09.11.1977
Neðri deild: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

21. mál, kosningar til Alþingis

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það hafa farið fram hér á hv. Alþ. allmiklar umr. að undanförnu um kjördæmaskipun í landinu og kosningalög. Þessar umr, hafa einkum snúist um tvö meginatriði. Það fyrra er svonefnt persónubundnara kjör en nú er, þ.e.a.s. að gefa kjósendum meiri rétt en nú er til þess að velja á milli einstakra manna og hafa áhrif á hvaða röð gildi á hverjum framboðslista. Í öðru lagi er svo fjallað um það misrétti sem óneitanlega er komið upp og hefur reyndar lengst af verið á milli einstakra kjördæma varðandi fulltrúaval til Alþingis. Fyrst og fremst finnst mér umr. hafa snúist um þessi atriði, þó að margt fleira hafi þarna komið inn í og sitthvað megi segja um þau sjónarmið sem þar hafa komið fram.

Varðandi fyrra atriðið, persónubundnara kjör, þ.e.a.s. kjósendum sé gefinn aukinn réttur til þess að velja tilteknar persónur, þá hugsað út frá því að nú séu menn um of bundnir við það að kjósa flokka, má margt segja. Ég held að það sé enginn vafi á því, að í okkar stjórnskipunarkerfi höfum við einmitt byggt fyrst og fremst á því að heimila frjálsa flokkamyndun og ganga út frá því að kjósendur og fólkið í landinu almennt hafi fullan og óskoraðan rétt til þess að skipa sér í samtök um sameiginleg áhugamál, berjast fyrir þeim, og að á þeim grundvelli gætu menn haft áhrif á stjórn landsins og á lagasetningu í landinu í gegnum þau samtök sem almennt koma fram sem stjórnmálasamtök. Raunverulega, þegar betur er að gáð, hvílir það þingræðisskipulag og það margumtalaða lýðræði okkar í þingskipunarmálum, einmitt á þessu. Það hefur ekki þótt ýkjamikið lýðræði þar sem skipanin var orðin sú, að aðeins einn flokkur var löggiltur eða hafði aðstöðu til að starfa. Nú finnst mér að þessi umr. hafi mjög borið keim af því, að menn tækju undir þann áróður, sem oft hefur skotið upp kollinum, ekki aðeins hér á landi, heldur enn þá meira víða í öðrum löndum, en það er að reyna að ráðast á stjórnmálaflokkana og gera þá eins svarta og mögulegt er og segja að allt illt stafi frá þeim, þeir séu klíkur, flokksklíkur, sem verði að koma í veg fyrir að hafi tiltekið vald. Ætli menn þekki þetta ekki frá vissum löndum sem voru sérstaklega að ryðja einræðisfyrirkomulagi braut? Þeir sem taka undir þennan áróður, ég held að þeir hafi ekki hugsað málið ýkjavel, hve miklar hættur eru fólgnar í því að ætla raunverulega að brjóta niður eða draga úr frjálsu og eðlilegu flokkakerfi. Auðvitað hafa kjósendur síðan sinn rétt til að velja á milli flokka, til að dæma flokka eftir því hvaða stefnuskrá þeir hafa og hvernig þeir virðast hafa staðið við það sem þeir boða. Þar liggur auðvitað val kjósendanna, að velja á milli eftir þessu. En kjósendurnir mundu ekki að mínum dómi komast ýkjalangt með að hafa áhrif á þessi meginatriði varðandi stjórn landsins ef væri búið að færa þá inn á það svið, að þeir ættu að kjósa menn eingöngu út frá persónumati á mönnunum. Ég held að það mundi fljótlega með okkar nútímatækni færast í það að menn mundu fara að kjósa þá eftir fallegum myndum.

Auðvitað vitum við að 60 menn verða ekki valdir á Alþ. eingöngu á persónulegum grundvelli. Ef þeir kæmu þannig saman mundu þeir renna saman í flokka eða klíkur, eins og menn kalla það nú á dögum. Það hefur einnig sýnt sig þar sem um er að ræða val á þm. í einmenningskjördæmum, að það er mikill misskilningur að þeir þm., sem valdir eru samkv. slíkum reglum, séu eitthvað minna háðir flokkasamtökum og flokkasamstarfi en þeir sem eru valdir eftir öðrum reglum, t.d. hlutfallskosningareglum. Um þetta höfum við fjöldamörg sönnunargögn og þekkjum það frá fyrri tíma hér á landi. Það er ekki það sem breytir málinu. Ég vil því segja það, að ég er í grundvallaratriðum á móti þessum áróðri, tel hann hættulegan og óeðlilegan. En það þýðir ekki að ekki megi athuga hvort við getum í okkar kosningaskipulagi gefið kjósendum aukinn rétt umfram það, sem nú gildir, til þess að hafa áhrif á hvaða menn eru kosnir af hinum ýmsu framboðslistum.

