustu átti langan aðdraganda og það var unnið af nefnd og nefndum, réttara sagt, sem störfuðu í mörg ár. Það var byrjað á undirbúningi þess frv. á dögum hinnar svokölluðu viðreisnarstjórnar og það var lagt fram á öðru valdaári vinstri stjórnarinnar. Þá dagaði þetta frv. uppi. Það var svo lögfest snemma á árinu 1973 og gildistaka þess var frá 1. jan. 1974.

Þrátt fyrir þennan langa aðdraganda á tímum tveggja ríkisstj. var þetta frv. lögfest með þeim hætti, að kafli laganna um læknaskipunina kom aldrei til framkvæmda. Þeim kafla laganna var frestað.

Á árinu 1975 skipaði ég n. sem í áttu sæti tveir alþm., landlæknir og formaður Læknafélags Íslands, síðar kom inn í n. fulltrúi læknadeildar Háskólans, og n. var undir formennsku ráðuneytisstjórans í heilbrn., til þess að fjalla um á hvern hátt megi lögfesta og breyta þeim kafla sem mætti svo mikilli andstöðu á Alþ. að framkvæmd hans var frestað. Það var læknaskipunin, stóru læknishéruðin sem voru í þeim kafla, sem átti ekki hljómgrunn þm. á þeim tíma. Ég tel að með þessu frv. hafi tekist að koma þessum málum fyrir á bæði hagkvæman hátt og líka sé gætt sparnaðar, því að það veitir ekkert af því að gæta sparnaðar í heilbrigðisþjónustu eins og í öðrum málum.

Sömuleiðis minntist hv. síðasti ræðumaður á það, að fellt hefði verið út aðsetur lækna sem voru í áður gildandi lögum, og nefndi til staðfestingar Skagaströnd, Bíldudal og fleiri staði. Þegar þetta frv. var til umr. á Alþ. var ég einn í hópi þeirra sem voru á móti því að fella niður þessi læknishéruð. En með samþykkt frv. 1973 og gildistöku þess frá áramótum 1974 er búið að marka stefnu sem hefur verið farið eftir í sambandi við hönnun heilsugæslustöðva. Í sambandi við hönnun heilsugæslustöðva, t. d. á Patreksfirði, sem nær yfir alla Vestur-Barðastrandarsýslu og einn hrepp Austur-Barðastrandarsýslu, er gert ráð fyrir því, að þar verði heilbrigðisþjónusta fyrir þetta svæði allt. Í sambandi við hönnun heilsugæslustöðvar fyrir Austur-Húnavatnssýslu er gert ráð fyrir í þeirri hönnun að Skagaströnd njóti heilsugæslustöðvar á Blönduósi.

Samkv. þessari stefnu og þessari lagasetningu hefur verið unnið. Það hlýtur að fylgja í kjölfarið. Það er ekki hægt að setja fyrst lög og marka þar stefnu, fara eftir því og byrja framkvæmdir í þessum efnum, og snúa, þegar þessum framkvæmdum er ekki lokið, aftur við blaðinu og taka upp ný læknishéruð eða réttara sagt gömlu læknishéruðin eins og þau voru

Þá kem ég að því, að það virðist engin hætta á því, sem hv. þm. dró reyndar í efa, að það verði offramleiðsla á læknum. A. m. k. er ekki offramleiðsla á læknum til starfa úti um land, og þar hefur engin breyting orðið til batnaðar frá því að lögin voru sett 1973, ætla ég að leyfa mér að fullyrða. Ég tel þýðingarlaust að setja ný læknishéruð, aðsetur lækna á fleiri stöðum en eru í gildandi lögum og þeim verður ekki fjölgað á meðan við getum ekki mannað þau, aðeins til þess að fá það til viðbótar hvað mörg læknishéruð séu mannlaus tíma og tíma og sum alllengi á hverju ári.

Ég mælti ekki gegn till. tveggja Austfjarðaþm. hér við 2. umr. varðandi H 2 á Eskifirði, að ég væri á móti því að byggja heilsugæslustöð 2 á Eskifirði, heldur hitt, að það er erfitt að manna þessar stöðvar, og jafnframt, að á meðan við eru að byggja upp heilsugæslustarfið verður að taka tillit til þeirra breytinga sem hafa orðið í samgöngulegu tilliti. Samfélagið er ásamt læknishéraðinu í Neskaupstað að byggja þar upp sjúkrahús, stækka sjúkrahúsið og heilsugæslustöð 2 á Neskaupstað. Við getum ekki fjölgað stöðvunum þannig að við ráðum ekki við neitt.

