05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4489 í B-deild Alþingistíðinda. (3883)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Frsm. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það er í hæsta máta skiljanlegt og eðlilegt, að í þeim umr., sem orðið hafa að undanförnu, þ.á m. um nauðsyn þess að sett verði lög um starfsemi stjórnmálaflokka, skuli hugað að því, hvort ekki eigi að setja reglur um fjárhagsmál stjórnmálaflokkanna, þ. á m. um upplýsingaskyldu þeirra, skyldu þeirra til að upplýsa um sín fjármál, lagaskyldu t. d. sem þeim væri ætlað að sæta í sambandi við kosningafjármál sín, og málefni kosningasjóða flokkanna væru gerð opinber, hvernig þeir safna fé, og e. t. v. settar reglur, eins og mjög víða hafa verið settar, og þá einnig um það hvaða reglum kosningafjármál og kosningasjóðamál flokkanna ættu að sæta. Það er ósköp eðlilegt, að í þessari umr. komi fram hugmyndir um að setja einhver ákveðin takmörk á fjárhagsstuðning sem stjórnmálaflokkar fá frá öðrum aðilum.

Það er vitað, að ýmsir erlendir aðilar greiða talsvert fé til íslenskra aðila í einu og öðru formi. Nýlega var t.d. haldin bílasýning hér í Reykjavík. Í fréttum af þeirri bílasýningu var frá því skýrt, að þar sem hún bæri heitið Alþjóðleg bifreiðasýning hefðu erlendu framleiðendurnir fallist á að greiða mjög verulegan kostnað af sýningu þessari, þannig að mjög verulegur kostnaður við auglýsingasýningu bílaverslana, sem nýlega er lokið í Reykjavík, var greiddur af erlendu fé. Þá er það einnig vitað, að erlendir aðilar greiða mjög verulegt fé oft í kostnað við auglýsingu á vöru sinni hérlendis sem erlendis. Hér er ekki um að ræða neitt séríslenskt viðhorf. Þetta er viðhorf sem er almennt í flestöllum löndum, og þar er ekki talið óeðlilegt að erlendir framleiðendur á varningi eða öðru slíku greiði úr eigin vasa ýmsan kostnað sem hlýst af auglýsingum og sýningu á varningi þeirra innanlands. Öðru máli gegnir hins vegar að sjálfsögðu um félagasamtök eða stjórnmálaflokka eða önnur slík samtök sem með einhverjum hætti starfa til þess að hafa áhrif á pólitíska skoðanamyndun almennings.

Allir þessir aðilar, sem ég hef hér nefnt og fá með beinum eða óbeinum hætti fé frá erlendum aðilum, vinna að því að hafa áhrif á skoðanamótun almennings, einkum í tilteknum atriðum, en það þarf ekki endilega að vera hvað stjórnmál varðar. Spurningin er því: Er eðlilegt að setja aðrar reglur hvað varðar stjórnmálaskoðanir og stjórnmálastörf heldur en t. d. sett eru öllum öðrum félögum? Og ef líklegt er að þrengri reglur í þessu sambandi gildi um stjórnmálaflokka eða stofnanir sem taldar eru starfa á vegum stjórnmálaflokkanna, má þá ætla að stjórnmálaflokkar stæðust þá freistingu til þess að geta með einhverjum hætti notið svipaðrar fyrirgreiðslu og ég er hér að nefna að setja upp stofnanir sem störfuðu beint eða óbeint í þágu þeirra, en væru skrifaðar sem stofnanir á vegum einstaklinga eða óháðra félagasamtaka.