Eitt af því, sem ég tel að þurfi að leiðrétta í þessum umr., eru þær röngu fullyrðingar sem hér eru bornar fram um það, hvaða reglur gilda hjá okkur varðandi þetta atriði. Hér er því haldið fram af mörgum hv, þm., að það sé búíð að afnema þennan rétt með öllu, að menn geti haft áhrif á hver verði röðun á framboðslistum á þeim mönnum sem ná kosningu, þessu hafi verið breytt árið 1959, þannig að nú hafi menn eiginlega engan rétt í þessum etnum. Það er rétt, það var ákveðin nokkur breyting í þessum efnum á okkar kosningalögum árið 1959, og það er ekki ófróðlegt að rifja upp hvað gerðist varðandi þetta atriði hér á Alþ. þegar þessi breyting var samþykkt. Þá kom í ljós að allir þm., þm. úr öllum flokkum, voru sammála um að það þyrfti að breyta þeim reglum sem þá voru um þetta vald kjósenda til að hreyfa til menn á lista. Það voru allir á þessari skoðun. Það kemur greinilega fram í umr. um málið á Alþ., m.a. í framsöguræðu fyrir meiri hl. þeirrar n. sem fjallaði um málið, en það var hv. þm. Jóhann Hafstein sem hafði þá framsögu og kom skýrt fram í hans máli, að allir hefðu verið sammála um að hreyta þeim reglum sem um þetta höfðu áður gilt. Nýjar reglur voru settar varðandi þetta. Og þá er rétt að rifja það aðeins upp hvernig reglurnar voru varðandi þetta vald kjósenda til að hreyfa menn til á lista og hvernig þær eru.

Reglurnar voru þannig, að t.d. í stærsta kjördæminu, í Reykjavík; þurftu ekki nema rétt rúm 4% af kjósendum að nota mest verkandi breytingu á listanum, þ.e.a.s. að strika yfir nafn þess sem var í tilteknu sæti, og koma þannig í veg fyrir að hann fengi atkv. frá þeim manni sem notaði útstrikunarregluna, það þurfti ekki nema 4% kjósenda til að breyta röðun á lista. Það hefði þýtt í síðustu kosningum hér á Reykjavíkursvæðinu, að t.d. varðandi Alþfl. hefðu það verið um 160 menn sem hefðu getað haft áhrif á það, að maður nr. 2 á listanum hefði fremur náð kosningu heldur en sá sem var nr. 1. Það hafði komið fyrir hér í kosningum að litill hópur manna, það sem ég kalla klíku, en menn eru nú farnir að kalla heila stjórnmálaflokka klíkur, þeir gátu skipulagt sig og læðst að greinilegum meiri hl. og haft áhrif á það að hreyfa til þá skipun sem meiri hl, hafði raunverulega alveg óumdeilanlega viljað hafa á listanum. Og þetta gerðist. Einmitt í ljósi þess, sem hafði gerst í þessum efnum í þingkosningum og í sveitarstjórnarkosningum, þar sem meginreglan var sú sama, voru allir þm. á því, þegar þessi breyting fór fram, að það yrði að breyta þessu, það næði engri átt að minni hl. og það svona lítill minni hl. gæti haft svona mikið vald, hann gæti á þennan hátt læðst að meiri hl. og raskað skipun listans. En þegar kom að því að menn ræddu um það, hvað ætti að breyta þessu að miklu leyti, þá vildu menn í fyrstu umferð gera helmingi erfiðara fyrir minni hl. að knýja fram breytingu, og var þá gert ráð fyrir því í brtt., sem fram kom að það þyrfti t.d. í Reykjavík um 8%. En það komu miklar aths. við það hjá mörgum þm., að með þessu væri enn þá verið að gefa minni hl. allt of mikið vald til þess að hreyfa til menn á lista, og þessari till, var breytt og var breytt í það sem nú gildir, að nú þarf rétt um 12% kjósenda til þess að geta komið fram slíkri breytingu hér í Reykjavík. Ef við tökum enn dæmi af Alþfl. úr síðustu alþingiskosningum, sem mun hafa haft hér á Reykjavíkursvæðinu rétt yfir 4 þús. atkv., þá þyrftu á vegum Alþfl. að koma til a.m.k. 480= 500 kjósendur, sem beittu þessu valdi sínu, til þess að raska röðun listans. Og menn voru á því árið 1959, þegar þessar reglur voru settar, að það væri ekki líklegt að 12% kjósenda eða þar um bil gætu tekið sig saman og beitt svona útstrikunarvaldi án þess þá að aðrir, sem stæðu að þessum lista, yrðu varir við slíkan flokkadrátt og gætu þá gert sínar mótráðstafanir.

