09.11.1977
Neðri deild: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

21. mál, kosningar til Alþingis

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég er mjög sammála megintilgangi þessa frv. og vil lýsa yfir þakklæti til hv. flm. fyrir að hafa samið það og lagt það fram.

Ég tel að það sé tímabært og samkvæmt vilja yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar að kosningalögum verði breytt í þá átt, að kjósendur geti haft innan hlutfallskosningakerfis meiri áhrif á val einstakra manna en unnt er eftir núgildandi lögum. Hins vegar verð ég að hafa fyrirvara um þá leið sem hv. flm. hefur valið. Ég tel að hana þurfi að íhuga mjög vandlega. Hann gerir ráð fyrir að nöfn frambjóðenda hvers flokks verði á kjörseðli í stafrófsröð og síðan megi kjósendur, ef þeir vilja, raða frambjóðendum og sú röðun eigi síðan að ráða hverjir þeirra fái þau sæti sem flokknum verður úthlutað í viðkomandi kjördæmi.

Það er hægt að hafa á þessu aðra skipun, þá að flokkar, sem bjóða fram, raði frambjóðendum sínum á framboðslista eftir þeim reglum sem þeir setja sér sjálfir, ef Alþ. setur ekki reglur um það, og síðan hafi kjósendur sama rétt og frv. gerir ráð fyrir, þeir megi breyta þeirri röð, sem á flokkslistanum er, og geti þannig haft áhrif á persónulegt val. Að vísu getur verið um að velja dálitið mismunandi aðferðir til að reikna út „vægi“ þessara breytinga, ef ég má nota það tískuorð, en ég bygg að það yrði ekki vandkvæðum bundið að ná samkomulagi um það.

Hv. frsm. nefndi þann galla á stafrófsröðuninni, að mjög fáir kjósendur gætu ráðið hvaða menn á lista hlytu kosningu. Nú er reynslan í nágrannalöndum, þar sem kjósendur hafa fengið að raða nöfnum um leið og þeir kjósa, hvort sem nöfnin eru í stafrófsröð eða raðað af flokknum, að tiltölulega lítill hluti kjósenda notar þennan rétt í fyrstu, kannske 10–15%. Komið hefur fyrir, að allt að 40–50% kjósenda séu farnir að nota réttinn til að raða eftir að kerfið hefur verið notað í þrennum, fernum kosningum, og þykir það mjög gott.

Af þessari ástæðu tel ég að það sé of þröngur stakkur ef lítill hluti kjósenda flokks fær algjörlega að ráða vali manna. Betra væri að hafa tvöfalt kerfi, þannig að innan flokkanna, væri eitthvert lýðræðislegt kerfi, sem þeir geti valið sér sjálfir, til þess að raða þeim frambjóðendum sem flokkurinn býður fram, síðar geti kjósendur breytt þeirri röð.

Ég tel að við þurfum að útvega okkur betri upplýsingar en enn hafa komið fram um reynslu af þessum tveim kerfum og þá t.d. reynsluna í Belgíu, sem Svíar virðast nú ætla að taka sér til fyrirmyndar, bera þetta saman áður en við tökum ákvörðun um hvora leiðina við veljum, ef svo fer, sem ég vona, að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi.

Hv. þm. gat um aðra annmarka á kosningu þm., misræmi milli þm: fjölda í kjördæmum eftir íbúafjölda, og boðaði að þm. Reyknesinga mundu flytja till. um að breytt skyldi reglum um úthlutun uppbótarsæta þannig að eingöngu verði farið eftir tölu, en ekki prósentu. Ég vil á þessu stigi málsins taka afstöðu gegn þessari hugmynd, tel að hún sé að mörgu leyti varhugaverð, eins og hv. frsm. sjálfur benti á, vafasamt að hún nái tilgangi sínum. Ég tel að þetta mál sé svo alvarlegt að við verðum, um leið og stjórnarskráin verður tekin til breytinga, að reyna að finna eitthvert kerfi sem getur orðið varanlegra. Ekki verður hægt að komast fram hjá því, að það kerfi verður að vera þannig, eins og tíðkast í öllum nágrannlöndum okkur sem hægt er að bera okkur saman við, að með einhverju millibili séu gerðar breytingar í samræmi við breytta búsetu í landinu. Þar með er ekki sagt að á þingi þurfi að vera jafnt vægi atkvæða alls staðar án tillits til dreifbýlis og þéttbýlis. Þingið mundi sjálfsagt taka einhverja afstöðu um slíkt hlutfall, en innan þess ramma yrðu breytingar að vera í framtíðinni.

Í umr. um þessi mál, sem þegar hafa farið fram á þinginu um þáltill. og utan dagskrár, hefur verið nefnt að æskilegt kunni að vera að gera enn frekari breytingar á kosningalögunum. Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson benti í umr. á að samkvæmt núgildandi kosningalögum gæti hæglega komið fyrir að flokkur með 10–15% greiddra atkv. í landinu fengi ekkert þingsæti, ef hann næði ekki kjördæmisþingsæti fengi hann engin uppbótarsæti. Tvisvar sinnum hefur jaðrað við þetta. Hygg ég að flestir hljóti að vera sammála um að það sé ekki í samræmi við anda stjórnarskrárinnar ef stjórnmálaflokkur með 10–15% greiddra atkv. fær engan fulltrúa á þingi.

