05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4487 í B-deild Alþingistíðinda. (3880)

217. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. það til breytinga á tollskrárlögum, sem hér er til 3. umr., hefur nú um nokkra hríð verið til umfjöllunar á Alþ. Frá því að frv. var lagt fram hefur komið í ljós við frekari athugun í fjmrn., að enn frekari leiðréttinga er þörf til viðbótar þeim sem till. hafa verið gerðar um af meiri hl. fjh.- og viðskn. og Nd. hefur þegar samþykkt. Leiðréttingar þessar stafa m. a. af frekari breytingum, sem nýverið hafa verið samþykktar af Tollasamvinnuráðinu á tollanafnaskrá Tollasamvinnuráðsins. Auk þess er að finna lækkun á örfáum tolltöxtum á tækjum í landbúnaði sem láðist að samræma við meðferð frv. til nýrra tollalaga á síðasta þingi.

Þar sem frv. það, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, felur fyrst og fremst í sér breytingar á íslensku tollskránni vegna breytinga á tollanafnaskránni, þá tel ég rétt að þessar síðustu leiðréttingar á tollanafnaskránni verði auk þess samþykktar nú á þessu þingi og teknar upp í frv. Því leyfi ég mér að flytja skriflega brtt. við frv. við 3. umr. málsins. Ég hef lagt till. inn á skrifstofuna og mun henni útbýtt innan tíðar, en ég leyfi mér, herra forseti, að leggja till. fram og óska eftir því að leitað verði afbrigða. Ég tel hins vegar eðlilegt að atkvgr. yrði frestað, ef forseta sýndist svo, þar til henni hefur verið útbýtt, en mér er kunnugt um að till. er nú í ljósritun. Ég hef kynnt tillöguna fulltrúum stjórnarandstöðunnar í fjh.- og viðskn., auk þess sem fulltrúar meiri hl. þar, sem áður höfðu flutt till., var um þessa till. kunnugt.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en leyfi mér að leggja til að frv. verð samþ. með þessum breytingum og þá vísað til hv. Ed. og vonast til þess að hægt verði að ná fram afgreiðslu þar í dag eða þá á morgun.