09.11.1977
Neðri deild: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

21. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er greinilegt að það er allviðtækur áhugi á því að veita kjósendum, eins og talað er um, ríkari áhrif á það að velja þm. sinn heldur en menn telja að þeir hafi nú, og hefur komið fram með ýmsum hætti að á þessu er áhugi. Það er rétt sem hér hefur komið fram, að í þeim sjónvarpsþætti, sem fyrirfinnst ekki lengur, tjáðu formenn stjórnmálaflokkanna sig á þá lund, að þeir væru hlynntir þessari hugmynd. En ég hygg að þeir hafi allir haft fyrirvara að því er varðaði það fyrirkomulag sem þá var sérstaklega til umr., og ég hygg að þeir hafi líka bent á það, sumir hverjir a.m.k., að ekki væri eins einfalt og virtist e.t.v. við fyrstu sýn að setja um þetta reglur sem tryggðu að sá tilgangur næðist sem fyrir mönnum vakir, þannig að menn mega ekki herma of mikið upp á formenn stjórnmálaflokkanna í þessu sambandi. Vissulega stend ég við það, að ég tel æskilegt að fundið sé það kerfi sem gefur hverjum einstaklingi sem mestan rétt til þess að hafa áhrif á það hver verði umbjóðandi hans á þingi. Og það er út af fyrir sig gleðilegt, að þm. skuli brjóta heilann um þetta efni og leggja fram till. eða frv. sem að þessu lúta.

Ég fyrir mitt leyti geri ráð fyrir að það þurfi talsverða athugun áður en menn finna það kerfi, sem menn geta orðið sammála um, og það kerfi, sem þeir telja að nái sem fyllstu réttlæti í þessu efni. Þess vegna held ég að það sé dálítið vafasamt, að menn finni það með einstakri breytingu eins og þeirri sem liggur fyrir í þessu frv., hitt geti e.t.v. verið eðlilegra, að menn gefi sér tóm til að athuga þetta mál í n., því að sannleikurinn er sá, að þetta hefur ýmsar hliðar. Ég held t.d. að það sé helst til einfalt kerfi sem gert er ráð fyrir að gildi hér, og ég þarf í raun og veru ekki að bæta við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um það efni, þar sem gert er ráð fyrir að mönnum sé raðað á lista flokksins í stafrófsröð. Ég býst við að þá sé talsvert betra að heita t.d. Benedikt heldur en Vilmundur og að þeir gætu orðið nokkuð illa úti sem væru aftarlega í stafrófinu, vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir, og m.a. er það stutt af þeirri reynslu sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, að allir kjósendur legðu í að gera breytingar á lista. Auðvitað er hægt að hugsa sér ýmis önnur kerfi til að raða á lista. Það má alveg eins hugsa sér að hlutkesti sé látið ráða, það sé dregið um það og látið ráða hlutkesti, í hvaða röð menn eru settir á framboðslistann, eins og að láta ráða úrslitum hvaða nafn þeir hafa hlotið í vöggugjöf. Og auðvitað er hægt að fara margar aðrar leiðir í þessu efni. En ég er hræddur um að það væri hæpið að telja það í samræmi við vilja kjósenda eða flokks, ef það kæmi þannig út að nöfn þeirra, sem á þingi sætu, væru naumast fyrir aftan stafinn á t.d. eða eitthvað slíkt. Ég bendi á þetta. Ég geri ráð fyrir að hv. flm. hafi í raun og veru verið þetta ljóst, það kom fram í framsögu hans, en hann hafi samt viljað flytja málið með þessum hætti, þó að honum væru í sjálfu sér ljósir þessir annmarkar. Mér skilst að það sé þessi skilningur, sem hann gerir ráð fyrir, vegna þess að í 4. gr. segir: „Yfirkjörstjórn telur fyrst saman alla kjörseðla hvers lista eins og engin breyting hafi verið gerð á listanum.“ Þá er það sem sagt listinn í stafrófsröð sem kemur til greina við úthlutun þingsætanna. Að þessu held ég að þurfi að huga.