Í 2. gr. frv., sem hér er til umr., er t. d. sagt að lög þessi taki til stjórnmálaflokka og félagasamtaka þeirra svo og til hvers konar stofnana sem starfa á þeirra vegum beint eða óbeint, þ. á m. blaða. Ég held að það yrði ákaflega erfitt fyrir þá, sem mundu fjalla um lögskýringu á þessari grein, að draga markalínuna um það, hvenær telja megi að blöð störfuðu á vegum stjórnmálaflokka og félagssamtaka þeirra og hvenær ekki. Nú vita menn það, að því er haldið mjög stíft fram t. d. að Morgunblaðið starfi alls ekki á vegum eins stjórnmálaflokks í landinu eða í þágu neins stjórnmálaflokks í landinu, enda sé það gefið út af sérstöku hlutafélagi. Sama máli gegnir um Vísi og Dagblaðið. Ef þetta nægir til þess að geta fallið undan þessari 2. gr., að þessi blöð séu rekin af hlutafélögum sem ekki eru í neinum tengslum við stjórnmálaflokkana, má þá ekki ætla að þeir, sem vildu losa sig undan ákvæðum þessarar greinar, gætu gert það með því einu að breyta rekstrarformi á þeim fyrirtækjum eða stofnunum sem þeir ætla að ná undan ákvæðum þessara laga?

Ég skil ákaflega vel hvers vegna hugmyndir um það að setja stjórnmálastarfsemi í landinu þau takmörk, sem hér er um að ræða, eru komnar fram. En ég held að menn verði að vanda sig ákaflega við lagasmíði í því sambandi, þannig að það sé alveg ljóst og liggi ljóst fyrir hvað Alþ. á við með setningu slíkra laga. Ég vek t. d. athygli á því, að í 1. gr. eru engin ákvæði um upplýsingaskyldu íslenskra stjórnmálaflokka um gjafafé. Það er enginn möguleiki gefinn á því, að íslenskum stjórnmálaflokkum sé skylt að upplýsa um sín fjármál. Og getur þetta þá orðið þannig, að stjórnmálaflokkur beri raunar ábyrgð á aðgerðum, sem kannske einn eða tveir menn í nafni flokksins hafa gert án þess að þeim hafi borið skylda til þess að upplýsa um gerðir sínar, hvorki innan flokksins né utan hans.

Það eru margar fleiri slíkar spurningar sem vakna, m. a. sú, hvernig eigi að framfylgja því banni sem lagt er til að sett verði með samþykkt þessa frv., hver eigi að hafa eftirlit með því, að það sé ekki gert sem bann er lagt við o. s. frv. Enn fremur: Á að binda þetta bann við stjórnmálaflokka einvörðungu? Hvar ætla menn að draga markalínurnar um það, hvað sé stjórnmálaflokkur og hvað ekki? Engin slík markalína er til í lögum. Það hefur skapast um þetta ákveðin hefð, en ég bendi t. d. á að hér á landi hafa verið starfandi samtök fólks sem hafa stundað stjórnmálastarfsemi, en samt sem áður ekki talið sig vera stjórnmálaflokka. Það er mönnum í fersku minni t. d., að Alþb. taldi sig ekki vera stjórnmálaflokk mörg sín fyrstu ár, heldur fyrst og fremst kosningabandalag. Samkv. orðanna hljóðan í 1. gr. þessa frv. hefði þá sú grein ekki átt að taka til Alþb., þar sem Alþb. væri ekki íslenskur stjórnmálaflokkur, heldur kosningasamtök. Sem sé, það eitt að Alþb. á þessum tíma taldi sig ekki vera stjórnmálaflokk og laut ekki almennum skipulagsreglum stjórnmálaflokka hefði gert það að verkum, að sú stjórnmálahreyfing, ein þeirra sem áttu fulltrúa hér á Alþingi Íslendinga, hefði ekki lotið ákvæðum þessara laga. Önnur stjórnmálasamtök hafa starfað misjafnlega langan tíma hér í landinu. Tökum t. d. Fylkinguna sem starfaði lengi vel sem óháð stjórnmálasamtök. Hún leit ekki á sig árum saman sem stjórnmálaflokk. Á þá Fylkingin að vera undanskilin ákvæðum 1. gr. frv. þar að lútandi, að íslenskum stjórnmálaflokkum sé óheimilt að taka við gjafafé?

