05.05.1978
Efri deild: 100. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4473 í B-deild Alþingistíðinda. (3849)

268. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég gat af sérstökum ástæðum ekki verið viðstaddur lok 2. umr. um Tæknistofnunina. Ég skrifaði undir nál. iðnn. með fyrirvara og mælti með samþykkt frv. með ákveðnum hlýlegum þanka, efasemdum að vísu um fararheill þessarar löggjafar um Tæknistofnunina eins og til hennar er nú stofnað, en eindreginni ósk eigi að síður eða öllu fremur bæn um að nú bregði til þess háttar bata í pólitíkinni, að vesalingur þessi megi eigi að síður lífi halda, því að það er nú svo, að margt það, sem bani virðist búinn í rysjóttri tíð, getur dafnað í sólskini.

Hér er um að ræða eins konar kreppuafbrigði af hugsun sem spratt upp úr sérstöku starfi sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma við áætlanasmíð um innlendan iðnað og á sér því langan aðdraganda. Hér liggur sem sagt fyrir okkur til umfjöllunar og nú til afgreiðslu við 3. umr. í hv. Ed. eitt þeirra þingmála, sem undirbúin voru í tíð vinstri stjórnarinnar. Frv. til l. um Iðntæknistofnun Íslands var samið í ráðherratíð Magnúsar Kjartanssonar í þeim stórhuga tilgangi að sameina krafta íslenskra sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum tækninnar til rannsóknastarfa, tilrauna og ráðgjafar, þannig að stofnunin mætti verða í senn frumkvöðull og aflgjafi nýrrar iðnþróunarstefnu á Íslandi. Í því frv., sem þá var samið, var í senn gert ráð fyrir þeim fjárveitingum, sem slík stofnun þyrfti til þess að gegna hlutverki sínu, og fyrir því skipulagi, sem gerði Iðntæknistofnuninni kleift að ávaxta þá fjármuni, sem í hana væru lagðir, með öruggum og undraskjótum hætti til gagns fyrir land og lýð. Það var annars konar frv. en það sem hæstv. núv. iðnrh. lagði fram á þessu þingi, og það er hans frv. sem við fjöllum nú um.

Við umfjöllun í Nd. reyndu fulltrúar Alþb. að knýja fram þær breytingar á frv. þessu, sem til hefði þurft til þess að koma því í svipað horf og frv. Magnúsar Kjartanssonar, og þá fyrst og fremst með því að fá kveðið á um fjárveitingar handa hinni fyrirhuguð Iðntæknistofnun. Þeim breytingum varð ekki fram komið. Eina till., sem samþ. var í Nd. og var till. fulltrúa Alþb. í iðnn. þeirrar d., varðar nafn stofnunarinnar.

Hér er sem sagt á döfinni enn eitt þeirra fjölmörgu mála sem vakin voru í tíð vinstri stjórnarinnar og þóttu þá mikils vísir, en breyttust í afturkreisting í fóstri núv. íhaldsstjórnar, þetta sérstaka mál í alveg sérstakan afturkreisting í hæstv. kviði núv. iðnrh. Er frv. kom til umfjöllunar í iðnn Ed. var það orðið ljóst, að alls ekki fengjust þar fram þær breytingar á því sem nægja mundu til þess að fyrirhuguð tæknistofnun gæti orðið iðnaðinum lyftistöng.

Fyrir iðnn. d. lá þá það hlutverk að gera á frv. þess háttar breytingar sem drægju úr líkindunum fyrir því, að lögin yrðu iðnaðinum beinlínis til tjóns. Svo sem hv. frsm. iðnn. Ed. og formaður hennar, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, hefur gert grein fyrir, þá komst n. að þeirri niðurstöðu, að sennilega yrði hin fyrirhugaða tæknistofnun með þeim hætti, að varhugavert gæti orðið fyrir Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins að tengjast henni. Fulltrúar þeirrar stofnunar svo og sérstakir fulltrúar byggingariðnaðarins, sem kvaddir voru á fund n., gerðu mjög ljósa grein fyrir þeirri skoðun sinni, að varlegast væri fyrir þá, sem fyrirhyggju hefðu um hag sinn, að tengjast ekki þessari fyrirhuguðu tæknistofnun, eins og til hennar væri stofnað nú um sinn. Við blasti að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, sem náð hefur eðlilegum þroska á 13 ára starfsferli sínum og vinnur nú hið merkasta starf í þágu byggingariðnaðarins og opinberra aðila, hlyti að takast á herðar þungbært ómagaframfæri með því að sameinast hinum stofnununum tveimur samkv. lagafrv. þessu, þar sem ekki yrði lagt á borð með þeim til framfærslu, hvað þá heldur meir. Því er það að iðnn. lagði til, að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins yrði leyst út úr frv. um sinn, og till. iðnn. Ed. þar að lútandi hafa núverið samþykktar. Að þeirri breytingu fenginni taldi ég að af frv. væri sniðinn versti meinbugurinn.

Í þeirri mynd, sem frv. er nú, tel ég það ekki líklegt að verða til tjóns þótt að lögum verði. Hinar stofnanirnar tvær, sem frv. tekur nú til, eru þannig á vegi staddar, að ekki er sennilegt að hagur þeirra versni við lagasetninguna. Jafnvel má til sanns vegar færa að samþykkt frv. nú geti talist æskilegur áfangi í sókninni til eflingar íslensks iðnaðar að því leyti, að fyrirhafnarminna verði, ef til þess kemur í pólitíkinni, að samþykkja við lögin viðauka og breytingar, það sem með þarf til þess að gera Tæknistofnun Íslands að því fyrirtæki, sem upprunalega var ætlunin að hún yrði og þá lyftistöng fyrir íslenskan iðnað. Að slíkum breytingum fengnum, sem verða munu og hljóta að verða við myndun nýrrar vinstri stjórnar, er ekki ósennilegt að forsvarsmenn Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins telji stofnun sinni hag í því að gerast aðilar að tæknistofnuninni.

Því mun ég greiða frv. atkv. mitt, að ég tel það nú ekki aðeins skaðlaust eftir breytinguna sem á því hefur verið gerð hér í hv. Ed., heldur enn fremur vegna þess, að ég tel að í því kunni að blunda lífsvon með betri tíð.