Þetta var eitt meginsjónarmiðið sem kom fram, að láta mörkin liggja það hátt að það væri nokkurn veginn tryggt að aðrir gætu þá gripið til sinna gagnráðstafana til þess að koma í veg fyrir að þessi minni hluti svo að segja læddist að meiri hl. Nú tala menn þannig að þetta sé allt of litill réttur kjósenda. Ég veit það ekki. Ég held fyrir mitt leyti að það sé heldur óskemmtilegt, svo ég haldi mig við þetta dæmi um Alþfl. enn þá eða flokk sem hefði svipað atkvæðamagn hér á Reykjavíkursvæðinu, að gera ráð fyrir að menn geti haft svo mikil áhrif á röðun manna lista að það þurfi ekki nema í kringum 500 manns að skipuleggja sig, og ég held þeir geti skipulagt sig tiltölulega auðveldlega án þess að það fréttist mikið af því og aðrir væru þá viðbúnir að beita mótaðgerðum. Það er auðvitað enginn vafi á því, að við eigum að hafa þessar reglur þannig, að komi fram meirihlutavilji til þess að hreyta um röð á lista, þá á sá meiri hl. að verða gildandi. Það er sjálfsagt að breyta þessum reglum þannig að það sé alveg tryggt. En það geta staðið deilur um hvort rétt sé t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu að gefa 4% af kjósendum þetta mikla vald eða hvort eigi að gera kröfu um að það séu a.m.k. 12%.

Það var athyglisvert þegar gengið var frá þessu máli 1959, að þeir einu, sem komu með gagnrýni á þessa breytingu, voru aðilar sem fluttu till. um að setja þessa kröfu enn þá hærra. Það var Alþfl. -maður sem m.a. flutti þá till, á þinginu, að það þyrftu að vera 50% eða þar yfir til þess að geta komið fram breytingu á lista.

Ég lýsi því yfir sem minni skoðun, að ég er algjörlega andvígur að gefa kjósendum t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu meiri rétt en nú er gert ráð fyrir í lögum, þ.e.a.s. miðað við 12% til þess að geta raskað lista sem lagður hefur verið fram. Það er hins vegar rétt að út frá ákveðinni reikningsreglu, sem samþ. var og nokkuð var umrædd á sínum tíma þegar þessi breyt. var gerð, þarf talsvert miklu hærri prósentu til að koma fram breytingu í minni kjördæmunum. Það mun þurfa 27% eða rétt um það bil í fimm þingmanna kjördæmi til þess að koma fram breytingu og eitthvað um 23% þar sem um er að ræða að sex menn séu kosnir. Það er að mínum dómi sjálfsagt að athuga á nýjan leik þau réttindi sem þarna er fjallað um, og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það, sem ákveðið var í þessum efnum árið 1959, sé það eina rétta. En það er algjörlega rangt, sem þér hefur verið sagt af fleiri en einum hv. þm., að nú sé útilokað með öllu fyrir kjósendur að koma fram breytingu á framboðslista. Menn hafa þennan rétt, en minni hl. hefur ekki jafnmikla möguleika og hann hafði áður til að raska röðun á lista.