Við höfum fjölmörg önnur félagssamtök sem starfa að stjórnmálum án þess að vera stjórnmálaflokkar. Ég tel t. d. að þeir, sem eru meðlimir í menningarfélagi Íslands og Kína, telji sig starfa að stjórnmálastarfsemi að þó nokkru leyti. Þeim er samkv. orðanna hljóðan í þessu frv. ekki óheimilt að taka við gjafafé eða öðrum fjárhagslegum stuðningi til starfsemi sinnar frá erlendum aðilum vegna þess að þeir eru ekki stjórnmálaflokkur. Sama máli gegnir um menningarsamband eða menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, menningartengsl Íslands og Albaníu sem ég hygg vera til, og ég býst við að það séu til svona menningarleg tengsl við flest Austur-Evrópuríkin. Það eitt, að frv. nær aðeins til íslenskra stjórnmálaflokka, gerir það að verkum, að lögum samkv. mættu þessir aðilar þiggja gjafafé eða annan fjárhagslegan stuðning til starfsemi sinnar frá erlendum aðilum. Ég tel mjög vafasamt að vilji Alþ. sé að þessir aðilar eigi að sitja við eitthvert annað borð heldur en aðrir aðilar sem stjórnmálastarfsemi stunda í landinu. Ef sá er ekki vilji Alþ., að þetta ákvæði taki aðeins til stjórnmálaflokka, en ekki annarra stjórnmálasamtaka, þá tel ég að sjálfsögðu nauðsynlegt að þessi grein verði endurskoðuð.

Við tökum einnig við ýmsum fjárstuðningi frá norrænum aðilum, m. a. ýmis félagasamtök okkar stjórnmálaflokka. Ungliðasamtök stjórnmálaflokkanna taka t. d. við fjárframlagi úr samnorrænum sjóðum til þess að halda stjórnmálaráðstefnur hér á Íslandi með þátttöku Íslendinga og sniðnar til þess að hafa áhrif á íslensk þjóðmál og íslenskar þjóðmálaumræður. Eitt slíkt námskeiðahald eða ráðstefna stendur nú fyrir dyrum á vegum Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þetta er ráðstefna sem mun verða kostuð af samnorrænu fé. Þátttakendur í ráðstefnunni verða bæði innlendir og erlendir áhugamenn um stjórnmál. Viðfangsefni ráðstefnunnar er að fjalla um þjóðmál sem m. a. eru mjög ofarlega á baugi hér á Íslandi. Eigum við að gerast eina landið af Norðurlöndum sem ekki gefur færi á því að efna til slíkrar ráðstefnu um þjóðmál með norrænni samhjálp, vegna þess að okkur liggur svo lífið á að banna íslenskum stjórnmálaflokkum að taka við gjafafé frá erlendum aðilum að við gefum okkur ekki tíma til þess að vanda lagagerð eins og best við vildum?

Ég ætla ekki að ræða mjög ítarlega þetta frv., vegna þess að ég á ákaflega bágt með að trúa því, að a. m. k. þm. í þessari hv. d. vilji gera aðrar breytingar eða réttara sagt vilji lögleiða annað en beinlínis fyrir þeim vakir. Og ég hef ekki trú á því, að meiri hluti þm. í þessari deild vilji leiða í lög atriði sem raunar banna ákveðnum stjórnmálahreyfingum í landinu, sem hafa heitið stjórnmálaflokkar, að gera ákveðna hluti eða taka við ákveðnum framlögum erlendis frá, en á sama tíma sé slíkt heimilað öðrum stjórnmálasamtökum.

