05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4487 í B-deild Alþingistíðinda. (3882)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Frsm. meiri hl. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., er komið frá Ed., þar sem það var borið fyrst fram, og hefur verið til meðferðar hjá allshn. þessarar hv.d. Þar varð að vísu ekki full samstaða um þetta mál, því að einn hv. nm., Ingólfur Jónsson, tók ekki afstöðu til málsins og Sighvatur Björgvinsson hefur skilað séráliti. En að meiri hluta álitinu standa 5 nm. og n. leggur til að þetta frv. verði samþykkt.

Það var nú ekki meining mín að eyða löngum tíma til þess að rökstyðja álit meiri hl. allshn. Við teljum, að þetta frv. sé þess eðlis, að það sé rétt að samþykkja það. Við teljum óeðlilegt, að erlendum aðilum sé heimilt að leggja fram fé til íslenskrar stjórnmálastarfsemi. Hvað mig snertir sjálfan og persónulega, þá vil ég taka það fram, að ég skoða þetta frv. ekki svo, að það sé verið að beina þessu gegn einum fremur en öðrum. Hér er um almenna afstöðu að ræða, og mig undrar satt að segja að það skuli geta komið fram andstaða gegn því, að slíkt frv. sé samþ., því að ég held að þegar menn fara að skoða hug sinn og athuga þetta mál ofan í kjölinn, þá sé í fyllsta máta óeðlilegt að erlendir aðilar leggi fram fé til íslenskrar stjórnmálastarfsemi. Ég held að menn hljóti því almennt að átta sig á að þetta á ekki við.

Það hefur að vísu verið upplýst hér nú á síðustu vikum og mánuðum, að þetta hefur átt sér stað. Það hefur komið fram í yfirlýsingum vissra flokksforustumanna, þ. e. a. s. forustumanna Alþfl., að þeir hafa þegið erlendan fjárhagsstuðning. Og vissulega eru þessar yfirlýsingar þeirra forustumanna Alþfl. kveikjan að því, að þetta frv. var flutt. Og ég verð að segja það, að það er full ástæða til þess að taka í taumana þegar það liggur fyrir að slíkt á sér stað. Og ef það er svo, að t. d. hv. Alþfl.-menn hér í þessari d. leggjast gegn samþykkt þessa frv., þá finnst mér þar skjóta nokkuð skökku við og mig furðar svolítið á afstöðu þeirra. Við skulum fyrirgefa þeim það sem þeir hafa gert, og við skulum fyrirgefa þeim það sem gerst hefur áður í þessum málum, en mér finnst að þeir ættu að hafa heilindi til þess að viðurkenna að þeir hafa farið skakkt að og að það er ekki siðferðilega rétt að þiggja erlendan fjárstuðning til stjórnmálastarfseminnar. Ég geri mér nú þrátt fyrir allt enn þá vonir um að Alþfl.-menn sjái að sér í þessu og þeir sjái að það er óeðlilegt að ganga gegn þessu máli.

Ég sé að hv. minni hl. allshn., Sighvatur Björgvinsson, hefur skilað hér nál. þar sem segir að þar sem í ráði sé að undirbúa og setja rammalöggjöf um starfsemi stjórnmálaflokkanna, þá virðist einsýnt að þetta mál eigi erindi inn í þann undirbúning og athugun, og er því hér með lagt til að frv. þessu verði vísað til ríkisstj. til athugunar í sambandi við fyrirhugaða rammalöggjöf.

Þetta kann að vera að einhverju leyti eðlileg till. fljótt á litið, en þegar maður fer að athuga málið, þá er það ekki.

Sannleikurinn er sá, að þetta mál hefur verið til umr., það að setja lög um stjórnmálaflokka. Það hefur starfað n. að þessu máli, hún hefur þegar skilað mjög ítarlegri álitsgerð og þ. á m. uppkasti að frv. um starfsemi stjórnmálaflokkanna. Innan þeirrar n. kom til tals að setja ákvæði um bann við því, að erlendir aðilar legðu fram fé til stjórnmálastarfsemi á Íslandi. En það varð samt ekki niðurstaðan að flytja till. um það efni vegna afstöðu sem kom fram hjá a. m. k. einum nm., hv. þm. Benedikt Gröndal. En ég vil upplýsa það, að þetta kom til umr. þar og það var að ég hygg fullur vilji allra annarra nm. en þessa eina manns að setja þetta ákvæði í uppkast að frv. að lögum um starfsemi stjórnmálaflokkanna. Nú þegar frv. kemur fram beinlínis um þetta atriði, þá finnst mér eðlilegt, vegna þess að ég hafði þá skoðun innan þessarar n., sem hér hefur verið fjallað um, að það bæri að setja slíkt bann, — þá finnst mér eðlilegt að taka undir það frv. sem hér liggur fyrir, og sú var mín afstaða innan allshn. og sú er afstaða fjögurra annarra nm. í allshn., þ. á m. formanns n., Ellerts Schram, sem ekki er hér í dag, en hann var einnig formaður í þeirri n. sem fjallaði um löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokkanna. Það kom einmitt mjög skýrt fram hjá honum, meðan hann starfaði sem formaður í þeirri n., að hann teldi eðlilegt að slík ákvæði kæmu inn í lög um stjórnmálaflokkana. Miðað við það, sem gerst hefur, þá held ég því að það sé óeðlilegt að vísa þessu máli til ríkisstj. á þeirri forsendu að verið sé að fjalla um þetta. Ég held að miklu eðlilegra sé að Alþ. taki afstöðu til þessa máls nú þegar og setji bann við því, að útlendingar leggi fram fé til íslenskrar stjórnmálastarfsemi.

Ég ætlaði mér ekki að vera langorður um þetta mál. Ég hef lýst afstöðu minni og afstöðu meiri hl. n. og mun ekki frekar eyða tíma í þetta mál nema þá að gefnu tilefni. En ég sem sagt legg hér fram álit meiri hl. allshn. þar sem lagt er til að þetta frv. verði samþykkt.