Ég held að það megi með ýmsu móti nálgast það markmið sem fyrir hv. þm. og ýmsum öðrum vakir í þessu sambandi. Hér fara nú t.d. fram skoðanakannanir eða prófkosningar áður en valið er á lista til framboðs. Ég tel að ein leiðin, sem til greina gæti komið í þessu sambandi, væri að lögbjóða í kosningalögum prófkjör og þá jafnframt setja reglur um það þar, hvernig það prófkjör skuli fara fram, og síðan væri það látið ráða röðun á lista. Ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu að slík ákvæði væru sett í kosningalög. Auðvitað eykur það fyrirhöfn, má segja, en á hinn bóginn hlýtur það að verða til nokkurrar vakningar pólitísku lífi og hvetja menn til umhugsunar um það, áður en framboðslistar eru settir fram, hvernig þeir ætla að skipa sér í flokk við næstu alþingiskosningar. Þó að það megi að sjálfsögðu benda á ýmsa annmarka sem samfara eru slíkum prófkosningum, þá tel ég, ef þær verða gerðar að reglu samkv. kosningalögum og reglur settar um þær þar, að þá væri það engan veginn fráleit aðferð. A.m.k. er ég á þessari stundu, án þess að hafa íhugað það alveg til botns, frekar á slíku heldur en setja fram framboðslista með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að láta stafrófsröðina ráða. En eins og ég sagði áðan, þá er auðvitað hægt að hugsa sér að mönnum sé raðað á listann með ýmsum öðrum hætti heldur en í stafrófsröð. En ætli mönnum þætti ekki líka nokkuð handahófskennt að hverfa að því ráði, sem ég minntist á, að láta t.d. hlutkesti ráða því, hvernig menn væru settir á lista? Það væri þá kannske alveg eins hægt að snúa dæminu við og byrja á stafrófinu aftan frá og raða mönnum þannig á lista. Það held ég að væri jafnfráleitt.

Nei, sannleikurinn er sá, að það er auðvitað með ýmsum hætti hægt að nálgast þá hugsun sem vakir fyrir mönnum í sambandi við það að gera kjör persónubundnara en hingað til. Ég gat ekki annað heyrt en hv. síðasti ræðumaður, Benedikt Gröndal, gæti fellt sig við það eða talið það koma til greina að flokkarnir settu fram sína lista, en síðan gæfist kjósendum kostur á að gera breytingar þar á. Ég get tekið undir þetta. Þetta er vissulega leið sem er hægt að fara og ekki óskynsamleg. Það var sú leið sem hér gilti til 1959. Þá var kjósendum frjálst að gera þær breytingar á röð á framboðslista sem þeir vildu. Þeir gátu sett nr. 1 við síðasta nafnið á listanum og þá færðist það upp í fyrsta sæti, og þá hafði breyting á listanum fullt vægi, eins og farið er að tala um. Þessu var breytt 1959, og nú eru líklega allir orðnir sammála um að þá hafi verið farið aftur á bak í þessu efni, vegna þess að með þeirri breytingu, sem þá var gerð, var breytingin aðeins látin gilda að 1/3 hluta og fundnar upp heldur kúnstugar reglur til að ná þeirri niðurstöðu. Ég held þess vegna að eitt af því, sem við þurfum að hugsa um í þessu sambandi, þegar þessi mál eru athuguð, sé hvort ekki er rétt að hverfa að þeirri gömlu og góðu — skulum við segja — reglu sem gilti fyrir 1959 í þessu efni, ef menn þá vilja halda sér við hlutfallskosningar. Hitt er auðvitað rétt, eins og hér hefur verið bent á, að það er ekki hægt að finna neitt persónubundnara kjör heldur en einmitt það að menn séu kjörnir í einmenningskjördæmum, þar sem algerlega er kosið um persónurnar, ef menn vildu hverfa að því fyrirkomulagi. En hv. þm. Benedikt Gröndal var á því að gera ráð fyrir hlutfallskosningafyrirkomulagi.

Þessar aths. vildi ég nú gera í sambandi við þetta frv. Þær ber ekki að skilja á þá lund, að ég taki illa þessu frv. eða því framtaki sem í því felst, heldur að ég vil með þessum fáu orðum reyna að leggja áherslu á það, að þetta er ekki eins einfalt og sumir vilja jafnvel vera láta. Menn verða að gefa sér tóm til að hugleiða þessi mál áður en þeir slá föstu einhverju tilteknu kerfi í þeim efnum.