Þá er hitt atriðið, sem kemur m.a. fram í því frv. sem hér liggur fyrir, að menn koma með till. um að framboðslistar skuli í rauninni ekki vera raðaðir eða þar skuli nöfnin aðeins birtast, þau sem tilnefnd hafa verið til framboðs, í stafrófsröð. Mér er alveg sama hvort það er stafrófsröð eða einhvers konar hlutkesti sem ræður um það hvernig nöfnunum er svo að segja hent á hlaðið. Ég tel slíkt ekki til bóta, heldur stórt skref aftur á bak. Allt slíkt er yfirborðslýðræði, en ekki réttlæti. T.d. á að segja við menn hér á Reykjavíkursvæðinu: Hér eru 24 nöfn. Af þeim á að kjósa 12 alþm. Hringlið nú með þau eins og þið viljið. Þið skuluð raða þessu eins og þið viljið. — Þetta er auðvitað ekkert annað en yfirborðslýðræði, að tala um að það sé einhver réttur fyrir menn að fá slíkt sem þetta. Auðvitað vitum við að meginhlutinn af kjósendum hefur ekki aðstöðu til að þekkja alla þessa aðila eða geta lagt sinn eðlilega dóm á þá persónulega. Það er engin leið fyrir fólkið að ráða fram úr þessum vanda af nokkru viti nema í gegnum einhvern flokkslegan eða klíkulegan áróður þar sem menn eru búnir að dragast í ákveðna hópa og klíkur og segja: Þessi klíka vill þetta og hin klíkan vill hitt. — Þannig verður mönnum bent á að kjósa skv, formúlu klíkunnar. Öðruvísi er þetta ekki hægt.

Það var lengi svo, að því var haldið fram að þær kosningareglur væru í eðli sínu lýðræðislegastar og bestar sem væru einfaldastar. Til þess að gefa öllum kjósendum kost á því að taka virkan þátt í kosningunni var stefnt að því að hafa kosninguna eins einfalda og mögulegt var. Við höfum eins og margir aðrir valið þá leið, að það þyrfti hvorki að skrifa nöfn flokkanna né þeirra manna sem um var að ræða. Það þurfti ekki annað en setja einn einfaldan kross fyrir framan tiltekinn bókstaf til þess að hafa kosninguna eins einfalda og mögulegt var. Þetta þótti og hefur ekki aðeins í okkar landi, heldur einnig annars staðar, alltaf þótt mikils virði. Því eru að mínum dómi til hins verra allar reglur sem stefna að því að gera kosninguna flókna, jafnvel svo flókna sem mér fannst að kæmi fram í málflutningi flm. þessa frv. Mér fannst hann ekki ráða fyllilega sjálfur við það kerfi sem hann var með. Slíkt er ekki til þess að auka lýðræði. Það er enginn vafi á því, að með því að segja við kjósendur: Þið megið gera þetta og þetta og þetta — og telja upp ótal liði og tilfærslur og breytingar, þá er það svo að það getur aldrei í framkvæmd gilt nema fyrir tiltölulega litið úrtak af kjósendum, og það verður sá hópur, sú klíka sem notfærir sér slíkar reglur, en hinn almenni maður og meginþorri hópsins notfærir sér ekki slíkar krókaleiðir og hefur þannig minni rétt og getur auðveldlega verið plataður í leiðinni. Því álít ég að við eigum áfram að halda okkur við þá gömlu kenningu, sem hefur þótt góð bæði hér á landi hingað til og annars staðar, að hafa kosninguna eins einfalda og mögulegt er. Allar aukaflækjur eru til bölvunar. því held ég að eigi að fara mjög gætilega í að bæta við einhverjum viðbótarreglum umfram það sem verið hefur hjá okkur.

Ég verð því að segja að afstaða mín er sú til þessa frv., að ég tel það í eðli sínu alveg fráleitt. Og jafnvel þó að slík leið sem þessi væri reynd þá hef ég enga trú á því, að þarna yrði í sjálfu sér um persónubundnara kjör að ræða en á sér stað nú. Það mundu alltaf koma upp flokkar og hópar sem slá hring um ákveðna menn, og hinn almenni kjósandi getur ekkert annað gert en að fara eftir áróðri slíkra hópa.

