05.05.1978
Efri deild: 100. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4475 í B-deild Alþingistíðinda. (3856)

199. mál, umferðarlög

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Allshn. Ed. hefur haft frv. þetta til meðferðar og mælir með því, að það verði samþykkt óbreytt. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að niður falli ákvæði um það, að svokallaðir ökuritar skuli vera í langferðabifreiðum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að heimilt verði að bifreiðar, sem notaðar eru til fólksflutninga, verði nokkru lengri en gert er ráð fyrir í núgildandi lögum, eða 13 metrar miðað við tveggja öxla bifreið. Rétt er að taka það fram, að það er skoðun n., að þær bifreiðar, sem eru fyrir í landinu þegar þessi lög taka gildi og kunna að vera lengri, fái áfram að vera notaðar á vegum þrátt fyrir þessar hömlur.

Ég held að það sé ekki ástæða til að orðlengja um þetta. Frv. er í upphafi flutt að beiðni Félags sérleyfishafa og helsti rökstuðningurinn fyrir þessari auknu lengd er í fyrsta lagi sá, að þessar bifreiðar eru margar heldur lengri en 12 metrar, og í öðru lagi að hér er nokkru rýmra á milli sæta í langferðabifreiðum en víða annars staðar og þess vegna þurfa þær að vera örlítið lengri til þess að geta flutt sama farþegafjölda.