05.05.1978
Neðri deild: 97. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4485 í B-deild Alþingistíðinda. (3877)

309. mál, almannatryggingar

Frsm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta frv., sem heilbr.- og trn. Nd. hefur flutt að beiðni hæstv. heilbr.- og trmrh., er samandregið efni úr tveimur stjfrv. um almannatryggingar sem legið hafa fyrir Alþ. nú í vetur. Hið fyrra var lagt fram skömmu fyrir jól og fjallaði um slysatryggingar, og hið síðara var lagt fram nú seint á þinginu og fjallaði um sjúkratryggingar. Í ljós kom, þegar afgreiða átti þessi mál samtímis úr n., að verulegur ágreiningur var um sum atriði þessara frv. og varð að ráði að steypa saman þeim atriðum úr þessum frv., sem ágreiningslaus voru, og flytja þau í einu frv.

Aðalefnisbreytingarnar, sem þetta frv. felur í sér, eru breyttur fjárhagsgrundvöllur slysatrygginga frá því sem nú er, þannig að horfið er frá sjóðmyndun og skiptingu í áhættuflokka og í stað vikugjalda kemur iðgjald sem reiknað er sem hundraðshluti af greiddum launum.

Að því er sjúkratryggingar varðar eru í frv. ákvæði um greiðslu ferðakostnaðar vegna ítrekaðrar læknismeðferðar.

Breytt er ákvæðum um greiðslu tannlækniskostnaðar. Ákvæði stjfrv., sem lagt var fram nú nýlega og fjallaði um sjúkratryggingar, hafði að geyma allverulegar breytingar á framkvæmd greiðslu sjúkradagpeninga og þau atriði eru tekin upp í þetta frv., þó þannig, að miðað er við þær upphæðir og aldursmörk sem eru í núgildandi lögum. Ástæðan fyrir því er sú, að breytingar á aldursmarki þeirra, sem áttu að njóta sjúkradagpeninga samkv. því frv., og breyting á upphæð dagpeninga byggðist á því, að samþykkt hefðu orðið frv. bæði eins op þau lágu fyrir og þá fyrst og fremst frv, um breytingu á fyrirkomulagi slysatrygginga eða nánar tiltekið frv. um samruna slysa- og lífeyristrygginga.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til þess að rekja þetta frv. efnislega. Það var gert mjög ítarlega í ræðum hæstv. ráðh. þegar umrædd tvö frumvörp lágu fyrir. Ég held því að ekki sé ástæða til þess að tíunda þau efnisatriði, nema þá sérstakt tilefni gefist til í umr. um málið.

Ég vil taka fram að um efni þessa frv. er alger samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu í heilbr.- og trn. Þó flytur hv. 3. þm. Reykv. nokkrar brtt., en svo langt sem þetta frv. nær er samstaða um það.

Ég vil aðeins geta þess, að það er lítils háttar villa í 10. gr. frv. sem nauðsynlegt verður að leiðrétta við 2. umr. málsins. Þótt villan sé ekki stór er hún þó svo alvarleg að efni til að hún verður að leiðréttast. Villan kom inn vegna þess að greinin var að mestu tekin óbreytt upp úr því stjfrv. sem legið hefur fyrir, en vegna þess að ekki fylgdu ýmis nauðsynleg efnisatriði önnur, sem í því frv. voru, verður að laga þessa grein við 2. umr. Ég bendi á þetta nú strax. Í niðurlagi 4. mgr. 10. gr. stendur: „Ekki skal þó telja með barn, er sjálft nýtur dagpeninga.“ Þessi setning byggðist á aldursmarkinu sem var gert ráð fyrir í upphaflega frv., — aldursmarkinu að því er varðaði sjúkradagpeningagreiðslu, en þar var miðað við 15 ára aldur. Hér er miðað við 17 ára aldur eins og er í núgildandi lögum. Á þetta vildi ég aðeins benda

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr., en vegna þess að það þarf að gera litla breytingu á frv., þá vil ég leyfa mér að óska þess, að n. fái tækifæri til að líta á það enn á ný, og ég get ekki ímyndað mér að það taki langan tíma. En að öðru leyti þarf það ekki meðferðar n. þar eð það er flutt af nefnd.