Stóra spurningin er í sjálfu sér þegar menn tala um persónubundið kjör: Eru menn að gefast upp á stjórnmálaflokkum? Er kannske réttast að leysa þá upp og losa sig við þá og segja bara: Allir eru í kjöri og svo geta allir gert það sem þeir vilja, skrifið bara nöfn þeirra ágætu manna sem þið viljið, það er mest réttlæti í því, eða kasta bara hlutkesti um þá menn sem búa í landinu? — Nei, það er ekki þetta sem eykur í sjálfu sér nein lýðréttindi. Ég held að við þurfum á stjórnmálaflokkunum að halda, og ég held að við eigum að reyna að gera okkur kjósendur þannig að þeir séu færir um að velja á milli flokka og á milli þess sem þeir bæði boða og gera, og það eigi að gera þetta vald tiltölulega einfalt.

Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því, að í hverjum flokki fyrir sig eru auðvitað persónur og það verða bornar fram persónur, og eflaust hafa menn auga fyrir að velja persónur. En þeir hljóta samt að miða nokkuð við það, í hvaða flokkshóp menn hafa skipað sér, hvað það er sem menn boða sem stefnu sína og hvernig þeir hafa staðið að því að reyna að framfylgja henni.

Niðurstaða mín varðandi þetta atriði, um persónubundnara kjör, er þessi, að ég tel að mikill hluti af því, sem sagt hefur verið hér varðandi þetta atriði, fái ekki staðist við nánari athugun og sé ekki á neinn hátt af hinu góða. En ég segi: Það er sjálfsagt að athuga þær reglur sem eru í gildi hjá okkur núna varðandi rétt kjósenda til að hafa áhrif á röðun framboðslista, hvort rétt þyki að hreyfa þær reglur eitthvað til. Það er sjálfsagt að gera það. Ég fyrir mitt leyti vil að þær reglur séu þannig alveg óumdeilanlega, að ef meiri hl. kjósenda, sem kýs tiltekinn flokk eða tiltekinn lista, vill fá fram breytingu, þá á sú breyting að geta orðið. Og ég tel ekkert athugavert við að tiltekin stærð minni bl. geti komið fram breytingu, sérstaklega ef það er tryggt að aðrir, sem kjósa listann, viti að það er verið að reyna að knýja fram slíka breytingu og eigi þá kost á því að segja sitt um það jafnframt.

Þá er hitt atriðið sem hér hefur verið rætt allmikið um og er í sjálfu sér miklu stærra mál sem snertir kjördæmaskipunina sjálfa. Auðvitað býst ég við að menn geti tekið undir það, að sanngjarnt sé að reyna að hafa kosningarréttinn í landinu sem allra jafnastan. En síðan, þegar menn ganga lengra og huga að því hvernig við eigum að skipa þessum rétti, þá finna menn að þetta er ekki heldur auðvelt. Það var lengi svo, að sá flokkur, sem ég var í, boðaði að það eina rétta í þessu væri að hafa landið allt eitt kjördæmi. Það var líka stefna Alþfl. um langan tíma: Landið allt eitt kjördæmi, kjósum allt í einu lagi, og þá þurfa menn ekki að metast á um það hvers atkvæði er þar þyngst á vogaskálinni. — En fyrir þessu fékkst ekki nægjanlegt fylgi og flokkur minn hvarf einnig frá þessari kröfu og taldi að í meginatriðum væri búið að uppfylla það, sem stefnt var að með þessari kröfu, með því að taka upp hlutfallskosningakerfi í landinu og síðan með viðbótarákvæðum um ákveðin uppbótarþingsæti eða landskjörna þm. sem ættu að skiptast á milli þingflokka þannig að það yrði ekki mikið ósamræmi þar á milli flokkanna sem slíkra. Ég er á þeirri skoðun enn, að við eigum að halda í meginatriðum þeirri kjördæmaskipun, sem við búum við í dag, og ég tel hana ekki óeðlilega. Hitt er mér alveg ljóst, að tala hinna fastkjörnu þm. í hverju kjördæmi fyrir sig er ekki núna í fullu samræmi innbyrðis. Hún var það ekki einu sinni þegar þessar reglur voru settar á sínum tíma. Menn vissu mætavel að t.d. bæði Reykjavík og Reykjaneskjördæmi fengu ekki skv. þessari skipan að kjósa sér fasta þm. að sama hlutfalli og hin fámennari kjördæmi víða úti á landi. En þegar þessi kosningaskipan var ákveðin var mönnum miklu ofar í buga en virðist vera í dag að reyna að gæta að vissu réttlætt á milli stjórnmálaflokkanna í landinu, af því hér var byggt á stjórnmálaflokkum. En nú sýnist mér að margir tali þannig að kosningarnar ættu einna helst að vera eins og viss barátta á milli kjördæma, á milli landshluta, að menn þurfi að vera alveg öruggir um að þessi sé ekki borinn ofurliði af hinum landshlutanum. Ég hef fyrir mitt leyti aldrei viljað hugsa mér kosningar til Alþ. á þeim grundvelli. Fyrir mér hefur meginskipulag okkar varðandi stjórnmálaflokka haft það mikið gildi, að það hefur verið miklu þyngra í mínum huga að hér gilti réttlæti varðandi skipun þingsins á milli stjórnmálaflokkanna heldur en einhver nákvæm vog á milli landshluta, þó ég játi fullkomlega að það verður þó að taka tillit til þess að vissu marki.