Hv. þm. minntist á það, sem er alveg rétt, og spurði, hvort ég væri sáttur við það að byggja heilsugæslustöðvar, eins og á Suðurlandi, þar sem er örstutt á milli. Ég er mjög ósáttur með þá afgreiðslu. En það var eitt af því sem var frestað í þessari löggjöf 1973, það var Suðurlandið. Það var því í lausu lofti og hefur verið þennan tíma allan. Nefnd hefur starfað á þriðja ár. Hún skilaði áliti rétt fyrir áramót. Síðan fóru fram kostnaðarútreikningar í fjárlaga- og hagsýslustofnuninni. Að þeim loknum og með leyfi ríkisstj. lagði ég frv. fram, og það er að byrja annar mánuðurinn frá því. Í mörgum tilfellum er ekki um veigamiklar breytingar að ræða. En breytingarnar bæði á héraðslæknisembættum, skýr ákvæði um viðhaldskostnað, um heilsugæslustöðvar sjúkrahúsa, sem hefur verið synjað vegna þess að það hefur verið óskýrt í lögum, — þetta allt gerir það að verkum, að það er brýn nauðsyn að lögfesta þetta frv. og láta þetta ekki vera lengur í lausu lofti. Það er þetta sem er fyrst og fremst á bak við það, að ég legg á það mikla áherslu, að frv. nái fram að ganga, vegna þess að það er margt í þessu frv. sem þolir ekki bið.

Ég vildi mjög gjarnan geta notað ákvæði reglugerðar um það, að læknir ætti aðsetur á hinum ýmsu stöðum þar sem erfitt er um vik að fara á milli. En til þess auðvitað að geta notfært sér þau ákvæði og beitt þeim ákvæðum verðum við að hafa lækna, og það er þannig enn, að heilbrigðisstjórnin ræður ekki við þegar er hörgull á fólki. Það er alveg eins í þessu starfi og í öðrum atvinnugreinum, að það er ekki gott að ráða við þegar hörgull er á starfsfólki. En margt bendir til þess, að á næstu árum verði breytingar á þessu, og það eru ákvæði í frv. þar sem ráðh. getur fjölgað stöðvum ef til þess kemur, og það er brýn þörf á því. Ég er alveg sama sinnis og ég var 1973 hvað snertir Skagaströnd. En það, sem er búið að gera síðan, gerir það að verkum, að við getum ekki horfið frá því í bili. En það þýðir ekki að staður, sem er í uppgangi, þar sem fólki fjölgar, eigi að vera læknislaus um aldur og ævi. Það þýðir vitaskuld að þó að þetta frv. verði að lögum, þá er hægt að taka þessi ákvæði upp hvenær sem er, ef við sjáum þörf á því, enda er heimild fyrir því í frv.

Ég tek alveg undir það með heilsugæslustöðvarnar á Suðurlandi, sérstaklega þessar tvær og í raun og veru Hveragerði líka, að það er auðvitað allt of stutt á milli þessara stöðva. En vegna þess að þetta var ekki bundið í lögum tók fjvn. þetta upp og Alþ. samþykkti það með fjárveitingum til þessara staða. Og þó að ég gjarnan vildi, þá treysti ég mér ekki til þess að leggja fram frv. sem gengur alveg í berhögg við það sem búið er að samþykkja við afgreiðslu fjárl., og það er búið að reikna með því á þessum stöðum. En það er ósköp eðlilegt, að bent sé á þetta annars staðar á landinu. En fyrst og fremst er hér um að ræða skort á læknum, skort á öðru starfsliði, en þar hefur þó unnist mjög mikið á frá því að þessi lög komu til framkvæmda. Það er margt í gangi og margar heilsugæslustöðvar bætast við á næstu tveimur árum. Þessi lög eru eins og öll önnur mannanna verk ekki fulltæmandi, og það er mjög eðlilegt að þau komi aftur til endurskoðunar hvað þetta snertir og ýmislegt annað.