05.05.1978
Neðri deild: 99. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4510 í B-deild Alþingistíðinda. (3895)

309. mál, almannatryggingar

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Eins og ég gat um við 1. umr. hef ég leyft mér að leggja fram brtt. við þessa svokölluðu endurskoðun sem fram hefur farið á lögum um almannatryggingar, og það er m. a. vegna þess, að ég vil sýna það í verki, að mér finnst vera nauðsyn á að þm. notfæri sér þann rétt sem þeir hafa til þess að bera fram till. um breytingar á þessum lögum en sá réttur hefur satt að segja vart verið í gildi undanfarin tvö ár, þar sem öllum till., sem hafa komið frá einstökum þm. um þessi efni, hefur raunverulega verið vísað frá á þeirri forsendu að verið væri að endurskoða lög um almannatryggingar. Hins vegar hefur komið í ljós — og það reyndar strax í upphafi nefndarstarfa hjá þeirri n. sem undirbjó frv. — að hún ætlaði sér alls ekki að taka til greina neinar till. frá þm. En þetta hefur verið svona í reynd, að þær hafa ekki fengist afgreiddar á þeirri forsendu að verið væri að endurskoða lögin.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. í þrem liðum á þskj. 880. Till. eru svo hljóðandi:

a. 3. mgr. 12: gr. laganna orðist svo:

„Tryggingayfirlæknir metur ásamt lífeyrisdeildarstjóra og félagsráðgjafa örorku þeirra sem sækja um örorkubætur.“

Þessi till. er flutt hér samkv. ábendingu starfsfólks í Tryggingastofnuninni, enda er fullkomlega óeðlilegt að þetta mat sé í höndum eins manns þó að hann sé menntaður læknir. Það eru miklu fleiri atriði, sem koma til greina við mat á örorku, heldur en bara læknisfræðilegt mat, og þess vegna legg ég til að félagsráðgjafi fái hér um að fjalla og eins deildarstjóri lífeyrisdeildar. Þetta mál hefur reyndar verið flutt áður. á Alþ., en fékk ekki afgreiðslu.

Í öðru lagi flyt ég brtt. sem yrði 4. gr. Hún er um að niður falli í 14. gr. laganna, 1. mgr., orðin „enda eigi barnið lögheimili hér á landi.“ Í reynd hefur þetta verið svo, að þetta hefur ekki tekið til margra. Það eru nokkrir einstaklingar sem um er að ræða. En það hefur verið þannig í reynd, að börn, sem af einhverjum ástæðum hafa verið búsett erlendis, en samt verið undir forræði fólks hér á landi, hafa ekki fengið þessar bætur.

Og svo er það í þriðja lagi brtt. um að niður falli í 17. gr. laganna 1. mgr., orðin „innan 67 ára aldurs.“ Þessi till. er flutt vegna þess, að mér finnst vera algerlega óþarfi og meira en lítið skrýtið að taka þessar bætur af fólki sem er komið yfir 67 ára aldur og jafnvel nýtur ekki annarra launa en ellilauna.

Ég held að ég þurfi varla að rökstyðja þessar till. meira hér, þær skýra sig sjálfar. En ég vil taka fram að þetta er allt saman gert fyrir ábendingar fólks sem vinnur í Tryggingastofnuninni. Hins vegar vil ég endurtaka þá gagnrýni sem ég hef komið fram með hér áður, að mér finnst það algerlega óviðunandi afgreiðsla hér á þingi að láta fresta og grafa öll mál, sem almannatryggingarnar snerta, í tvö ár vegna einhverrar endurskoðunar sem að vísu hefur verið gerð, en hefur alls ekki tekið til nærri því allra atriða laganna.

Að lokum langar mig til að minnast á eitt ákvæði til bráðabirgða sem hér hefur einstaka sinnum verið spurt um, en það er um það, að fyrir árslok 1975 átti heilbr.- trmrh. að láta fara fram könnun í fyrsta lagi á framfærslukostnaði elli- og örorkulífeyrisþega, og átti hún að ná bæði til einstaklinga og hjóna er njóta elli- og örorkulífeyris, og í öðru lagi á framfærslukostnaði barna einstæðra foreldra. Hliðsjón af þessari könnun átti að vera höfð við ákvörðun elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar hjóna og einstaklinga og síðan við ákvörðun barnalífeyris. Ég minni bara á þetta svona í framhjáhlaupi til að sýna enn betur fram á hversu hefur verið komist hjá að sinna þessum málum á þeirri forsendu að þessi endurskoðun væri í gangi.