Ég ætla aðeins að vekja athygli manna á einu. Þetta frv., þó að lögum verði, kemur t. d. ekki í veg fyrir það, að erlendir aðilar kosti blaðaútgáfu í Íslandi. Samkv. þessu frv. er það enn opið að erlendir aðilar, t. d. erlend sendiráð, gefi út dagblöð á sinn kostnað hér álandi. Einu lagahömlurnar við slíkri útgáfu erlendra aðila, dagblaðaútgáfu eða tímaritaútgáfu, er það, að þeir verða að hafa íslenskan ábyrgðarmann. Það hefur nýlega komið í ljós í sambandi við útgáfu fréttatímarits sem heitir Fréttir frá Sovétríkjunum, kostað af rússneska sendiráðinu, að einu hömlurnar, sem upphaflega voru á því að þetta fréttatímarit kæmi út, voru þær að það vantaði íslenskan ábyrgðarmann. Íslenski ábyrgðarmaðurinn var fenginn, nokkuð kunn íslensk kona sem er skrifuð sem ritstjóri og ábyrgðarmaður þessa blaðs. Mér er kunnugt um það í þeirri prentsmiðju, þar sem þetta blað er unnið, að það er að verulegu leyti unnið af starfsmönnum rússneska sendiráðsins, og það er ekkert launungarmál, að blaðið er kostað af rússneska sendiráðinu, þannig að það er ekkert sem kemur í veg fyrir það samkv. íslenskum lögum að erlendur aðili, erlent sendiráð kosti dagblaðaútgáfu á Íslandi, aðeins ef dagblaðið er ekki talið gefið út af stjórnmálaflokki og einhver einn einstaklingur með íslenskan ríkisborgararétt er skráður ábyrgðarmaður blaðsins. Þannig gæti hver og einn, sem hér er inni. og hver og einn landsmaður tekið að sér gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri að gerast ritstjóri blaðs, dagblaðs, sem yrði að öllu leyti kostað af erlendu fé og hann þyrfti því ekkert sjálfur í té að láta annað en nafnið sitt sem ábyrgðarmaður blaðsins.

Í þessu sambandi vil ég gjarnan segja ykkur eina sögu. Fyrir nokkrum árum, þegar ég var ritstjóri Alþýðublaðsins, var starfandi hér hjá rússnesku fréttastofunni APN ákaflega duglegur fréttamaður. Því miður man ég nú ekki nafn mannsins, en m. a. skrifaði hann á þeim tíma, sem hann var hér, mikla og ágæta grein í Morgunblaðið um orrustuna um Leningrad, en þar var hann þátttakandi. Ég býst við að þm. reki minni til þessarar greinar og þá, sem fylgst hafa með starfsemi sovéska sendiráðsins, eins og sumir hafa gert, rekur þá kannske betur minni en mig til nafns mannsins, því miður man ég það ekki. Þessi maður var næstum daglegur gestur á ritstjórnarskrifstofum íslensku blaðanna og ákaflega óþreytandi í því að koma á framfæri við okkur ritstjóra blaðanna hinu og þessu efni frá APN. Ég tók þann pól í hæðina, ég varð fljótt þreyttur á þessum manni, einfaldlega vegna þess að hann gaf manni varla stundlegan frið, hvorki á vinnustað né heima, að ég hætti að birta efni frá þessari rússnesku fréttastofu. Einn góðan veðurdag kom maðurinn síðan að máli við mig á skrifstofu minni og bauðst til þess, að ef ég vildi birta greinar frá APN skyldi hann greiða blaði mínu fyrir sem samsvaraði auglýsingataxta á þeim tíma. Ég neitaði þessu boði algerlega og alfarið og lét athuga það fyrir mig á eftir, hvort þetta væri lagalega hægt, hvort það væri unnt fyrir starfsmann erlends sendiráðs að óska eftir því, að blöð birtu efni frá þessu erlenda sendiráði beint eða óbeint og hið erlenda sendiráð greiddi síðan fyrir það sem auglýsingar í blaðið, og mér var tjáð að ekkert væri sem bannaði þetta, það væri á valdi blaðsins, hvort það birti þetta, og það væri líka á valdi blaðsins, hvort það léti þess getið, að sú grein eða frétt, sem birt var, eða pólitísk umsögn um alþjóðamál, eins og yfirleitt var um beðið, væri birt sem auglýsing.

Skömmu síðar gerðist það, — ég ætla ekki að fara að ræða það neitt frekar, — að eitt dagblaðið í borginni fór að birta mjög títt fréttaumsagnir frá rússnesku fréttastofunni APN, sem vöktu athygli manna mjög, ekki aðeins fréttaumsagnir, heldur beinar stjórnmálagreinar með úttekt á alþjóðastjórnmálum. Ég ætla engum getum að því að leiða, að nokkur íslenskur ritstjóri hafi tekið því auglýsingatilboði sem ég hafnaði. Mér dettur ekki í hug að nokkur íslenskur ritstjóri hafi gert slíkt eða mundi gera það. En ég er aðeins að segja ykkur þessa sögu til þess að mönnum sé það ljóst, að jafnvel þó að dagblaði eða tímariti væri bannað að taka við fé frá erlendum aðilum, dagblaði eða tímariti sem út væri gefið af stjórnmálaflokki eða á vegum hans, þá er ekkert, hvorki í þessu frv. né gildandi lögum, sem bannar það, að slíkt blað eða tímarit, sem rekið væri af einstaklingi eða félagasamtökum öðrum en stjórnmálaflokkum, veitti viðtöku slíkum styrkjum. Það er ekkert sem bannar það, að ritstjóri íslensks blaðs birti síðu eftir síðu af pólitískum umsögnum fyrir milligöngu erlendra sendiráða og tæki fyrir það fullt gjald eins og um auglýsingataxta væri að ræða.