Í áróðri fyrir því, að það þurfi að gera breytingu á því kerfi sem við búum við í þessum efnum, varðandi kjördæmaskipun, halda menn nú líka fram mjög mikilli fjarstæðu að mínum dómi. Í útreikningum þeirra, sem heimta breytingar, er alltaf verið að reikna það út að Reykjaneskjördæmi hafi bara 5 þm. og að Reykjavík hafi bara 12 þm. Það vantar hins vegar ekki að menn finni sér ágæta viðmiðun og segi að Vestfirðir hafi 7 þm., þó að þeir hafi auðvitað eftir sömu formúlu ekki nema 5.

Sannleikur málsins er sá, ef við lítum á þetta eins og málin standa í dag, að menn eru farnir að telja landskjörna þm., sem áttu að jafnast út á milli þingflokkanna, á milli flokkanna sem slíkra og voru þm. flokkanna, þá hefur farið svo um þessa þm., sem er úthlutað á milli flokkanna til jöfnunar hjá þeim, að menn telja þann, sem kemur frá Vestfjörðum, endilega Vestfjarðaþm. og þann, sem kemur af Austurlandi, Austfjarðaþm., þó menn vilji auðvitað helst ekki telja þá, sem koma af Reykjanesi, Reykjanesþm. og frá Reykjavík Reykjavíkurþm. En tölurnar í dag standa þannig, að það eru 24 þm. nú í dag frá Reykjavík og Reykjanesi. Það eru 8 þm. frá Reykjanesi og 16 frá Reykjavík. Það er að vísu rétt, að úr þessum tveimur stóru og fjölmennu kjördæmum á okkar mælikvarða eru 24 þm. eða 40% nákvæmlega af heildarþingmannatölunni. Það er rétt að meiri hluti landsmanna er búsettur hér, en 40% af þingmannatölunni, sem kemur út úr þessu voðalega gallaða kerfi, er þó ekkert lítið.

Ef menn líta svo aftur á það sem hlýtur að verða afleiðing þessara miklu togstreitu sem menn eru að setja hér á svið á milli einstakra kjördæma, af því að menn eru farnir að hugsa um að það sé aðalatriðið að þetta kjördæmi hafi ekki of marga menn og þessi landshluti hafi ekki of marga menn, eins og reipdrátturinn sé aðallega á milli þeirra, þá er líka réttmætt að hafa það í huga hvað margir þm. eru t.d. nú í dag búsettir í Reykjavík og voru kosnir sem Reykvíkingar. Með því að taka þar frekar lægri tölu, af því að það hefur verið að breytast — eftir að menn voru kosnir hafa sumir hverjir verið að breyta um búsetu — en með því að taka lægri töluna eru það óumdeilanlega 36 þm. eða sem nemur 60% af þingmannatölunni sem eru búsettir í Reykjavík og á Reykjanesi. Ég býst við því, að ef þessum reipdrætti, sem hér er mest talað um, verður haldið miklu lengur áfram, þá verði næsta stig að segja: Það nær vitanlega ekki nokkurri átt að Vestfirðingar séu að spandera sínum þingsætum í að kjósa hina voðalegu menn fyrir sunnan. Við kjósum enga nema búsetta Vestfirðinga. — Og þetta segi menn í öllum hinum kjördæmunum, af því að það eigi að líta svo á að þm., sem koma að vestan, séu eingöngu þm. Vestfirðinga og eigi ekki að hugsa um neitt annað á Alþ. heldur en málefni Vestfirðinga — og hið sama gildi nm þm. úr öðrum landshlutum. Þetta er fráleitt. Ég held að það yrði ekki á nokkurn hátt til þess að bæta okkar stjórnmálalegu vinnubrögð.

