05.05.1978
Neðri deild: 100. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4513 í B-deild Alþingistíðinda. (3906)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hljóðs, er sú, að vekja athygli á orðalagi sem mér þykir mjög orka tvímælis í þeim brtt., sem samþ. hafa verið í Ed. Þessar brtt. eru á þskj. 888 og þar segir að við í 14. gr., lið 10, bætist:

„Ráðh. getur í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir fellt niður einn eða fleiri af málsliðum þessarar greinar.“ Ef við lítum á hvaða grein þetta er sjáum við að hér er um undanþáguákvæði að ræða, þar sem gert er ráð fyrir að þrátt fyrir framangreinda skiptingu í heilsugæslusvæði eigi heilsugæslustöð í Stykkishólmi þar til öðruvísi verður ákveðið að þjóna Flateyjarhreppi, heilsugæslustöð í Búðardal að sjá um læknismóttöku á Reykhólum og heilsugæslustöð á Þórshöfn að þjóna Skeggjastaðahreppi. Eflaust er þessi grein komin inn til þess að gera ráð fyrir því, að ráðh. geti í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir fellt niður að þessar heilsugæslustöðvar þjóni viðkomandi sveitarfélögum. Ég held þess vegna að orðalag sé þarna harla óheppilegt, því að ef við lesum þarna málið eins og það stendur: „Ráðh. getur í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir fellt niður einn eða fleiri af málsliðum þessarar greinar,“ þá hlýtur að koma spurning upp um það, hvort ráðh. ásamt sveitarstjórnum hafi vald til þess að fella niður málsl. úr lögunum eða breyta lögunum. Ég skil þetta a. m. k. þannig. Þess vegna var ég nú, þegar boðað var að þetta yrði á dagskrá, að hripa upp brtt. sem ég tel að nái þeim tilgangi sem þarna er og að þessi brtt. hljóði þannig:

„Ráðh. getur í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir ákveðið breytingar á framkvæmd einstakra málsliða samkv. 2.–9. mgr. þessarar greinar.“

Þá er það skýrt að það er ekki verið að breyta lögunum, heldur er verið að ákveða um framkvæmd þessarar greinar.

Ég vildi gjarnan vekja athygli á þessu, hvernig menn skilja það og hvort þeim sýndist að hér yrði betur orðað eða skýrar orðað. Þessi brtt. mín er að sjálfsögðu allt of seint fram komin, en ég legg hana hér með fyrir, ef mönnum sýndist svo að það væri hægt.