05.05.1978
Efri deild: 100. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4472 í B-deild Alþingistíðinda. (3847)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar sem hann veitti í ræðu sinni. Ég er ekki að draga það í efa, að það kunni að vera rétt hjá ráðh., að framboð á læknum til starfa úti um land hafi lítið aukist á seinni árum. Ég hélt satt best að segja að það hefði eitthvað aukist en ráðh. þekkir það vafalaust betur en ég, og víst er að þar hefur ekki orðið nein teljandi breyting til batnaðar. Hins vegar er mér sagt að um sé að ræða verulega fjölgun á útskrifuðum læknum frá Háskóla Íslands og þar sé um að ræða svo stórfellda fjölgun í stéttinni, að það geti varla farið hjá því, að innan skamms tíma hafi það veruleg áhrif á framboð lækna til starfa úti á landi. Þetta verða þeir að dæma um sem gerst þekkja. En ég veit að stúdentar í deildinni hafa, eins og ég nefndi hér áðan, nokkrar áhyggjur af því, að um sé að ræða offjölgun í stéttinni.

Það, sem ég var að nefna hér áðan, var ekki hvort hyggilegt væri að koma upp nýjum læknishéruðum. Það mátti ekki skilja orð mín á þann veg, að ég væri að mæla með því. Ég var eingöngu að mæla með því, að þar sem margir læknar væru starfandi á einni og sömu heilsugæslustöðinni, þá væri einn þeirra búsettur og með starfsaðstöðu í þeim þéttbýliskjarna sem engan lækninn hefur. og ég tel að það sé fullkomlega raunhæft, að hann geti sinnt margvíslegum störfum við heilsugæslustöðina, jafnvel þótt það yrði hans aðalstarf að starfa á þeim stað þar sem hann væri búsettur. Eins og hæstv. ráðh. er vafalaust kunnugt, þá er það mjög tíðkað, t. d. við heilsugæslustöðina á Blönduósi, að læknirinn fer í ferðir til þess þéttbýlisstaðar sem hann á einnig að sinna, í þessu tilviki Skagastrandar Hann fer þangað, held ég tvisvar í viku. Og læknir á Sauðárkróki fer til Hofsóss einu sinni í viku. Á Hofsósi segja menn að ástandið sé nú svo illt, að menn megi helst ekki vera veikir nema á fimmtudögum, og það er auðvitað afleit aðstaða fyrir fólk þegar það má ekki vera veikt nema á fimmtudögum. Þess vegna hefur fólki fundist að það gæti vel verið raunhæft, að einn af læknunum væri þar búsettur og þá þyrfti hann ekki að gera sér ferðir á þann stað, en aftur á móti hugsanlegt að hann færi nokkrar ferðir, kannske tvær ferðir í viku hverri, til sjálfrar aðalheilsugæslustöðvarinnar til að sinna þar erindum og vinna þar einhver störf, þannig að tíma hans væri vel varið. Hann þarf a. m. k. að vera á ferðinni á milli þessara staða, og þá er erfitt að skilja af hverju ekki er hægt að hugsa sér að hann sé með aðaldvalarstað á læknislausa staðnum og fari síðan ferðir til heilsugæslustöðvarinnar einu sinni til tvisvar í viku.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjölyrða um þetta frv. En ég heyrði það á ráðh., að hann væri ósáttur við frv., hann væri ósáttur við þá skipan frv. sem snerti Suðurland. Mér þótti fróðlegt að heyra það, skildi það auðvitað fyrst og fremst á þann veg, að skipanin á Suðurlandi væri í ósamræmi við það sem væri annars staðar á landinu. Ég get hins vegar fullvissað ráðh. um það, að fólk í öðrum landshlutum mun líta á það skipulag, sem á að verða á Suðurlandi, sem fordæmi, og það mun gera kröfur til þess, að læknar verði með búsetu í öllum kauptúnum landsins. Úr því að Alþ. og ríkisstj. samþykkja að hafa lækni á Hvolsvelli og Hellu, þá hlýtur það að hafa þær afleiðingar, sem betur fer vil ég segja, að sú krafa nái fyrr eða síðar fram að ganga, að læknir verði búsettur í öllum slíkum kauptúnum. (Sjútvrh.: Ég er fullkomlega sammála um að læknir sé búsettur á öðrum stað en Hvolsvelli, en ég tel nóg að hafa eina heilsugæslustöð). Í þessum efnum er ég innilega sammála ráðh. Ég held að það skipulag hefði verið langákjósanlegast. Það er einmitt skipulagið sem ég er að fara fram á að tekið verði upp á stöðum eins og Hofsósi og Skagaströnd.