Þó að ég nefni þessar tölur um það, hvernig staðan er í dag, þá er ekki þar með að segja að það geti ekki fyllilega komið til mála að taka til endurskoðunar kjördæmaskipunina eins og hún er í dag með tilliti til þeirrar stöðu sem nú er komin upp. Það getur verið sjálfsagt að huga að því. En í þeim efnum er mér miklu ofar í huga að tryggja það um leið í sambandi bæði við kjördæmaskipun og kosningalög, að flokkarnir sem slíkir búi við jafnfræði varðandi styrk sinn á Alþ. með tilliti til kjósendafjölda. Það er ekki síður nauðsyn að tryggja það. Veruleg hætta er á því, ef menn hugsa eingöngu í vissum landshlutum eða í aðgreindum landshlutum, að menn geti fengið út hinn mesta óskapnað varðandi stöðu flokkanna innbyrðis. Einn flokkurinn gæti þurft að hafa miklum mun fleiri atkv. á bak við hvern kjörinn þm, en annar ef það eitt væri lagt til grundvallar.

Ég styð sjónarmið, sem hér hefur komið fram og kom m.a. fram hjá hæstv. dómsmrh., að þessi mál öll eru svo margslungin og flókin að það er nauðsynlegt að flokkarnir og hv. alþm. gefi sér góðan tíma til að athuga þær hugmyndir sem fram koma um breytingar bæði á kjördæmaskipun og kosningalögum. Menn munu þar reka sig á það nú eins og áður, þegar tekist er við þessi vandamál, að hér er um það flókin mál að ræða að fyrstu hugmyndir manna um breytingar taka gjarnan breytingum þegar þeir eru búnir að skoða málin nánar. Ég held að það sé því alveg sjálfsagt að athuga að hve miklu leyti er þörf á því að breyta kjördæmaskipuninni og ákvörðun um fjölda þm. frá hverju kjördæmi, Það er sjálfsagt að taka það til athugunar. Það er þegar liðinn alllangur tími síðan ákvörðun var síðast tekin í málinu. Ég hef fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga, en legg á það áherslu, að það er miklu þýðingarmeira að gæta þess, að stjórnmálaflokkarnir, sem allur þessi grundvöllur hvílir á, búi við svipaðan rétt allir og hér hafi þeir þm.-tölu hverju sinni miðað við það atkvæðamagn sem þeir hafa, heldur en hitt, hvort t.d. uppbótarþm. eða landskjörnir þm. flokks koma eftir ákveðnum útreikningi úr þessu kjördæminu eða hinu.

Ég þarf ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð en ég hef haft. Ég álít að frv., sem hér liggur fyrir, leysi engan vanda, það sé í rauninni augljóst dæmi um það sem ég kalla yfirborðslýðræði, því það er hreint yfirborðslýðræði að bjóða mönnum eitthvað sem menn geta raunverulega ekki notfært sér með neinum árangri. Ég held að við verðum að horfast í augu við það, að við munum áfram byggja í meginatriðum á þeim grundvelli sem við höfum byggt á, þ.e.a.s. á stjórnmálaflokkum sem verða vitanlega sjálfir í meginatriðum að geta ákveðið hvaða menn þeir velja sér, þessir stjórnmálaflokkar, til þess að túlka sínar skoðanir. Það er auðvitað alveg fráleitt að reyna að byggja upp eitthvert slíkt kerfi að menn úr öðrum flokkum geti ráðið því, hverjir eigi að vera talsmenn einhvers flokks, eins og sá prófkjörfaraldur, sem nú gengur yfir, stefnir því miður augljóslega að. Á fyrsta spretti er þetta þannig, að það eru ekki nema örfáir sem eru svo framtakssamir að þeir þjóta úr öðrum flokkum og taka þátt í prófkjöri einhvers flokks, en í næstu umferð rjúka allir af stað og velja sér andstæðinga eftir vild. Og það er að mínum dómi ekki lýðræði. Þó að mönnum þyki gaman að því að stunda margar kosningar á hverju ári, þá held ég það leysi ekkert.

Ég endurtek svo það, að ef þetta frv. fer til n. getur það verið grundvöllur til umræðu um málið, en ég aðhyllist ekki stefnu frv.