Ég hef á þskj. 905 í mínu nál. lagt til að frv. þessu verði vísað til ríkisstj. til frekari athugunar, svo að tími gefist til þess að taka þær hugmyndir, sem þar eru fram settar, betur til athugunar í því skyni að ná þeim tilgangi sem ég býst við að vaki fyrir flm. Þessa till. mína um að vísa frv. til ríkisstj. ætla ég að draga til baka til 3, umr. Hins vegar flytjum við tveir þm. á þskj. 911. brtt. við frv. þetta. Flm. auk mín er hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Brtt. er á þá lund, að aftan við 1. gr. frv. eins og hún er bætist: „Þá er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu.“ Aftan við 2. gr., sem fjallar um til hvaða aðila lög þessi taki, komi viðbót er hljóði svo: „og einnig til blaða eða tímarita, sem út eru gefin á vegum einstaklinga eða félagasamtaka.“ Og í þriðja lagi að fyrirsögnin orðist svo: „Frumvarp til laga um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi.“

Þessa brtt. flytjum við saman, ég og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, og það hefur orðið að ráði, m. a. til þess að hægt væri að koma í veg fyrir dulbúna útgáfustarfsemi erlendra sendiráða eins og ég hef gert að umræðuefni hér.

Í gær eða réttara sagt í fyrradag, held ég að það hafi verið, sem haldinn var sá nefndarfundur í allshn. Nd. sem um þetta mál fjallaði. Var staðið þannig að því fundarboði, að ég fékk aldrei boð til þess nefndarfundar. Formaður allshn. Nd., hv. þm. Ellert B. Schram, hafði tjáð mér að til stæði að halda fund í allshn. m. a. um þetta mál annaðhvort kl. 10 fyrir hádegi í gærmorgun eða kl. 2 eftir hádegi. Ég sagði að ég væri að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að mæta þá til fundar. Rétt um kl. hálfsex var hringt til mín og mér sagt að búið væri að halda fund í allshn. Nd. þar sem sú afgreiðsla hefði orðið sem hv. frsm. n. lýsti áðan. Ég spurði þá formann allshn. hvort það væri nú ekki vani að halda nefndarfundi þannig að allir nm. væru boðaðir. Hann sagði svo vera og bauðst til þess að boða nefndarfund þá aftur strax um kvöldið, kl. hálfátta í fyrrakvöld eða kl. hálfníu, og ég tjáði honum að ég væri reiðubúinn til að mæta á fundi þá. Það var hins vegar sammæli með okkur til þess að vera ekki að tefja neitt að óþörfu framgang þessa máls, að ég skyldi láta eins og ég hefði fengið fundarboðið og hann tilkynnti í nál., eins og hv. frsm. gerði, að ég myndi skila séráliti. Þrátt fyrir þennan formgalla á boðun fundarins hef ég ekki notað það sem neina átyllu til að tefja þetta mál. En þar sem mér var ekki gefinn kostur á að mæta á nefndarfundinum, þá gat ég að sjálfsögðu ekki gert nm, grein fyrir þeirri skoðun minni, sem ég hef verið að lýsa hér áðan, né heldur efni þeirrar brtt. er við hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson höfum flutt. Ég tel nauðsynlegt að hv. allshn. fjalli um þessa brtt. og vil því beina þeirri eindregnu ósk til hæstv. forseta, að hann geri hlé á umr. um þetta mál svo að hv. allshn. gefist færi á því að fjalla um brtt. á þskj. 911.