Nú stendur í stjórnarskránni að úthluta skuli uppbótarþingsætum til jöfnunar á milli þingflokka, og í kosningalögunum er skilgreint að þingflokkur sé flokkur sem hefur fengið einn kjördæmiskjörinn mann. Flestir hafa litið á þetta án þess að íhuga það nánar og sagt að ekki væri hægt að breyta þessu nema með stjórnarskrábreytingu. Ég vil benda á að það er hægt að breyta þessu með einfaldri breytingu á kosningalögunum. Til að kanna þetta fletti ég upp í Réttarsögu Alþingis eftir Einar Arnórsson, en þar segir á bls. 603, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnskipulög láta ekki um það mælt í einstökum atriðum, hvernig fara skuli um skipun uppbótarþingsæta. Þau fela almenna löggjafanum að setja fyrirmæli um það í lögum um alþingiskosningar. Almenna löggjafanum er því frjálst að skipa þeim málum svo sem honum þykir heppilegast innan þeirra markalína, sem sett eru í stjórnskipulögunum.“

Ég fletti enn fremur upp í ritinu Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson, en þar segir á bls. 217, með leyfi hæstv. forseta og hæstv. dómsmrh.:

„Enn fremur úrskurðar landskjörstjórn, hverjir stjórnmálaflokkar hafi náð þingsæti og teljist því þingflokkar, en aðrir flokkar koma ekki til greina við úthlutun uppbótaþingsæta, 119. gr. kosningalaga. Þessi skilgreining á þingflokkum er aðeins að finna í kosningalögum. Stjórnarskrárgjafinn hefur ekki skýrt það, við hvað sé átt með þingflokki, heldur eftirlátið það almenna löggjafanum. Þessari skilgreiningu getur því almenni löggjafinn vafalaust hreytt innan skynsamlegra takmarka. Almenni löggjafinn gæti því sennilega ákveðið að þingflokkur væri sá flokkur, sem annaðhvort hefði átt þingmann á síðasta þingi fyrir kosningar eða fengið mann kjörinn í kosningunum.“

Einar Arnórsson kom auga á þá hættu, sem Þórarinn Þórarinsson og fleiri hafa gert að umræðuefni, að flokkar gætu fengið ærið þingfylgi án þess að fá þm. Hann segir í áðurnefndu riti, á bls. 605, með leyfi hæstv. forseta:

„Sá flokkur, sem hefur að vísu verið talinn stjórnmálaflokkur í kosningum samkvæmt 28. gr. kosningalaganna, en hefur ekkert þingsæti fengið í kjördæmi, getur því ekki heldur fengið uppbótarsæti, jafnvel þótt samanlögð atkvæðatala hans út af fyrir sig gæti veitt honum rétt til þess. Í sjálfu sér sýnist það ekki hugsunarrangt, að slíkur flokkur gæti fengið uppbótarsæti. Hann er fulltrúi tiltekinnar landsmálastefnu, og kosningarnar hafa leitt í ljós, að stefnan hefur nægilegt kjósendafylgi til eins eða fleiri fulltrúa á þinginu. Ef landið allt væri eitt kjördæmi, þá mundi slíkur flokkur hafa fengið þingfulltrúa.“

Samkvæmt því, sem ég hef nú lesið, er skoðun tveggja fremstu fræðimanna, sem þjóðin hefur átt á þessu sviði, að skilgreina megi með venjulegum lögum hvað sé þingflokkur. Alþ. hefur því algjörlega á valdi sínu að gera breytingu á þeim ákvæðum sem nú gilda, að þingflokkur teljist flokkur aðeins ef hann hefur fengið einn þm, kjörinn í kjördæmi. Nú er það mjög algengt í nágrannalöndum okkar, sem við berum okkur oftast saman við, að sett hafa verið ákveðin mörk, þannig að flokkar verða að fá ákveðna prósentutölu greiddra atkvæða til þess að fá yfirleitt kjörinn þm. Nú skal ég ekki fullyrða hvort Alþ. gæti með breytingu á kosningalögum sett slíkt ákvæði. En ég hygg að það sé tvímælalaust stutt af skoðunum Einars Arnórssonar og Ólafs Jóhannessonar, að Alþ. geti sett ákveðna prósentu, t.d. 3%, 4% eða 5%, ákvæði um að flokkar skuli fá uppbótarsæti, ef þeir ná þessari prósentu, hvort sem þeir hafa kjördæmakjörinn þm. eða ekki, eða ef Alþ. vildi fara inn á þá braut, sem þing margra nágrannalanda hafa farið, að setja prósentu sem neðra mark, þannig að flokkur skuli aldrei fá uppbótarþingsæti ef hann fær minna en 3, 4 eða 5%. Hann gæti þá haldið kjördæmakjörnum þm., en kæmi ekki til greina við úthlutun uppbótarsæta fyrr en við eitthvert ákveðið mark.

Þessir kostar tel ég að séu fyrir hendi, og ég vildi nota tækifærið, af því að kosningalögin eru til umr., að koma fram þessum skýringum og röksemdum. Á þessu stigi málsins hef ég ekki séð ástæðu til að flytja brtt. eða annað frv. um þetta mál, en áskil mér rétt til að gera það á síðara stigi, ef þingflokki Alþfl. sýnist svo.