Ég er í raun og veru sammála hv. síðasta ræðumanni um að það getur verið óréttlátt að setja það skilyrði, sem sett er í stjórnarskránni, eins og það ákvæði hefur verið túlkað í framkvæmd, að flokkur skuli hafa náð kjördæmiskjörnum manni til þess að fá uppbótarsæti. Ég held að menn geti fallist á að það sé óeðlilegt að flokkur, sem fær talsvert af heildarprósentutölu allra kjósenda án þess að ná nokkurs staðar í kjördæmiskjörinn mann, sé alveg settur út. En ég vil út af því, sem hv. síðasti ræðumaður vitnaði til þess sem ég hefði sagt um þetta, segja það, að það er nú orðið nokkuð langt síðan ég skrifaði þetta og er nú farinn að gleyma því sem ég kann að hafa skrifað, en ég held að hafi verið sagt þarna, að það væri sennilega bægt, þannig að ekki sé fullyrt hvernig þetta yrði túlkað. Náttúrlega er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að við túlkun á þessu hlýtur að vera höfð hliðsjón af þeirri framkvæmd, sem verið hefur, og þeirri túlkun, sem þetta ákvæði hefur fengið í framkvæmd. En mér sýnist að í upphafi a.m.k. hefði mátt túlka þetta á þá lund, að þingflokkur gæti annaðhvort verið sá, sem fær mann kjörinn í kosningum, eða sá flokkur, sem hefur haft þm. á síðasta Alþ., þó að hann fái ekki nú kjörinn þm. Hins vegar held ég að mundi verða deilt um það, hvort þetta stjórnarskrárákvæði mætti túlka svo rúmt að það gæfi kosningalöggjafaheimild til að ákveða að uppbótarþingsæti skyldi úthlutað til flokks sem væri t.d. í fyrsta skipti í kjöri í kosningum og fengi að vísu háa prósentutölu, en kæmi samt engum kjördæmiskosnum manni að. Ég held þess vegna að það muni a.m.k. vera öruggara að hugsa til stjórnarskrárbreytingar í þessu sambandi ef menn ætla að breyta þessari framkvæmd sem verið hefur, af því að óneitanlega er þetta nokkuð venjuhelgað orðið, þó að löggjafinn hefði að mínum dómi a.m.k. í upphafi getað valið aðra leið en þá sem hann fór. Ég býst við að það fari líka svo, að menn komist að þeirri niðurstöðu í þessu sambandi, þegar menn fara að tala um breytingu á kosningalögum, að þeir reki sig stundum og kannske alloft á að það þurfi í raun og veru líka að breyta stjórnarskránni. Þannig kom það t.d. fram hjá hv. síðasta ræðumanni að hann teldi ekki ráðlegt — eða ég skildi hann svo — að þreyta ákvæði kosningalaganna og láta úthlutun jöfnunarþingsæta bara fara eftir atkvæðafjölda. Það er að vísu hægt alveg óvefengjanlega, af því að ekkert ákvæði er um það í stjórnarskránni, það eru bara kosningalögin sem ákveða það. Fram til 1969 voru líka sérstakar reglur og öðruvísi um þetta en nú gilda. Þá mátti flokkur hafa það sem kallað var raðaðan landlista og setja fram óskir sínar með þeim hætti um hvaða frambjóðandi hans yrði landsk. þm. Samkv. þeirri reglu kom hann í þriðja sæti. Þá gilti reglan að nr. 1 var sá sem flest hafði atkv., nr. 2 sá sem hæsta hlutfallstölu hafði í kjördæmi, eins og nú gildir, en síðan kom svo þetta val. ábending flokksins. Það má segja að með þessu hafi 1959 verið stigið skref til þess að draga úr valdi flokks. Ég skal ekkert fullyrða um hversu skynsamlegt það hefur verið, því að fram hjá því er ekki hægt að líta að landsk. þm. eru til jöfnunar á milli þingflokka og þess vegna ekki fráleitt að flokkarnir geti eitthvað sagt til um hvaða menn þeir vilji fá kjörna með þeim hætti.

Herra forseti. Ég skal nú ekki orðlengja þetta frekar. Segja má að þetta séu aðeins vangaveltur í sambandi við þetta mál. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áður, að ég tel það út af fyrir sig góðra gjalda vert að þm. sýni áhuga sinn á þessum málefnum með því að koma fram með till. um þau. En ég held að eftir að þær eru fram komnar þurfi menn að athuga þær nokkuð í heild til þess að gera sér grein fyrir hvaða leið beri að velja í þessu efni. Þó að það hafi e.t.v. talsverða þýðingu í þessu efni að flýta sér, þá held ég að hitt sé samt meira virði, að það skuli vel vandað sem gert er.